Háskólakennarinn Jason Pine flýr stórborgina sína New York á hverju sumri og flýgur til Íslands þar sem hann unir sér vel í kyrrðinni norðan heiða. Jason, sem býr nú á Akureyri, notar hverja lausa stund til að koma sér upp húsi hinum megin fjarðarins, í Vaðlaheiði. Þess á milli nýtur hann náttúrunnar og vinnur í skáldsögum sínum. Ein fjallar um ungverskar ömmur hans, önnur um Moniku á Merkigili og þriðja er krimmasaga um Ameríkana sem byggir hús á Íslandi. Augljóst er hvaðan hann fær þá hugmynd!
Alltaf að leita að friði og ró
Hvers vegna ertu hér á Íslandi?
„Ég hafði lengi haft áhuga á að koma til Íslands og fékk tækifæri árið 2013 þegar ég var á leiðinni á ráðstefnu í Þýskalandi. Ég var hér í fjóra daga, í Borgarnesi, og svaf nánast ekkert. Birtan hér fyllti mig orku. Ég ferðaðist um allt Snæfellsnesið og var virkilega leiður þegar ég þurfti að fara héðan. Á Arnarstapa fékk ég þá tilfinningu að vindurinn gæti feykt mér fram af klettunum án þess að nokkur tæki eftir því. Ég fann til gleði og fannst eins og að það myndi ekki skipta máli því svo margt annað væri í gangi; eins og vindurinn, veðrið og hafið,“ segir Jason og segist alls ekki hafa verið haldinn neinni dauðaósk, heldur hafi tilfinningin um að vera gleyptur af náttúrunni verið yfirþyrmandi og gleðileg í senn. Þá vissi hann að hann yrði að koma aftur. Það hefur hann gert á hverju sumri síðan, en Jason er frá New York. Hann býr nú í Queens og kennir mannfræði og fjölmiðlafræði við Purchase College í New York.
„Ég er alltaf að leita að friði og ró og að vera úti í grænni náttúru. Ég fer mikið í göngur og Ísland hefur verið sá staður sem hefur veitt mér frið og ró,“ segir Jason og segist gjarnan skiptast á íbúðum við Íslendinga. Í sumar er hann í miðbæ Akureyrar með útsýni yfir Ráðhústorgið.
Ég var oft hræddur
Mannfræðingurinn Jason hefur ekki setið auðum höndum síðustu ár og áratugi. Árið 2012 kom út bókin The Art of Making do in Naples sem fjallar um poppsöngvara í Napólí sem tengjast inn í mafíuna.
„Ég kynntist fyrst Napólí þegar ég var ungur maður að kenna ensku í Mílanó. Ég kunni ekkert sérstaklega vel við mig í Mílanó en féll alveg fyrir Napólí og ákvað að einn daginn færi ég aftur þangað. Þegar ég var svo í doktorsnámi í mannfræði bjó ég mér til verkefni sem tengdist tónlistarsenunni í Napólí sem er samtvinnuð skipulagðri glæpastarfsemi. Það varð svo að rannsóknarverkefni mínu og ég bjó í Napólí í fjögur ár. Ég elska Napólí sem er mjög kaótísk og ólík öðrum borgum Evrópu,“ segir Jason og segist hafa lært það sem hann kallar napólísku sem hann segir nokkuð frábrugðna ítölsku.
Þar sem Jason var orðinn vel kunnugur popptónlistarfólkinu sem tengdist mafíósum, er ekki úr vegi að spyrja hvort hann hafi verið í hættu.
„Það er mikið um hótanir og það var ýmislegt gefið í skyn. Það er auðvitað ofbeldi í gangi líka, en oft snýst ofbeldið um að búa til ótta í hugum fólks. Ég upplifði þannig óttann þó ég hefði ekki orðið fyrir beinu ofbeldi. Ég var oft hræddur,“ segir hann og segist oft hafa óttast að fólk misskildi það sem hann var að vinna að.
„Fólk yfirheyrði mig aftur og aftur til að sjá hvort það væri samræmi í svörum mínum,“ segir hann og segist hafa tekið fjölda viðtala við fólk sem var í mafíunni.
„Ég tók ekki einungis viðtöl heldur varði miklum tíma með fólki og lærði af því í gegnum venjulegar samræður. Það var ekkert endilega samþykkt að maður tæki bein viðtöl.“
Þú varst þá eins og leynilögregla?
„Það var einmitt það sem ég þurfti að gera þeim grein fyrir að ég væri ekki! Þau héldu það um tíma. Ein góð leið til að koma þeim í skilning um að ég væri ekki í löggunni var hreinlega að vinna með þeim. Því bjó ég til tónlistarmyndbönd með poppurunum sem voru á mála hjá mafíósum og sumir mafíósarnir voru í raun umboðsmenn fyrir söngvara sem sungu þá gjarnan í brúðkaupum eða skírnum hjá mafíufjölskyldum,“ segir Jason og útskrýrir að þessi tegund tónlistar sé búin til með hljóðgervlum og lögin séu oftar en ekki ástarballöður.
„Sum lögin fjölluðu um skipulagða glæpastarfsemi og höfðu því þessir tónlistarmenn á sér óorð fyrir að vera rödd mafíunnar. En það var í raun bara smáhluti söngvara sem söng þannig lög.“
Lærði hvað vonleysi er
Jason tók svo síðar allt aðra stefnu í lífinu og settist að í litlu héraði í Missouri í Bandaríkjunum. Þar kenndi hann í háskóla en ákvað svo að skoða, með aðferðum etnógrafíunnar, hvernig framleiðsla metamfetamíns gengur fyrir sig. Þar bjó hann í um eitt ár og fylgdist með metamfetamín-„kokkum“. Útkoman var bókin The Alchemy of Meth: A Decomposition sem kom út árið 2019. Bækurnar báðar hafa hlotið viðurkenningar og Jason hefur haldið fyrirlestra víða um innihald þeirra.
„Í þessu héraði voru á þessum tíma flestar metamfetamínverksmiðjur í Bandaríkjunum.“
Þetta hljómar eins og mjög niðurdrepandi staður!
„Ég get ekki lýst því með orðum hversu niðurdrepandi hann var. Þarna lærði ég hvað vonleysi er,“ segir hann og segir tímann þarna hafa verið afar erfiðan.
„Ég rannsakaði ekki fíknina sjálfa heldur framleiðsluna og fór þá inn í þessar verksmiðjur eða tilraunastofur, en ég fór ekki inn í þær á meðan einhver var að búa til efnið heldur eftir á,“ segir hann og segist hafa tekið ótal viðtöl við „kokkana“ og neytendur.
„Ég hef mjög sjaldan séð fólk geta hætt á metamfetamíni. Kannski í smá tíma, en svo fellur fólk aftur. Þetta er skelfilegt,“ segir Jason og segist hafa uppgötvað, á sama tíma og hann var þarna í rannsóknarvinnu, að hans eigin móðir var orðin háð metamfetamíni. Hún hafði yfirgefið fjölskylduna þegar Jason var á unglingsaldri.
„Hún var um fertugt þegar hún hóf sína eiturlyfjaneyslu og við höfðum ekki hugmynd um það fyrr en löngu síðar,“ segir hann og segir metamfetamín þannig lyf að fólki finnist það ósigrandi.
„Það er ekki hægt að rökræða við fólk sem er á metamfetamíni.“
Hverju komstu að við þessa rannsókn?
„Ég reyndi að horfa á framleiðsluna frá hlutlausu sjónarhorni og fannst hún bæði einkennileg og áhugaverð. Ég vildi vita af hverju fólk færi út í þessa iðju; að búa til metamfetamín. Ég sá að fólkið var í depurð og það hafði ekki fengið tækifæri að fá góða vinnu eða að vinna sig upp. Oft var það þannig að fólk tók lyfið til að geta unnið lengur og síðan fór neyslan úr böndunum og þá fór það að búa það til sjálft. Fólki fannst líka gaman að búa það til því það gaf því einhvern tilgang. Annað fólk reiddi sig á það og það fann til sín. Fólki fannst það valdamikið. Margir töluðu um guð og fannst þeir nánast vera eins og trúarleiðtogar með sína fylgjendur. Margir kokkanna höguðu sér eins venjulegir Ameríkanar; þeir voru eins og frumkvöðlar sem unnu langan vinnudag og nutu þess að lifa við streitu og spennu,“ segir Jason og segir fátækt mjög víða í Bandaríkjunum og að fólk eigi oft litla möguleika á að koma sér úr vítahring fátæktargildrunnar. Þá lendir fólk jafnvel á glæpabraut.
Er erfitt að búa til metamfetamín?
„Nei, það er sjokkerandi hvað það er auðvelt. En að gera mistök er dýrkeypt. Það getur kostað þig lífið,“ segir Jason og segir marga „hrista“ saman lyfið í plastflösku.
„Ef flaskan springur brennur allur efri hluti líkamans.“
Að berjast fyrir náttúrunni
Við snúum okkur aftur að Íslandsáhuganum, en Jason hefur dvalið hér sumarlangt mörg ár í röð; oft á Sauðárkróki. Hann dvelur nú í fyrsta sinn á Akureyri og hefur keypt sér lóð í Vaðlaheiði þar sem hann hyggst koma sér upp húsi og jafnvel eins konar setri þar sem fólk úr ýmsum greinum gæti komið saman til að koma hugmyndum í framkvæmd.
„Ég vil ekki koma til Íslands til að búa í borg og því langar mig að eiga hér sumarhús í sveit. Ég fann fallegan bæ en var mjög vonsvikinn þegar ég komst að því að bankarnir lána mér ekki nógu mikið. Ég keypti mér því land í Vaðlaheiði þar sem útsýnið er guðdómlegt,“ segir hann.
„Þar vil ég eiga heimili og einnig byggja setur fyrir sérfræðinga af ýmsum toga; náttúrufræðinga, líffræðinga, hagfræðinga og listafólk, sem myndu vinna saman að verkefnum sem hefðu jákvæð áhrif á umhverfið og til að berjast gegn þeirri vá sem steðjar að náttúrunni,“ segir Jason og nefnir að hann sjái fyrir sér að með tímanum verði verkefnin arðbær. Hann er í óðaönn að semja viðskiptaáætlun sem fjárfestar gætu séð hag sinn í að setja fé í.
„Ég held að margir hafi áhyggjur af loftslagsvánni og séu tilbúnir til að taka áhættu í fjárfestingum á borð við þessa. Vörur eða uppfinningar sem yrðu til myndu stuðla að vistvænni heimi og í leiðinni skapa verðmæti,“ segir hann.
„Sjálfur legg ég mikla fjármuni í verkefnið en ég hyggst setjast hér að þegar ég fer á eftirlaun. Ég vil leggja mitt af mörkum til að bjarga náttúrunni. Við þurfum að taka hana með í reikninginn, en Ísland og náttúran hér hefur aukið áhuga minn á þessum málefnum því hér er landslagið svo stórfenglegt. Ég fer heim til Queens á veturna og get ekki beðið eftir að komast aftur hingað á vorin.“
Leyndarmál ammanna
Jason hefur nóg fyrir stafni í sumarfríinu sínu á Íslandi, en fyrir utan að vasast í alls konar verkefnum sem tengjast uppbyggingu sumarhúss og setursins, þá skrifar hann nú skáldsögur. Ein þeirra á uppsprettu í sögu ungverskra amma hans.
„Fjölskyldan mín á ættir að rekja til Ungverjalands og ég hef verið að reyna að fá ungverskan ríkisborgararétt, en til þess að það geti orðið þarf ég að kunna ungversku. Ég er því að kenna sjálfum mér ungversku og hef verið að því nú í níu mánuði eða svo. Það er mjög kvalafullt,“ segir hann og brosir.
„Það er svakalega erfitt tungumál, en ég var einmitt þar rétt áður en ég kom hingað. Ég get ekki lært íslensku á sama tíma og hef því frestað því þar til á næsta ári,“ segir hann.
„Ömmur mínar voru æskuvinkonur í Búdapest en fluttu þaðan; önnur flutti til London áður en stríðið skall á. Hin amma mín var þarna í stríðinu og missti manninn sinn. Það hefur enginn í fjölskyldunni viljað tala um þessa fortíð en ég var mjög forvitinn og fór til Ungverjalands og komst að því að þær hefðu verið gyðingar. Ég var mjög náinn báðum ömmum mínum en þær deildu aldrei með sér sínum leyndarmálum,“ segir hann og nefnir að þær hafi falið það alla tíð að þær væru gyðingar, enda voru margir gyðingar í Ungverjalandi fluttir í útrýmingarbúðir í stríðinu.
„Það voru svo mörg leyndarmál,“ segir hann og segist nú vera að grafa upp leyndarmál fortíðarinnar, með virðingu.
„Mig langar að endurvekja sögu ammanna minna með því að skrifa þessa skáldsögu.“
Verð aldrei einmana
Önnur skáldsaga liggur á teikniborðinu hjá Jason, en hann hefur brennandi áhuga á sögu Moniku á Merkigili og vinnumanni hennar Helga Jónssyni, og hyggst skrifa skáldsögu byggða á sögu Helga.
„Monika byggði sér hús á mjög afskekktum stað í Skagafirði og réð svo Helga sem vinnumann,” segir Jason og nefnir að Helgi hafi erft býlið að henni látinni.
„Helgi bjó svo þar aleinn í sjö ár þar til hann fannst látinn neðst í gilinu. Það voru ýmsar getgátur um dauðsfall hans og sumir sögðu að hann hefði hent sér niður, en ég frétti svo síðar að Helgi hafi verið að fara frá bænum þegar hann rann á ís og hrapaði til bana. Ég ætla að skrifa skáldsögu byggða á sögunni þar sem náttúran mun spila stórt hlutverk, en náttúran vildi ekki sleppa honum,“ segir hann og segir náttúruna vera þar eins og sögupersóna.
„Nú þegar ég er að vasast í því að byggja hús hér í Vaðlaheiði hef ég kynnst mörgum kynlegum kvistum og lent í alls konar veseni sem fylgir því að byggja hús. Ég var allt í einu lentur inni í atburðarás furðulegrar hegðunar fólks með leyndarmál, vafasama fortíð og sem ekki fór eftir reglum. Ég fékk þá hugmynd að skrifa krimmasögu um Ameríkana sem vill eignast hér lítið hús en flækist inn í skandala glæpahrings,“ segir hann og tekur fram að hann hyggst ekki skrifa allar bækurnar á sama tíma og mun hann byrja á þessari síðastnefndu.
„Ég veit að ekki margir eru drepnir hér en ég hef verið að lesa íslensku glæpabækurnar eftir Arnald, Ragnar og Yrsu og finnst gaman að bera þær saman,“ segir Jason og segir í raun verkefnið að byggja húsið taka mikinn tíma frá skrifum. Það verður blaðamanni ljóst að hann lætur sér ekki leiðast; hann hefur nóg að skrifa, hann nýtur náttúrunnar og svo þekkir hann orðið marga á Íslandi.
Ertu einhverntíma einmana?
„Aldrei. Ég fer mikið í göngur og heimsæki mikið Skagafjörð sem ég er mjög hrifinn af,“ segir hann og segist staðráðinn í að eyða efri árunum hér á landi og kynnast betur landi og þjóð.
„Ég ætla að læra íslensku sem fyrst.“
Kanntu einhver orð á íslensku?
„Rotþró. Vatn. Einbúaskrítinn,” segir Jason og hlær.
Blaðamaður viðurkennir að hafa aldrei heyrt orðið „einbúaskrítinn“ en það er auðvelt að átta sig á meiningunni. Kannski hefur Jason dottið niður á nýrði. Hann er að minnsta kosti alveg sáttur við að vera „einbúaskrítinn“!