Sögumaður Hallveig Thorlacius fléttar saman tvær sögur í Babúsku, fyrstu spennubók sinni fyrir fullorðna.
Sögumaður Hallveig Thorlacius fléttar saman tvær sögur í Babúsku, fyrstu spennubók sinni fyrir fullorðna. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
„Ég veit ekkert skemmtilegra en að setjast niður og spinna sögur,“ segir Hallveig Thorlacius, sem hefur gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina. Hún stundaði nám við háskólann í Moskvu og lærði síðar dramatúrgíu fyrir brúðuleikhús í Tékklandi

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

jonagreta@mbl.is

„Ég veit ekkert skemmtilegra en að setjast niður og spinna sögur,“ segir Hallveig Thorlacius, sem hefur gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina. Hún stundaði nám við háskólann í Moskvu og lærði síðar dramatúrgíu fyrir brúðuleikhús í Tékklandi. Hún hefur starfað sem brúðuleikari árum saman og rekur brúðuleikhúsið Sögusvuntuna. Hallveig hefur skrifað spennusögur fyrir unga lesendur: Martröð (2008), Augað (2013) og Svörtu pödduna (2016).

Nýlega kom út hjá Ormstungu spennusagan Babúska sem er fyrsta bók hennar fyrir fullorðna. „Ég er með einhverja áráttu, þarf alltaf að vera að segja sögur og er búin að nota alls konar miðla til þess. Ég var lengi með brúðuleikhús og svo fór ég að skrifa spennusögur fyrir unglinga. Það eru sennilega tvö til þrjú ár síðan Babúska fæddist og hún hefur smám saman verið að taka á sig endanlega mynd,“ segir Hallveig og heldur áfram: „Babúska er nú þannig framhald af þessari söguáráttu minni og fjallar meðal annars um ýmislegt sem miður fer í okkar lífi en það er falið inni í sögunni og við vitum ekki hvað það er fyrr en í lok bókar.“

Stútfull af Síberíusögum

Hallveig fléttar saman tvær sögur í Babúsku. Í annarri segir frá atburðarás í kjölfar þess að unglingsstúlka verður fyrir bíl og lætur lífið fyrir framan Þjóðleikhúsið. Eina vitnið að þessum atburði er Svetlana, rússneskur bókmenntafræðingur sem skúrar gólfin í Arnarhvoli. „Ég hef svolítið verið að þvælast um Rússland og sérstaklega Síberíu með leikhúsið mitt. Mér fannst Síbería sérlega áhugaverður vettvangur þannig að sagan gerist að einhverju leyti þar og tvær persónur í sögunni eru þaðan,“ segir Hallveig og heldur áfram: „Ég var svo stútfull af þessum Síberíusögum og vildi endilega koma þeim að. Það er svona þegar maður er að ferðast aleinn og kynnist fólki, þá heyrir maður svo margar sögur.“

Trúir á aðra tilveru

Hin sagan í bókinni gerist norður í Urriðavík þar sem öll sveitin stendur á öndinni vegna dularfullra morða og reimleika. Birta, fjórtán ára niðursetningur sem hengdi sig úti í fjósi hundrað árum áður, gengur aftur og er kennt um voðaverkin. „Ég hef alltaf haft áhuga á því að skoða tilveruna svolítið frá annarri hlið en bara því sem blasir við okkur. Ég held að tilveran sé ekki eins og við höldum og mér finnst gaman að velta því fyrir mér. Ég geri það í gegnum ömmuna eða „babúsku“ í bókinni.“

Myndir þú segja að bókin væri ákveðin þjóðfélagsgagnrýni?

„Já, ég held það. Þetta eru tvær sögur sem fléttast saman og hafa báðar með sér í rassvasanum ákveðna hluti sem þyrfti að laga. Ég vil ekki segja of mikið en ég get látið fljóta með að ég hef verið mjög upptekin af velferð barnanna okkar í mínu starfi og í bókinni kemur það óbeint við sögu,“ svarar hún.

Hallveig segir hins vegar erfitt að hasla sér völl sem rithöfundur hérlendis. „Ég finn að það að skrifa bækur er að sumu leyti orðið úrelt, fólk vill ekkert endilega lesa, þótt það geri nú meira af því en við höldum. Ef maður er hvorki Arnaldur né Yrsa þá er erfitt að vekja athygli. Ég vona samt að einhver kippi nú Babúsku með sér í sumarbústaðinn.“

Byrjuð á ævisögunni

Hvað er næst á döfinni hjá þér?

„Ég er orðin háð því að skrifa svo að ég byrjaði að skrifa ævisögu mína og er að því núna en það má segja að þetta sé jafnframt ferðasaga af því ég er búin að þvælast svo mikið um heiminn með Sögusvuntuna,“ segir Hallveig og heldur áfram: „Mér datt ekki í hug að ég myndi nokkurn tímann fara að skrifa um sjálfa mig en þetta er bara langbesta leiðin til að kynnast sjálfum sér og því lífi sem maður hefur lifað. Ég ráðlegg öllum að prófa.“