Tímamót Jakob Frímann Magnússon fagnar tónlistarmiðstöð.
Tímamót Jakob Frímann Magnússon fagnar tónlistarmiðstöð. — Morgunblaðið/Kristinn
„Þetta markar viss tímamót í okkar tónlistarlífssögu“, segir Jakob Frímann Magnússon, alþingismaður og tónlistarmaður, um stofnun Tónlistarmiðstöðvar Íslands sem greint var frá í vikunni. „Þarna er í fyrsta skipti verið að taka utan um greinina í…

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Þetta markar viss tímamót í okkar tónlistarlífssögu“, segir Jakob Frímann Magnússon, alþingismaður og tónlistarmaður, um stofnun Tónlistarmiðstöðvar Íslands sem greint var frá í vikunni. „Þarna er í fyrsta skipti verið að taka utan um greinina í heild sinni í öllum sínum fjölbreytilegu myndum og veita ráðgjöf og þjónustu þeim sem hafa þetta að atvinnu og þeim sem eru að búa til efni í hvaða mynd sem það er.“

Jakob segir að aðstæður til útgáfu tónlistar séu breyttar frá því sem áður var. „Það eru færri sem komast á hljómplötusamninga og veltan í þeim geira er mun minni en hún áður var.“ Einstaklingsframtakið komi fólki áfram og jafnvel yfirdráttarheimildir til að hafa möguleika á því að slá í gegn.

Byggt á jákvæðri reynslu

Jakob segir að fyrirmyndin að stofnun Tónlistarmiðstöðvar Íslands sé að vissu leyti sótt til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, en þar verða kraftar fjölmargra aðila sem unnið hafa að framgangi íslenskrar tónlistar sameinaðir og sköpunarkraftur listamanna virkjaður með stuðningi við nýsköpun og þróun, ekki síst til útrásar á erlenda markaði.

„Vinnulagið hér hefur oftast verið þannig að menn mæta í hljóðver og telja í en í flestum öðrum löndum á sér stað ákveðin þróun.“ Jakob vísar til þess að oft þurfi að slípa lagasmíðar til áður en þeim er hleypt út á markaðinn með aðstoð reynslumikilla aðila eins og þekkist í kvikmyndageiranum. Þar séu handrit til að mynda látin ganga í gegnum ákveðna síu áður en þau fái fulla fjárveitingu.

Sköpun tekur tíma

„Sum lög verðskulda að fá ákveðinn meðgöngutíma og atfylgi fleiri en efni væru til. Það má færa rök að því að við erum með mörg hundruð milljóna króna veltu í tónlistargeiranum. Tónleikahald er aðaltekjustofninn í dag,“ segir Jakob en bendir jafnframt á að áskriftargjöld íslenskra notenda að Spotify nemi umtalsverðum fjárhæðum á ári, enda greiðandi notendur í hverjum mánuði á Íslandi um 150 þúsund.

„Tónlistin er alltaf til á eigin forsendum sem listgrein og menningararfur en þarna er líka verið að huga að því að hagkerfi tónlistarinnar sé viðurkennt og örvað.“

Jakob Frímann segir sóknarfæri vera til staðar fyrir íslenska tónlist á erlendum mörkuðum. „Það eru alls kyns sóknarfæri og möguleikar, bæði í lifandi flutningi og útgáfustarfsemi víðar en á örmarkaði íslenskum.“ Hann segist vera þakklátur fyrir hönd greinarinnar og að Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hafi komið auga á þau tækifæri sem eru til staðar og fundið leið til að láta þau verða að veruleika.

Tónlist

Gjörbreytt umhverfi frá fyrri tíð

Færri fá hljómplötusamninga en áður

Tekjur listamanna í dag aðallega af tónleikahaldi og streymisveitum

Nýrri tónlistarmiðstöð ætlað að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs

Fjárframlög aukin til 2025

Höf.: Hörður Vilberg