Vítabani Monica Wilhelm varði vítaspyrnu gegn Þrótturum.
Vítabani Monica Wilhelm varði vítaspyrnu gegn Þrótturum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Monica Wilhelm markvörður Tindastóls var besti leikmaður 16. umferðar Bestu deildar kvenna í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Wilhelm fór á kostum í marki Tindastóls þegar liðið vann afar mikilvægan útisigur gegn Þrótti úr Reykjavík í Laugardalnum, 2:0

Monica Wilhelm markvörður Tindastóls var besti leikmaður 16. umferðar Bestu deildar kvenna í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Wilhelm fór á kostum í marki Tindastóls þegar liðið vann afar mikilvægan útisigur gegn Þrótti úr Reykjavík í Laugardalnum, 2:0.

Wilhelm bókstaflega lokaði markinu í leiknum, ásamt því að verja vítaspyrnu frá Katie Cousins, en hún fékk þrjú M fyrir frammistöðuna gegn Þrótturum.

Bandaríski markvörðurinn, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Tindastól fyrir tímabilið og hefur leikið alla 16 leiki liðsins í Bestu deildinni á tímabilinu.

Hún lék með háskólaliði Iowa í Bandaríkjunum í fjögur ár áður en hún gekk til liðs við Sauðkrækinga í febrúar á þessu ári.

Wilhelm var ætlað að fylla skarðið sem Amber Michel skildi eftir sig í vetur þegar hún tilkynnti að hún væri óvænt hætt í fótbolta, þá 25 ára gömul, en hún hafði varið mark Tindastóls frá árinu 2020.

Tindastóll er nýliði í Bestu deildinni og er að leika í efstu deild í annað sinn í sögu félagsins en Wilhelm hefur fengið á sig 29 mörk í sumar. Þá var þetta í fimmta skiptið í sumar sem Wilhem tekst að halda marki sínu hreinu í deildinni.

Þá fengu tveir leikmenn tvö M fyrir frammistöðu sína í 16. umferðinni. Murielle Tiernan framherji Tindastóls var á skotskónum í sigrinum gegn Þrótti en hún hefur skorað fjögur mörk í 15 leikjum. Þá fékk Sædís Rún Heiðarsdóttir bakvörður Stjörnunnar einnig tvö M fyrir frammistöðu sína í 4:2-sigrinum gegn Breiðabliki í Garðabænum en hún var frábær fyrir Stjörnuna og lagði upp tvö mörk í leiknum.

Monica Wilhelm er í liði umferðarinnar í fjórða sinn í sumar, líkt og liðsfélagi hennar Murielle Tiernan. Shaina Ashouri, sóknarmaður hjá FH, er í liðinu í sjötta sinn í sumar og miðvörðurinn Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður toppliðs Vals, er í fimmta sinn í liði umferðarinnar.