Í Mjölni Fólk kom um langan veg til að sækja námskeiðið, m.a. frá Bandaríkjunum, Finnlandi, Þýskalandi og Ástralíu.
Í Mjölni Fólk kom um langan veg til að sækja námskeiðið, m.a. frá Bandaríkjunum, Finnlandi, Þýskalandi og Ástralíu. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeim fannst báðum Ísland vera heillandi áfangastaður, dularfullt land og töfrandi, svo þeir tóku vel í þlá hugmynd mína að koma hingað og halda námskeið. Nú sex árum síðar eru þeir loksins komnir og við öll á námskeiðinu, og þeir sjálfir, alveg í…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þeim fannst báðum Ísland vera heillandi áfangastaður, dularfullt land og töfrandi, svo þeir tóku vel í þlá hugmynd mína að koma hingað og halda námskeið. Nú sex árum síðar eru þeir loksins komnir og við öll á námskeiðinu, og þeir sjálfir, alveg í skýjunum,“ segir Valentin Felis Camilleri, franskur maður sem hefur búið á Íslandi undanfarin sjö ár og starfar sem þjálfari í brasilísku jiu-jitsu (BJJ) í Mjölni í Reykjavík. Valentin landaði þessum stórlöxum, Lachlan Giles og Craig Jones, sem báðir eru ástralskir og meðal allra bestu þjálfara og glímukappa í heimi í BJJ. Þeir skarta heimsmeistaratitlum og öðrum verðlaunasætum frá stærstu mótunum og fyrir vikið kom fólk alls staðar að úr heiminum til Íslands að sækja námskeiðið, m.a. frá Bandaríkjunum, Finnlandi, Þýskalandi og Ástralíu. Fjölmargir Íslendingar sækja líka námskeiðið og þar á meðal mátti sjá sjálfan Gunnar Nelson í salnum hjá þeim.

Fyrir þá sem ekki þekkja þessa íþrótt kemur fram á vef Mjölnis að brasilískt jiu-jitsu sé „bardagaíþrótt þar sem mest áhersla er lögð á glímu á gólfi. Markmiðið er að ná yfirburðastöðu gagnvart andstæðingnum og fá hann til að gefast upp með lás, hengingu eða einhvers konar taki. Íþróttin var hönnuð til að gera veikbyggðari einstaklingum kleift að yfirbuga stærri og sterkari andstæðinga og byggist því að mestu leyti á vogarafli og tækni umfram styrk. Hún hentar því fólki af öllum stærðum og gerðum.“

Á pari við Messi og Ronaldo

Valentin kynntist þeim Lachlan og Craig fyrst á Ítalíu árið 2017, en tveimur árum eftir að hann lauk meistaranámi í íþróttafræðum í Ástralíu sneri hann þangað aftur og ákvað að nýta ferðina til að heimsækja glímuklúbb þeirra félaga í Melbourne.

„Þá voru þeir þegar orðnir vel þekktir innan glímuheimsins, Lachlan var vinsæll kennari á netinu og Craig hafði gengið vel í stórum keppnum. Þegar ég var að æfa í klúbbnum hjá þeim kynntist ég þeim betur og við héldum sambandi eftir að ég fór aftur heim til Frakklands. Ég fór árlega til New York til að æfa á hinum fræga glímustað Renzo Gracie Academy, en Craig var þá fluttur til NY og æfði á þeim stað. Núna hefur Craig langflesta fylgjendur af öllum á Instagram í BJJ-heiminum og Lachlan er með svarta beltið og hefur skapað sér frægð með velgengni í keppnum og hann heldur úti þjálfunarplatformi á netinu sem er afar vinsæll,“ segir Valentin og bætir við að Lachlan hafi nýlega unnið bardaga á stærsta glímumóti heims, ADCC, þar sem hann tókst á við þrjá „risa“ í opnum þyngdarflokki.

„Þeir voru allir yfir hundrað kíló, miklu þyngri en hann, og þessi sigur færði honum gríðarlega frægð. Auk þess beitti hann brögðum í þessum bardögum sem sjaldan hafa sést og hann varð vinsælasti keppandinn á mótinu. Það er dýrmæt reynsla fyrir mig, og okkur sem erum á námskeiðinu núna, að fá að vera með þessum mönnum, vera með þeim á gólfinu, æfa með þeim, spjalla við þá og spyrja spurninga. Þeir ausa af viskubrunni sínum. Þetta er á pari við það að æfa fótbolta og fá að vera á námskeiði með Messi eða Ronaldo, því Craig og Lachlan eru heimsklassa afreksmenn.“

Aldrei illska eða árásargirni

Valentin fer sjálfur út í heim á hverju ári til að keppa í BJJ, en auk þess að starfa við glímukennslu í Mjölni er hann með sína eigin glímurækt, Brimir BJJ, heima á Akranesi, þar sem hann býr ásamt íslenskri konu sinni, Tinnu Maríu Ólafsdóttur.

„Ég byrjaði ungur að að æfa júdó og karate heima í Frakklandi, prófaði MMA, box og glímu, en fann mig svo í BJJ þegar ég var tvítugur og hef stundað þá íþrótt af kappi allar götur síðan.“ Þegar Valentin er spurður að því hvað heilli hann við íþróttina, segir hann að sér finnist spennandi hversu flókin glíma BJJ sé. „Mér finnst heillandi að flokka hugmyndir í ákveðin hólf og láta þær virka hverja á aðra eins og margar greinar á tré, þar sem hver ákvörðun skiptir máli. BJJ gefur fólki færi á að læra ákveðna bardagatækni, en á sama tíma krefst það vitsmuna. Í þessari íþrótt þarf stöðugt að vera stilltur inn á að leysa vandamál,“ segir Valentin og bætir við að fyrir suma sé BJJ nánast ávanabindandi, enda mikil útrás sem á sér stað í glímunni þegar tekist er á. „Notalegt og yfirvegað fólk laðast að þessari íþrótt, því þetta snýst ekki um að vera slagsmálahundar, heldur er þetta yfirveguð glíma þar sem illska eða árásargirni er aldrei hluti af leiknum. Þetta eru að sjálfsögðu mikil átök en alltaf tekist á af virðingu. Í þessari miklu líkamlegu nánd framleiðir fólk vellíðunarhormón, svo öllum líður vel eftir æfingu eða keppni í BJJ. Mér finnst þessi íþrótt efla sjálfstraust þeirra sem stunda hana.“

Konum fjölgar í glímunni

Blaðamaður hitti meistarana tvo, sveitta og stælta beint eftir æfingu, en þeir reyndust með hlýja nærveru. Þeir kynntust fyrir áratug í gegnum glímu í Melbourne, heimabæ Lachlans, en Craig er frá Adelaide.

„Við erum báðir með líkamsræktarstöðvar þar sem við kennum BJJ, ég heima í Melbourne, en Craig í Austin í Texas í Bandaríkjunum, þar sem hann býr núna,“ segir Lachlan og bætir við að þeir ferðist öðru hvoru um heiminn til að halda námskeið og fyrirlestra, sjaldnast saman, heldur hvor í sínu lagi. „Að við mætum saman með námskeið hér á Íslandi er alveg sérstakt tilefni, en ég kom með til þess eins að pirra Lachlan í kennslunni, láta reyna á þolinmæði hans,“ segir Craig hinn spaugsami. Þeir segja snilldina við BJJ vera þá að alltaf sé hægt að bæta sig og læra eitthvað nýtt, jafnvel minnstu smáatriði.

„Að stunda þessa íþrótt er sífelld ögrun og kennsla okkar gengur mikið út á tækni og útsjónarsemi. Um helmingur þeirra sem sækja námskeið hjá okkur er keppnisfólk, restin er áhugafólk. Margir sem stunda þessa íþrótt er fólk á milli þrjátíu og fjörutíu ára sem vill læra sitthvað um bardaga en geta þó tekist á með ákveðinni hægð. Það er ekki hraði í þessari glímu og fyrir vikið er auðveldara að hafa stjórn á ákafanum en í boxi eða júdó.“

Þegar þeir eru spurðir hvort þessi mikla líkamlega nánd, að hnuðlast svo þétt saman sem raun ber vitni, fæli fólk ekki frá, slær Craig á létta strengi: „Það er einmitt versti hlutinn við þessa glímu, að hreinlega klístrast saman hvor í annars svita,“ en Lachlan bætir við að nándin brjóti líka múra. „Við höfum eignast vini í glímuheiminum um víða veröld og þetta er frábært samfélag. Félagslegi þátturinn er stór hluti af þessu sem og líkamsræktin, því þetta er frábær leið til að halda sér í formi. Stærsti hlutinn er ögrunin, að reyna sífellt að bæta sig.“

Karlmenn eru í meirihluta þeirra sem æfa og keppa í BJJ, en konum fjölgar stöðugt. Eiginkona Lachlans, Livia Giles, er glímukappi og kennari og hún á nokkra heimsmeistaratitla. Hún kom með til Íslands sem og þriggja mánaða dóttir þeirra.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir