Baráttufundur 1. maí Óleiðréttur launamunur kvenna og karla hefur dregist saman en mælist þó enn umtalsverður skv. tölum Hagstofunnar.
Baráttufundur 1. maí Óleiðréttur launamunur kvenna og karla hefur dregist saman en mælist þó enn umtalsverður skv. tölum Hagstofunnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hagstofa Íslands birti upplýsingar í gær sem leiða í ljós að svonefndur óleiðréttur launamunur karla og kvenna á vinnumarkaði var 9,1% á seinasta ári. Launamunurinn minnkaði frá árinu á undan þegar hann var 10,2% samkvæmt útreikningum Hagstofunnar…

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Hagstofa Íslands birti upplýsingar í gær sem leiða í ljós að svonefndur óleiðréttur launamunur karla og kvenna á vinnumarkaði var 9,1% á seinasta ári. Launamunurinn minnkaði frá árinu á undan þegar hann var 10,2% samkvæmt útreikningum Hagstofunnar og hefur raunar dregið úr óleiðréttum launamun á milli karla og kvenna jafnt og þétt. Hann mældist 11,9% í hitteðfyrra og sé litið tíu ár aftur í tímann þá var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 19,9% á árinu 2013 svo dæmi séu tekin.

Hafa ber í huga, þegar þessar niðurstöður eru skoðaðar, líkt og Hagstofan tekur fram, að við útreikninga á óleiðréttum launamun er ekki tekið tillit til skýringarþátta sem geta haft áhrif á laun einstaklinga. Á það einkum við um menntun, aldur, störf og starfsaldur. Í rannsóknum, þar sem reynt hefur verið að taka tillit til áhrifaþátta sem geta að einhverju leyti skýrt mishá laun, í þeim tilgangi að finna svonefndan leiðréttan launamun, hafa niðurstöður þeirra ætíð leitt í ljós að kynbundinn launamunur er til staðar á vinnumarkaði, þó hann sé minni en ofangreindar tölur benda til og fari hægt og sígandi minnkandi.

Útreikningarnir á óleiðréttum launamun kynja sem Hagstofan birti í gær eru byggðir á aðferðum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Reiknað er meðaltímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunurinn, sem hlutfall af meðaltímakaupi karla, er túlkaður sem óleiðréttur launamunur.

Niðurstöðurnar gefa ákveðna mynd af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðarins hvað varðar aldur, störf og atvinnugreinar og hver þróunin hefur verið á umliðnum árum. Í umfjöllun Hagstofunnar er bent á að launadreifing eftir kyni fyrir allan vinnumarkaðinn sýni áhrif kynskipts vinnumarkaðar. Hlutfalllega fleiri konur séu í lægra launuðum störfum en karlar. Þeir raðast frekar þar sem tímakaup er hærra og vinna auk þess að jafnaði meiri yfirvinnu en konur og því með hærra tímakaup. Þá hafa há laun vitaskuld þau áhrif að hækka meðaltölin í svona samanburði og þar sem algengara er að karlar séu með laun í hæsta launastigi geti það ýkt launamuninn.

Launamunur karla og kvenna eykst með hækkandi aldri

„Launamunur jókst eftir aldri og var munurinn 0,7% á meðal 24 ára og yngri, 8,8% í aldurshópnum 35-44 ára og 16,3% á meðal 55-64 ára. Mikill munur var á launamuni eftir atvinnugreinum. Í fjármála- og vátryggingastarfsemi var munurinn 26,2% en minnstur í rafmagns-, gas- og hitaveitum eða 4,1%,“ segir í frétt Hagstofunnar í gær.

Bent er á að óleiðréttur launamunur karla og kvenna eftir starfsstéttum var á bilinu -0,5% meðal skrifstofufólks og 20,5% á meðal tækna og sérmenntaðs starfsfólks. „Ein helsta skýring þess launamunar sem er til staðar á Íslandi er kynbundin skipting í störf og atvinnugreinar samanber rannsókn á launamun karla og kvenna sem kom út árið 2021. Þar kemur fram að um 43% kvenna á vinnumarkaði árið 2019 störfuðu hjá hinu opinbera en einungis um 15% karla. Launamunur var 13,5% á almennum vinnumarkaði, 9,1% hjá starfsfólki ríkisins og 6,1% á meðal starfsfólks sveitarfélaga,“ segir enn fremur í umfjöllun Hagstofunnar.