Bestur Gísli Þorgeir fór á kostum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Bestur Gísli Þorgeir fór á kostum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. — Ljósmynd/@SCMagdeburg
„Endurhæfingin hefur gengið mjög vel,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Magdeburgar, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins

„Endurhæfingin hefur gengið mjög vel,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Magdeburgar, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins.

Gísli Þorgeir, sem er 24 ára gamall, fór úr axlarlið í leik gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þar sem Magdeburg hafði betur í vítakeppni í Köln í Þýskalandi.

Leikstjórnandinn kom svo öllum á óvart degi síðar þegar hann skoraði sex mörk í úrslitaleiknum sjálfum gegn Kielce sem Magdeburg vann með eins marks mun eftir framlengingu, 30:29, en Gísli var valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar fyrir frammistöðu sína í Köln.

„Það eru sex vikur síðan ég gekkst undir aðgerð og ég er strax kominn með mikinn liðleika í öxlina sem er hálfótrúlegt ef horft er til þess hversu stutt er síðan ég gekkst undir aðgerðina.

„Þetta verður betra og betra með hverjum deginum sem líður og ég er að vona að ég verði mættur aftur út á gólf í nóvember eða desember,“ sagði Gísli.

Í byrjun júlí bárust fréttir af því að hann gæti mögulega misst af lokakeppni Evrópumótsins í janúar á næsta ári sem fram fer í Þýskalandi en Ísland leikur í C-riðli keppninnar ásamt Ungverjalandi, Serbíu og Svartfjallalandi í München.

„Eins og ég sagði hefur endurhæfingin gengið mjög vel þannig að ég hef ekki áhyggjur af því, eins og staðan er núna, að ég sé að fara að missa af EM. Auðvitað getur ýmislegt komið upp á og það er langur vegur fram undan en eins og staðan er í dag lítur þetta mjög vel út. Ég þarf að halda áfram að vera duglegur í mínu og sinna þessu samviskusamlega,“ bætti Gísli Þorgeir við í Fyrsta sætinu. bjarnih@mbl.is