Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Erlendum ríkisborgurum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um tæplega 15 þúsund milli annars ársfjórðungs 2019 og annars fjórðungs í ár. Til samanburðar fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 5.700 á tímabilinu. Hlutfallslega fjölgaði erlendum ríkisborgurum um rúm 50% en íslenskum ríkisborgurum um innan við 3%.
Fjallað er um þessa þróun í Morgunblaðinu í dag en tölurnar eru sóttar á vef Hagstofunnar.
Verulega hægði á fjölgun erlendra ríkisborgara milli annars ársfjórðungs 2020 og annars ársfjórðungs 2021 sem skýrist af farsóttinni.
Orðnir tæplega 44 þúsund
Eftir að farsóttin gekk til baka hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað hratt og eru þeir nú tæplega 44 þúsund talsins á höfuðborgarsvæðinu. Það samsvarar um 17,5% af íbúafjöldanum og styttist því í að fimmti hver íbúi verði af erlendu bergi brotinn.
Erlendum ríkisborgurum fjölgaði mest í Reykjavík á tímabilinu eða um 10.700. Næstur kom Kópavogur en þar fjölgaði erlendum ríkisborgurum um tæplega 1.600.
Kallar á þúsundir íbúða
Sé miðað við að rúmlega tveir búi að jafnaði í íbúð kalla tæplega 15 þúsund nýir erlendir íbúar á rúmlega sjö þúsund nýjar íbúðir.
Sömu sögu er að segja frá Reykjanesbæ. Þar fjölgaði erlendum ríkisborgurum tvöfalt hraðar en íslenskum ríkisborgurum á tímabilinu.