Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, skrifaði í gær undir tveggja ára samning við belgíska félagið Eupen, sem leikur í efstu deild þar í landi. Eupen keypti Alfreð frá danska félaginu Lyngby og er kaupverðið um 38 milljónir íslenskra króna samkvæmt dönskum miðlum

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, skrifaði í gær undir tveggja ára samning við belgíska félagið Eupen, sem leikur í efstu deild þar í landi. Eupen keypti Alfreð frá danska félaginu Lyngby og er kaupverðið um 38 milljónir íslenskra króna samkvæmt dönskum miðlum. Hjá Eupen hittir hann fyrir annan landsliðsmann, Guðlaug Victor Pálsson, sem gekk til liðs við félagið fyrr í sumar.

Íslendingalið Lyngby var fljótt að finna arftaka Alfreðs, þar sem landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen skrifaði í gær undir lánssamning út tímabilið. Kemur hann frá Norrköping í Svíþjóð.

Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur komist að samkomulagi við svissneska landsliðsmanninn Laurent Zoccoletti um að hann leiki með karlaliðinu á komandi tímabili. Zoccoletti er 23 ára gamall miðherji sem er 203 sentimetrar á hæð og á að baki þrjá A-landsleiki fyrir Sviss. Ármann leikur í 1. deild, næstefstu deild.

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United hefur fengið Lewis Hall, 18 ára leikmann Chelsea, að láni út tímabilið og mun svo festa kaup á honum að því loknu. Hall lék alls 11 leiki í öllum keppnum fyrir uppeldisfélagið á síðasta tímabili. Að lánstímanum loknum mun Newcastle kaupa Hall á 28 milljónir punda. Sjö milljónir geta svo bæst við að ýmsum ákvæðum uppfylltum.

Ragnar Sigurðsson mun stýra karlaliði Fram í knattspyrnu út yfirstandandi tímabil. Ragnar tók við starfinu af Jóni Sveinssyni til bráðabirgða í lok síðasta mánaðar eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari hans frá því í lok síðasta árs.