Skaginn 3X Ákvörðunin er þungbær að sögn bæjarstjórans.
Skaginn 3X Ákvörðunin er þungbær að sögn bæjarstjórans. — Ljósmynd/Skaginn 3X
Skaginn 3X hefur sagt upp 27 starfsmönnum fyrirtækisins á Ísafirði og ákveðið að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins þar. Samþætta á alla framleiðslu fyrirtækisins á Akranesi, en hingað til hefur félagið haft starfsstöðvar í báðum sveitarfélögum

Skaginn 3X hefur sagt upp 27 starfsmönnum fyrirtækisins á Ísafirði og ákveðið að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins þar. Samþætta á alla framleiðslu fyrirtækisins á Akranesi, en hingað til hefur félagið haft starfsstöðvar í báðum sveitarfélögum. Þungum rekstri fyrirtækisins er kennt um þessa niðurstöðu.

Í tilkynningu frá Skaganum 3X segir að ákvörðunin um að leggja starfsstöðina á Ísafirði niður sé afar þungbær, en byggist á umfangsmikilli endurskipulagningu. Hafi ákvörðunin þegar verið kynnt bæjaryfirvöldum á Ísafirði og verkalýðsfélögum.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði, segir þessa ákvörðun fyrirtækisins vera mjög þungbæra fyrir bæði starfsfólkið sem missi vinnu sína og samfélagið. Sorglegt sé að fyrirtækið hafi ekki séð tækifæri í að starfa í þeim uppgangi sem nú sé á Vestfjörðum, en að hún vonist til að önnur fyrirtæki á svæðinu muni nú grípa tækifærið og ráða starfsfólkið til sín, enda segir Arna Lára nokkurn skort á starfsfólki hafa verið á Vestfjörðum undanfarið, ekki síst á iðnaðarmönnum.

„Við fengum þær skýringar að reksturinn væri mjög þungur og að markaðir í Rússlandi hefðu lokast,“ segir Arna Lára við mbl.is.

Fyrir þremur árum þegar erlenda stórfyrirtækið Baader keypti 60% hlut í Skaganum 3X fengu sveitarstjórnarmenn á Ísafirði og á Akranesi kynningu þar sem kaupin voru kynnt sem mikið tækifæri til að efla báðar starfsstöðvar. Segir Arna Lára þau áform greinilega ekki hafa gengið eftir.

Baader keypti á síðasta ári þau 40% sem eftir stóðu í Skaganum 3X.