Nicola Walker lék hina úrræðagóðu Cassie Stuart í fyrstu fjórum seríunum.
Nicola Walker lék hina úrræðagóðu Cassie Stuart í fyrstu fjórum seríunum. — AFP/Leon Neal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar höfuð- og handalaust lík finnst á brotajárnshaugunum er ekki um annað að ræða en að taka upp tólið og hringja í lögregluna. Að þessu sinni er það hins vegar ekki hinn eldklári rannsóknarlögreglumaður Cassie Stuart sem svarar kallinu, enda…

Þegar höfuð- og handalaust lík finnst á brotajárnshaugunum er ekki um annað að ræða en að taka upp tólið og hringja í lögregluna. Að þessu sinni er það hins vegar ekki hinn eldklári rannsóknarlögreglumaður Cassie Stuart sem svarar kallinu, enda hefur hún látið af störfum, heldur hin sauðtrygga hægri hönd hennar, Sunny Khan, með bakpokann á hryggnum. Hvað er annars í þessum ágæta bakpoka sem maðurinn er alltaf með, hefur það komið fram?

Enda þótt það sé án höfuðs og handa er líkið ekki illa farið að öðru leyti og ekki óeðlilegt að draga þá ályktun að fórnarlambið sé nýlega fallið frá. Annað kemur svo sannarlega á daginn. Réttarrannsóknateymið er fljótt að komast að raun um að það hafi verið vistað í frysti, jafnvel svo áratugum skiptir. Raunar hefði ekki þurft vísindin til að skera úr um árafjöldann enda er hinn látni með Millwall-húðflúr á upphandleggnum. Það finnst ekki á nokkrum lifandi manni í dag. Hvenær var aftur hin skammlífa gullöld Millwall með Teddy Sheringham, Tony Cascarino, Les Briley og þeim öllum? Jú, fyrir rúmum þremur áratugum. Og bingó, maðurinn reynist hafa látist 1990. Sama ár og Millwall féll aftur í B-deildina eftir frægan sprett meðal hinna bestu.

Málið flækist fljótt, eins og gengur, og til allrar hamingju fyrir rannsóknina ákveður Cassie Stuart að snúa aftur um stund enda vantar hana ekki nema þrjá mánuði upp á að geta sest í helgan stein án þess að hafa fjárhagsáhyggur. Hún reynir að vísu að tala um fyrir yfirmönnum sínum, hvað eru þrír mánuðir milli vina? En tölvan segir nei. Hart nei. Cassie þarf því að bretta upp ermar og freista þess að loka einu málinu enn.

Og ekki veitir af vönum mönnum enda dragast starfandi og fyrrverandi kollegar þeirra Stuarts og Khans úr lögreglunni fljótt inn í rannsóknina. Bifreið í eigu mannsins sem átti frystikistuna var stöðvuð af lögreglu sama kvöld og hinn látni hvarf sporlaust og í henni reyndust vera fimm nýútskrifaðir lögreglumenn. Bílstjórinn reyndist vera undir áhrifum áfengis og ferlinum því skolað burt með baðvatninu áður en hann hófst. Sá er nú fallinn frá en geta hin fjögur varpað ljósi á málið? Hver eru tengsl þessa fólks við manninn í frystinum?

Lengi á leiðinni

Það tók fjórðu seríuna af Unforgotten, eða Gröfnum leyndarmálum, hálft þriðja ár að skola sér upp á Íslandsstrendur og maður var farinn að halda að hún hefði hreinlega týnst í hafi. Þannig var það sem betur fer ekki enda um ákaflega vandað glæpasjónvarp að ræða, eins og Bretum er einum lagið. Spennustigið er hægt og bítandi skrúfað upp og enda þótt hópurinn sé eins og oft áður þrengdur er ómögulegt að sjá fyrir með vissu hver morðinginn eða morðingjarnir eru.

Fram hefur komið, meðal annars hér í Lesbók, að þetta sé síðasta serían af Gröfnum leyndarmálum þar sem Cassiear Stuart nýtur við, þannig að lesendur ættu að blóðmjólka þessa þætti. Cassie er með skemmtilegri sjónvarpslöggum í seinni tíð, önug en ákaflega úrræðagóð og blátt áfram. Hún dregur sína djöfla, eins og allar skáldaðar löggur. 29 ár og níu mánuðir af blóði, innyflum og almennum óhugnaði hefur sett sitt mark á okkar konu og hún getur ekki beðið eftir að hægja ferðina. Fyrir henni þvælast svo húðlatur sonur, sem nennir helst ekki fram úr, og úrillur faðir sem farinn er að glíma við elliglöp. Til að bæta gráu ofan á svart er svo bláókunnug kona flutt inn á gamla manninn og hann hyggst færa arfinn yfir á hana. Maðurinn getur ekki verið með öllum mjalla!

Ný kona í brúnni

Eins og allir sem þetta lesa vita fór breska leikkonan Nicola Walker með hlutverk Cassiear Stuart í fyrstu fjórum seríunum af Gröfnum leyndarmálum. Hún hvarf að því loknu til annarra verkefna, einkum af sama toga, en Walker hefur leikið átta ólíka lögreglumenn í jafnmörgum breskum seríum gegnum árin. Nú síðast titilhlutverkið í Anniku sem fjallar um störf rannsóknarlöggunnar glöggu Anniku Strandhed í Glasgow. Önnur sería af henni er væntanleg í Bretlandi með haustinu.

Í stað þess að gráta Birnu bónda ákváðu framleiðendur Grafinna leyndarmála að halda ótrauðir áfram með þættina og skrifa nýjan leiðtoga inn í söguna í stað Cassiear Stuart. Sú heitir því ágæta nafni Jessie James og fer írska leikkonan Sinéad Keenan með hlutverk hennar. En þetta hafa dyggir lesendur Lesbókar auðvitað vitað um hríð enda var fimmta serían frumsýnd í Bretlandi snemma á þessu ári. Hún verður væntanlega sýnd hér síðsumars 2025.

Þar finnast mannabein meðan gamalt hús í Hammersmith er gert upp. Þau reynast vera af lágvaxinni konu í eldgömlum fötum. Málinu er fyrst vísað frá enda einsýnt að langt sé um liðið. Þegar í ljós kemur að konan lést fyrir aðeins sex árum setja menn á hinn bóginn púður í rannsóknina. Þá reynir á hvort Jessie James sé jafn þefvís á sannleikann og Cassie Stuart?

Og jú, örvæntið ekki, Sunny okkar Khan er á sínum stað. Með bakpokann.

Þekktari fyrir gamanleik

Það er breski leikarinn Sanjeev Bhaskar sem fer með hlutverk hins brúnaþunga en geðþekka Sunnys Khans í Gröfnum leyndarmálum. Hann verður sextugur í haust og er merkilegt nokk betur þekktur fyrir gamanleik en drama. Má þar nefna sketsaþættina vinsælu Goodness Gracious Me og gamanþættina The Kumars at No. 42. Hann hefur einnig unnið talsvert fyrir sjónvarp og gerði á sínum tíma heimildarþætti um Indland, heimsótti þar slóðir forfeðra sinna, þar sem nú er Pakistan, en foreldrar hans fluttu til Bretlands þegar Indlandi var skipt upp árið 1947.

Þess má geta að Bhaskar lék einnig háværan mann á veitingastað í hinni vinsælu kvikmynd Notting Hill árið 1999. Hann kom einnig við sögu í myndunum Paddington 2 og Yesterday.