Þorpsvá Þéttur reykjarmökkur stígur upp úr skóglendi í nágrenni þorpsins Guimar á meðan eldhafið litar himininn.
Þorpsvá Þéttur reykjarmökkur stígur upp úr skóglendi í nágrenni þorpsins Guimar á meðan eldhafið litar himininn. — AFP/Desiree Martin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúmlega 7.500 manns höfðu annaðhvort þurft að rýma heimili sín eða verið skipað að fara ekki út úr húsi á Kanaríeyjunni Tenerife um það leyti sem Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi. Eyjarskeggjar, auk fjölda ferðamanna hvaðanæva, horfa nú upp á…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Rúmlega 7.500 manns höfðu annaðhvort þurft að rýma heimili sín eða verið skipað að fara ekki út úr húsi á Kanaríeyjunni Tenerife um það leyti sem Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Eyjarskeggjar, auk fjölda ferðamanna hvaðanæva, horfa nú upp á umfangsmestu skógarelda sem þar hafa geisað í fjóra áratugi en 26 ferkílómetrar skóglendis höfðu orðið eldunum að bráð í gærkvöldi og færast þeir nær höfuðborginni Santa Cruz.

Að sögn Fernando Clavijo umdæmisstjóra Kanaríeyja börðust 250 slökkviliðsmenn við eldhafið í gær með neyðarsveitir hersins sér til fulltingis auk þess sem sautján flugvélar dembdu vatni látlaust yfir logandi skóglendið.

Það var á þriðjudaginn sem eldurinn kviknaði á norðausturhluta Tenerife og sagði Clavijo við breska dagblaðið The Guardian að aðfaranótt gærdagsins hefði verið slökkviliðinu mjög erfið, hér væri við válegustu skógarelda í 40 ár að eiga – „ef ekki nokkru sinni“, bætti umdæmisstjórinn við.

Býr í Voninni

Vicky Palma, tæknilegur ráðgjafi yfirvalda vegna eldanna, hallast að því síðara og sagði skógarelda í líkingu við þessa ekki hafa þekkst á Kanaríeyjum síðan tekið var að halda skrár yfir slíkar hamfarir. Til viðbótar við eyðilegginguna hefðu eldarnir myndað sitt eigið veðrakerfi sem gerði það að verkum að sjóðheitri ösku rigndi yfir bæinn El Rosario á norðausturhluta Tenerife.

Í gærkvöldi átti eldhafið tæpa 20 kílómetra eftir til Santa Cruz og sagði Clavijo umdæmisstjóri að rýmingarnar og útgöngubannið væru til að tryggja öryggi íbúa en ekki síður til að slökkvilið gæti unnið sitt starf ótruflað.

Alba Gil býr í þorpinu La Esperanza, sem á hinu ylhýra útleggst Vonin, svo viðeigandi sem það er. Þar ríkir útgöngubann og sagði Gil við Reuters-fréttastofuna í gærkvöldi að hún og fjölskylda hennar hefðu verið vakandi síðan klukkan fjögur um morguninn af einskærum áhyggjum af hamförunum. „Þú nærð bara ekki andanum ef þú ferð út, það líkist þeirri tilfinningu að eitthvað sé fast í hálsi manns,“ sagði Gil.

Eins og víða annars staðar í Evrópu hefur hitabylgja legið yfir Kanaríeyjum og hiti farið þar yfir 40 gráður síðustu daga. Hefur hitinn linað tak sitt örlítið nú en spáð er að hitastigið hækki á ný á sunnudaginn.

Á nágrannaeyjunni La Palma kviknuðu einnig eldar í júlí og var rúmlega 2.000 gert að rýma heimili sín þar af öryggisástæðum. Þar brunnu 45 ferkílómetrar lands en á Spáni öllum brenndu skógar- og gróðureldar alls 640 ferkílómetra til ösku fyrstu sjö mánuði ársins.

Fá ekki rönd við reist

Sigvaldi Kaldalóns ræddi við mbl.is í gær en hann rekur ferðaþjónustuna Tenerifeferðir. Kvað Sigvaldi skógareldana stjórnlausa og hefðu viðbragðsaðilar einfaldlega lýst því yfir að þeir fengju ekki rönd við reist. „Eldarnir hafa breiðst út norður á eyjuna mun hraðar en þeir voru að vona. Það voru að koma sjóflugvélar frá meginlandinu í morgun, fjórar held ég, til að bera vatn,“ sagði Sigvaldi.

Hann kvað þó ekki mikið um afbókanir Íslendinga á fyrirhuguðum ferðum til eyjarinnar sem þjóðin hefur sótt mjög fast síðustu ár.