Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Ríkið hefur stofnað einkahlutafélagið Storð ehf. sem er fasteignaþróunarfélag í fullri eigu ríkisins og fara mun með endurgerð fasteigna í eigu ríkisins sem friðaðar eru og taldar hafa menningarsögulegt gildi. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Þar kemur m.a. fram að ríkið eigi talsverðan fjölda friðaðra fasteigna sem verið sé að færa til Storðar sem mun fá það hlutverk að endurgera þær og koma í viðeigandi nýtingu.
Eignum mun fjölga
Dæmi um slíkar fasteignir eru Hegningarhúsið við Skólavörðustíg sem byggt var 1874, Sóttvarnahúsið við Ánanaust, byggt 1870, fasteignir ríkisins við Vífilsstaði, Stýrimannaskólinn við Öldugötu sem byggður var 1898 og gamla Kennarahúsið við Laufásveg frá 1908.
Meðal fyrstu verkefna félagsins verður að halda áfram með framkvæmdir innanhúss í Hegningarhúsinu og undirbúa frekari þróun á reitnum við Seljaveg og Ánanaust.
Segir í svari ráðuneytisins að ljóst sé að eignum sem þessum muni fjölga til framtíðar litið og því sé mikilvægt að fyrirkomulag sé til staðar um endurgerð og ráðstöfun slíkra eigna. Endurbygging gamalla og friðaðra bygginga sé kostnaðar- og áhættusöm, en ekki hafi ekki verið talið réttlætanlegt að hefja dýrar framkvæmdir á slíkum eignum á vegum ríkisins án þess að fyrir liggi með hvaða hætti viðkomandi eign verði nýtt á vegum hins opinbera.
Í svarinu kemur einnig fram að til að ná fram markmiðum um að skilvirkt fyrirkomulag sé til staðar vegna uppgerðar og nýtingar á fasteignum í eigu ríkisins sem hafa varðveislugildi, hafi verið ákveðið stofna fasteignaþróunarfélagið Storð sem ætlað er að vera eins konar systurfélag til hliðar við Minjavernd. Storð er þó alfarið í eigu ríkissjóðs, en ætlunin er að félagið nýti sérþekkingu Minjaverndar við uppgerð slíkra eigna. Félagið Storð sé stofnað með sérstakri heimild í 6. gr. fjárlaga þar sem kveðið er á um heimild til stofnunar fasteignaþróunarfélags og færa þar inn eignir sem ekki stendur til að nota undir starfsemi á vegum ríkisins.
Til að fjármagna endurgerð fasteignanna sé gert ráð fyrir að félagið muni þróa reiti eða eignir sem tengjast ofangreindum fasteignum. Um tíma hafi verið til skoðunar að færa eignirnar til Minjaverndar ehf. sem er félag í sameiginlegri eigu ríkis, borgar og sjálfseignastofnunarinnar Minja. Ekki hafi náðst samkomulag um það innan hluthafahóps Minjaverndar með hvaða hætti eignunum yrði komið til Minjaverndar og þeim skilyrðum sem því fylgdu.