Öskjuhlíð Isavia vill að felld verði tæplega 3.000 tré í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis, en þar er eitt elsta samfellda skóglendið í Reykjavík.
Öskjuhlíð Isavia vill að felld verði tæplega 3.000 tré í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis, en þar er eitt elsta samfellda skóglendið í Reykjavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Við styðjum það að unnið sé að bættu flugöryggi og furðum okkur á því með hvaða hætti borgin leggur málið upp. Þær myndir sem borgin birti samhliða tilkynningu um málið nálgast það að vera áróður eða ýkt mynd af því sem gæti orðið,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, spurður um afstöðu félagsins til kröfu Isavia um að felld verði tré í Öskjuhlíð til að bæta flugöryggi og viðbragða Reykjavíkurborgar við því erindi. Krafa Isavia er sú að að felld yrðu 2.900 tré í Öskjuhlíð, en til vara 1.200 hæstu trén.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Við styðjum það að unnið sé að bættu flugöryggi og furðum okkur á því með hvaða hætti borgin leggur málið upp. Þær myndir sem borgin birti samhliða tilkynningu um málið nálgast það að vera áróður eða ýkt mynd af því sem gæti orðið,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, spurður um afstöðu félagsins til kröfu Isavia um að felld verði tré í Öskjuhlíð til að bæta flugöryggi og viðbragða Reykjavíkurborgar við því erindi. Krafa Isavia er sú að að felld yrðu 2.900 tré í Öskjuhlíð, en til vara 1.200 hæstu trén.

Borgarráð tók málið fyrir á fundi sínum sl. fimmtudag og sendi það til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs. Jafnframt var kunngjört að erindið yrði ekki tekið til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu í borgarráði fyrr en eftir að umsögn umhverfis- og skipulagsráðs bærist.

„Krafa Isavia er sú að felld verði hæstu trén og það er hægt að standa að því með ýmsum hætti og óþarfi er að fella allan skóginn. Við erum sannfærð um að ef borgin myndi sýna samstarfsvilja í þessu máli, væri hægt að vinna að lausn sem þjónaði bæði bættu flugöryggi og borgarbúum líka, með því að bæta Öskjuhlíðína og hanna hana til útivistar. Öskjuhlíðin er ekki þannig í dag,“ segir Matthías.

„Borgin virðist, í öllum málum sem snúa að flugvellinum, leggja sig fram um að búa til ágreiningsmál. Það sést í þessu máli og einnig í málinu sem snéri að þyrlurekstrinum. Svo er einnig í fleiri málum þar sem borgin kýs að setja mál í þann farveg að þau leiða til ósættis. Á meðan flugsamfélagið vill reyna að láta málin ganga og að flugvöllurinn sé í sátt við borgarumhverfið, þá virðist borgin reyna að búa til átök,“ segir Matthías.

Þá bendir Matthías á að krafa Isavia um felllingu trjánna í þágu flugöryggis sé ekki séríslenskt mál, heldur sé hér um að ræða alþjóðlegar kröfur sem varða öryggi í flugi. Þetta varði líka rekstraröryggi flugvallarins, þar sem upp komi tilvik þar sem flugbrautin sé ekki nothæf og þar með ekki hægt að fljúga, eða þá að beita verði annarri tækni en gert er í dag, t.d. með brattara aðflugi. Þannig sé gengið á rekstraröryggi flugvallarins.

Í föstudagsbloggi sínu segir borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, að krafa Isavia veki upp fjölmargar spurningar. Öskjuhlíðin sé eitt elsta og mikilvægasta útivistarsvæði borgarinnar, auk þess sem svæðið sem krafan lúti að sé eitt elsta samfellda skóglendi borgarinnar. Skógurinn njóti verndar sem borgargarður í aðalskipulagi og Öskjuhlíðin sé á náttúruminjaskrá.

Ef orðið yrði við erindinu myndi það því kalla á verulegar breytingar á deiliskipulagi og hugsanlega endurskoðun aðalskipulags, auk þess sem leita þyrfti umsagna fjölda aðila, svo sem Náttúrufræðistofnunar.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson