Furðumargar eldstöðvar minna á sig um þessar mundir

Óvenjulega mikil ólga er undir yfirborði Íslands um þessar mundir, líkt og lesa mátti í samantekt Morgunblaðsins á fimmtudag. Þar kom fram að landris mældist nú við Torfajökul, Grímsvötn, Bárðarbungu og Öskju, en almannavarnir hugðust í gær gefa út viðbragðsáætlun vegna mögulegs eldgoss á Öskjusvæðinu norðan Vatnajökuls.

Auk þessa hafa jarðhræringar verið við Skjaldbreið, þar sem síðast gaus fyrir um níu þúsund árum, Kötlu, sem gaus fyrir rúmri öld, Hofsjökul, sem gaus síðast fyrir eitt til tvö þúsund árum, að ógleymdri Heklu sem hefur þanist út að undanförnu. Þar gaus síðast um aldamótin og engum ætti að koma á óvart þó að hún gjósi á næstunni og vissara að fara varlega í umgengni við þetta mikla fjall.

Nú þegar þriðja gosið í röð er nýafstaðið á Reykjanesi er ástæða til að hafa í huga að líkur eru á að þau gos séu aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal. Það þýðir ekki að öruggt sé að einhvers staðar gjósi á næstu mánuðum. Jörðin hefur töluvert annað tímaskyn en maðurinn og ár þykja ekki langur tími í jarðsögunni. Hræringarnar í iðrum Íslands um þessar mundir þurfa þó að vera landsmönnum áminning um hvar þeir búa og um það að hér verði að fara að öllu með gát, einkum á ferðalögum nærri þeim eldstöðvum sem hafa gert sig líklegar til að hleypa út glóandi kvikunni.