Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í dag. Af þeim sökum verður talsvert um götulokanir og kemur hlaupið til með að hafa áhrif á umferð framan af degi.
Hlaupnar verða fjórar mismunandi vegalengdir, maraþon, hálfmaraþon, 10 km og skemmtiskokk. Ræst verður á eftirfarandi tímum: Klukkan 8.40, 9.40 og 12. Búist er við að þúsundir hlaupara taki þátt í Reykjavíkurmaraþoni, sem fer nú fram í 38. sinn. Útlit er fyrir hið ágætasta hlaupaveður en hiti verður á bilinu 12 til 15 gráður og vindur hægur. Þá verður skýjað en veðurspá gerir ráð fyrir að létti til þegar líður á kvöldið.
Í dag er einnig haldin Menningarnótt og eru Eyjamenn heiðursgestir á hátíðinni í ár því að 50 ár eru frá goslokum. Eyjamenn ætla að halda uppi þjóðhátíðarstemningu í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur frá klukkan 13-17. Reykjavíkurborg fagnar 237 ára afmæli sínu en hátíðin sjálf er orðin 28 ára. Miðborgin verður lokuð fyrir akandi umferð frá klukkan 7 og verður svo fram yfir miðnætti. Ólíkt fyrri árum verður ekki frítt í Strætó en ferðir verða tíðari að hátíðarsvæðinu.