Agnes Guðmundsdóttir, Adda, fæddist á Eiði í Hestfirði 26. september 1938. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands laugardaginn 5. ágúst 2023.
Foreldrar Agnesar voru hjónin Guðmundur Ásgeirsson, f. 2. nóvember 1908, d. 24. maí 1976, bóndi í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp og Karitas Guðbjörg Guðleifsdóttir, f. 12. júní 1921, d. 24. maí 17. maí 1999, húsmóðir og verkakona.
Systkini Öddu eru Sigurður Kristinn, f. og d. 1936, Ásgeir, f. 1942, Jón, f. 1943, Sigríður Ingibjörg, f. 1945, Guðlaug, f. 1949, Gabríel Valdimar, f. 1951, Haraldur, f. 1952, Jón Guðmann, f. 1953, Guðrún Rúnel, f. 1955, Bárður, f. 1960, Ólafur Kristján, f. 1962 og Sólrún, f. 1963.
Hinn 30.8. 1958 giftist Adda Þórði Sveinssyni, Dodda, f. 3.1. 1930, d. 23.12. 2017, fv. umboðsmanni ESSO í Þorlákshöfn, frá Bjargi í Selvogi. Foreldrar hans voru Sveinn Halldórsson, f. 26.4. 1892, d. 14.4.1957, og Guðbjörg Þórðardóttir, f. 3.10. 1899, d. 28.6. 1992.
Dóttir Öddu og Dodda er Sveinbjörg Þórðardóttir, f. 28.5. 1957, gift Valgeiri Einarssyni, f. 14.12.1957, börn þeirra eru Einar, Þórður, Agnes og Siguróli. Barnabörnin eru sjö og er eitt þeirra látið.
Adda og Doddi fluttu á B-götu í Þorlákshöfn 1958 þar sem þau bjuggu til æviloka. Adda var mikil hannyrðakona, hugmyndarík og listræn.
Útför Agnesar Guðmundsdóttur fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 19. ágúst 2023, klukkan 13.
Fallinn er frá aldursforseti starfandi söngfélaga í Söngfélagi Þorlákshafnar, Agnes Guðmundsdóttir eða Adda eins og hún var ávallt kölluð. Þótt Adda hafi verið elst okkar sem nú syngja með kórnum er ekki svo ýkja langt síðan hún gekk til liðs við Söngfélagið – kannski 15 ár. Kunnugir segja mér að hún hafi þó alltaf haft mjög gaman af því að syngja, hlusta á tónlist og jafnvel grípa í gítar á góðri stundu. Það kom líka fljótt í ljós að hún naut starfsins í kórnum, ljómaði í framan þegar sungin voru gömul dægurlög, einbeitti sér mjög þegar tekist var á við flóknari verk og sleppti aldrei kóræfingu nema hún væri virkilega lasin. Þessi hægláta og ljúfa kona var kannski ekki sú sem hafði hæst í sópraninum eða blaðraði mest í kaffipásunum, en hún var sú sem okkur þótti öllum vænt um. Hún gekk jafnan á æfingar og þáði ekki far nema veðrið væri því verra. Hún studdist þá gjarnan við göngustaf til að vera öruggari með sig á leiðinni og það er sú mynd sem kemur upp í hugann þegar við minnumst Öddu: Fullorðin kona með staf í annarri hendi og söngmöppuna í hinni, tilbúin að gefa sig tónlistinni á vald eitt kvöld í viku og syngja með söngfélögunum sem hún sýndi ávallt einstaka hlýju og elskulegheit.
Við þökkum Öddu fyrir samfylgdina og samsönginn og vottum fjölskyldunni innilega samúð á kveðjustundu. Blessuð sé minning Agnesar Guðmundsdóttur.
F.h. Söngfélags Þorlákshafnar,
Sigþrúður Harðardóttir.