Dansað Hljómsveitin Los Bomboneros spilar síðustu tónleikana á laugardagskvöldinu á Jazzhátíð Reykjavíkur.
Dansað Hljómsveitin Los Bomboneros spilar síðustu tónleikana á laugardagskvöldinu á Jazzhátíð Reykjavíkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég myndi segja að fjölbreytileikinn í tónlistinni væri rauði þráðurinn,“ segir Jón Ómar Árnason, listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Reykjavíkur, en hann er nú á lokametrunum við að undirbúa þessa fimm daga djasstónleikadagskrá sem fer fram dagana 23.–27

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

jonagreta@mbl.is

„Ég myndi segja að fjölbreytileikinn í tónlistinni væri rauði þráðurinn,“ segir Jón Ómar Árnason, listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Reykjavíkur, en hann er nú á lokametrunum við að undirbúa þessa fimm daga djasstónleikadagskrá sem fer fram dagana 23.–27. ágúst. Á Jazzhátíð Reykjavíkur verða rúmlega 20 tónleikar og viðburðir í boði þar sem djass, blús, „fusion“ og spunatónlist verður í forgrunni, að því er fram kemur í tilkynningu.

Í meira en 30 ár hefur Jazzhátíð Reykjavíkur verið haldin árlega og að sögn Jón Ómars er aldurshópurinn sem sækir hátíðina reglulega mjög breiður, allt frá unglingum og upp í ellilífeyrisþega og úr öllum geirum og stigum þjóðfélagsins. „Síðan koma líka alltaf erlendir gestir til Íslands ekki bara til að fara Gullna hringinn heldur líka til að upplifa Jazzhátíð Reykjavíkur. Það eru oftast fyrstu miðarnir okkar til að seljast, Íslendingarnir kaupa yfirleitt á seinustu stundu sem ég held að sé bara mjög klassískt,“ segir Jón Ómar.

Troðfullt af tríóum

Jazzhátíð Reykjavíkur er vettvangur til að kynna það sem er að gerast á sviði djasstónlistar á alþjóðlegum vettvangi en Jón Ómar segir fjölbreytileikann helgast af því að tæplega 120 listamenn munu koma fram, þar á meðal er erlent tónlistarfólk í fremstu röð, nokkrir útgáfutónleikar íslensks djasstónlistarfólks og samstarfsverkefni íslenskra og erlendra listamanna. „Á opnunarkvöldinu fara fram tónleikar Stórsveitar Reykjavíkur og Kathrine Windfelden þar sem danska tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Windfelden stjórnar eigin verkum með okkar frábæru stórsveit,“ segir Jón Ómar. Sigurður Flosason spilar seinna á hátíðinni með dönsku söngkonuna Cathrine Legardh og Ari Bragi Kárason spilar með hljómsveitinni sinni The Nordic Quintet. Nafn hljómsveitarinnar er rakið til þess að í henni nást næstum öll skandinavísku þjóðernin með. Karl-Martin Almquist er sænskur, Johnny Åmann er finnskur, Carl Winter og Anders Mogensen danskir og trompetleikarinn Ari Bragi er íslenskur, segir á vef hátíðarinnar. Jón Ómar segir blaðamanni síðan tvær skemmtilegrar staðreyndir um Ara Braga: „Hann er nú orðinn meðlimur í The Danish Radio Big Band og ég held líka að hann sé enn þá ríkjandi Íslandsmeistari í 100 metra spretthlaupi.“

Fleiri erlendir gestir sækja hátíðina. „Á fimmtudeginum þá fáum við erlenda tríóið Insomnia Brass Band sem fékk fyrstu verðlaun á þýsku djassverðlaunahátíðinni (Deutscher Jazz Preis) sem hljómsveit ársins fyrr á þessu ári. Þar á eftir er margverðlaunað tríó frá Noregi sem heitir Gard Nilssen Acoustic Unity, þannig að þetta verður mikil veisla.“

Uppskeruhátíð djasstónlistar

Jazzhátíð Reykjavíkur hefur um árabil verið uppskeruhátíð íslenskra djasstónlistarmanna. „Við erum auðvitað með, eins og alltaf, gott úrval af okkar eigin fólki á hátíðinni.“ Í boði eru til dæmis nokkrir útgáfutónleikar þar sem ungir íslenskir tónlistarmenn fagna sínu nýútgefna efni. Tríó píanóleikarans Benjamíns Gísla Einarssonar heldur tónleika í tilefni útgáfu sinnar fyrstu plötu, Line Of Thought, Óskar fagnar einnig útgáfu fyrstu plötu sinnar Gork, tónskáldið og trompetleikarinn Tumi Torfason fagnar útgáfu debútplötu sinnar Torfær tími og Los Bomboneros ætlar að fagna útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar, segir á vef hátíðarinnar.

„Dagskráin í ár er aðeins þéttari. Við erum í fyrsta skiptið að prófa að keyra megnið af dagskránni í Norðurljósum í Hörpu og eitt sett á hverja hljómsveit. Þannig að hver hljómsveit spilar í sirka 45 mínútur og við tekur svo strax næsta hljómsveit. Miðvikudag og fimmtudag eru þrjú atriði í röð í Norðurljósum og á föstudegi og laugardegi eru fjögur atriði.“

Dagskráin er mjög fjölbreytt og má segja að flestar stefnur og stílar sem finnast undir breiðum hatti djasstónlistar verði á boðstólum. Jón Ómar segir stemninguna á hátíðinni vera heimilislega og fjölskylduvæna en flotta tónlist í forgrunni, tónlist sem talar fyrir sig sjálfa. Hann segir úrvalið mikið og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Til dæmis á föstudags- og laugardagskvöldið, 25. og 26. ágúst, þá eru fjögur atriði hvort kvöld í Norðurljósum og ágæt fjölbreytni í stílunum sem verða bornir á borð, en þarna er allt frá sungnum djús yfir í blús og framsækið (e. prog) rokk, nútímadjass, Harbutt-djass, latínudjass og sitt lítið af hverju,“ segir Jón Ómar og heldur áfram: „Laugardagskvöldið endar svo örugglega með standandi partýi með Los Bomboneros sem spilar síðustu tónleikana á laugardagskvöldinu. Það verður nú enginn svikinn af því enda hægt að dilla sér endalaust við það.“

Jón Ómar vildi ekki svara því fyrir hvaða atriði hann væri spenntastur en sagði þó: „Það sem mér finnst skemmtilegast við Jazzhátíð Reykjavíkur er þegar fólk kemur upp til mín eftir á eða á hátíðinni sjálfri og segir mér: „Þetta er í fyrsta skiptið sem ég mæti á Jazzhátíð Reykjavíkur, svakalega er þetta gaman, skemmtilegt og flott.“ Það er það sem stendur alltaf upp úr hjá mér, alltaf,“ segir Jón Ómar en hann hvetur alla til þess að drífa sig á Jazzhátíð Reykjavíkur.

Allar frekari upplýsingar um hátíðina og dagskrá hennar má finna á vefnum reykjavikjazz.is.

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir