Halla Hrund Logadóttir
Halla Hrund Logadóttir
Fæst þeirra tæplega 200 ríkja sem eiga aðild að Parísarsamkomulaginu hafa náð tilætluðum árangri.

Halla Hrund Logadóttir

Fréttir af flóðum, aurskriðum, skógareldum og öðrum afleiðingum hækkandi hita á jörðinni hafa borist frá öllum heimshornum í sumar, en júní í ár var heitasti mánuður sem mælst hefur á jörðinni. Átta ár eru liðin frá því að Parísarsamkomulagið var undirritað, sem fól í sér yfirlýsingu ríkja um að þau myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að draga úr losun lofttegunda til að halda hækkun á hitastigi innan við 1,5°C.

Fyrir næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er unnið að sérstöku stöðumati á aðgerðunum. Ljóst er að fæst þeirra tæplega 200 ríkja sem eiga aðild að Parísarsamkomulaginu hafa náð tilætluðum árangri. Verstu fréttirnar eru að ríkin sem skipta höfuðmáli eiga langt í land. Hér er meðal annars horft til Kína, Bandaríkjanna og Indlands, sem samanlagt eru ábyrg fyrir rúmlega 40% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Áhugavert er að skoða þróun þessara stóru ríkja í samhengi við mögulegt framlag Íslands til þeirrar nýju iðnbyltingar sem orkuskiptin eru.

Framfarir og áskoranir í Asíu

Kína trónir á toppnum yfir þau ríki sem losa mest í heiminum. Kína, sem hýsir um fimmtung mannkyns, losar meira af gróðurhúsalofttegundum en Bandaríkin, Evrópusambandið og Japan til samans. Undanfarna tvo áratugi hefur losun þar í landi stóraukist samhliða efnahagslegri uppbyggingu. Hins vegar gefa ýmsar fréttir frá Kína vonir um breytingar til batnaðar í heiminum. Hlutur endurnýjanlegrar orku hefur þar vaxið töluvert; vind- og sólarorka í flutningskerfinu hefur níutíufaldast undanfarinn áratug og jarðhitinn komist á kortið. Í nágrannaríki Kína, Indlandi, sem er númer þrjú þegar kemur að losun, eru 75% orkunnar framleidd með kolaverum en aukin áhersla hefur verið sett á endurnýjanlega orkugjafa, svo sem með nýtingu jarðhita í samstarfi við Ísland. Hagvöxtur í efnahagslífi þessara tveggja fjölmennustu ríkja heims hefur aukið orkuþörf þeirra og þar með losun þar sem framlag grænna orkugjafa er enn ófullnægjandi. Staðan undirstrikar nauðsyn þess að fjárfesta í grænum innviðum við uppbyggingu hagkerfa heimsins.

Þróun á Vesturlöndum

Bandaríkin losa næstmest af gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Þar í landi var mikilvægt skref tekið í fyrra með hinu svokallaða „The Inflation Reduction Act“-frumvarpi sem tryggði metfjárfestingu fyrir grænar lausnir og skylda tækniþróun.

Evrópusambandið, sem í dag ber ábyrgð á 18% af losun heimsins, hefur líka sótt fram og stefnir að því að Evrópa verði fyrsta kolefnislausa heimsálfan árið 2050. Áherslan á græna orku hefur verið afdráttarlausari eftir að stríðið í Úkraínu hófst enda þurfti sambandið að endurhugsa orkuöryggismál þegar kaup á gasi frá Rússlandi fóru úr 40% af heildarinnflutningi álfunnar niður í 7,5% á milli áranna 2021-2022.

Rússar eru númer fjögur hvað viðkemur losun og þótt sala þeirra af olíu og gasi til Evrópu hafi dregist verulega saman er ekki þar með sagt að notkunin hafi gert það sömuleiðis. Stór hluti orkusölu Rússa hefur einfaldlega færst til Asíu og losunin þar með sömuleiðis.

Orkunýtni og nýsköpun sem hluti af lausninni

Þó að uppbygging endurnýjanlegrar orkuvinnslu sé lykilatriði fyrir orkuskiptin er hægt að ná miklum árangri með því að nýta betur þá orku sem við eigum nú þegar með bættri orkunýtni. Alþjóðaorkumálastofnunin hefur bent á að hægt sé að ná sem nemur 40% af markmiðum Parísarsáttmálans er tengist losun frá orku með þeim hætti.

Slíkar leiðir draga úr þörf á ágangi á náttúruna og eru jafnan hagkvæmasta lausnin fyrir almenning. Nýjungar í hringrásarhagkerfinu eru einnig mikilvægar því þeim er ætlað að draga úr ágangi á auðlindir og myndun úrgangs. Tæknibyltingar á borð við gervigreind svo sem ChatGPT frá Open AI gefa svo enn frekari tækifæri í þessum efnum, en sem dæmi má nýta hana í framtíðinni til að greina gögn um veðurfar, orkunotkun og ástand flutningskerfa sem geta aukið áreiðanleika endurnýjanlegra orkukerfa.

Ísland fyrirmynd í orkuskiptum

Íslendingar eru í öfundsverðri stöðu þegar kemur að orkuskiptum enda eru um 85% af okkar frumorkunotkun frá grænni orku. Gróskumikil nýsköpun í grænum orkulausnum er einnig þegar orðin verðmæt útflutningsvara. Nefna má útflutning á jarðhitaþekkingu, alþjóðleg verkefni Carbfix – sem og möguleika nýrra vaxtarsprota svo sem Sidewind, Alor, E1-hleðslulausnarinnar og Snerpu power sem allar miða að bættri orkunýtni og geta nýst um allan heim.

Þrátt fyrir fjölbreyttar orkuauðlindir verður Ísland aldrei rafhlaða til að knýja alla raforkuþörf heimsins, það má sjá í heildarsamhengi mála. Stærsta tækifæri okkar er einfaldlega að styðja við jákvæða þróun annars staðar með því að flytja út okkar þekkingu um leið og við vinnum að því að klára orkuskiptin hér í takt við áherslur stjórnvalda. Þannig á Ísland möguleika á að vera fyrsta ríkið sem sýnir að hægt sé að reka heilt samfélag með grænni orku og verða þar með dæmið sem heimurinn þarf. Slík niðurstaða skapar Íslandi sérstöðu og fjölbreytt sóknarfæri á sviði viðskipta-, utanríkis- og umhverfismála. Spyrja má: ef Ísland getur það ekki, hver getur það þá?

Höfundur er orkumálastjóri.