Fornsögur Áhrif Biblíunnar á einstök bókmenntaverk eru margháttuð.
Fornsögur Áhrif Biblíunnar á einstök bókmenntaverk eru margháttuð. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í formála Eddu sem Snorri Sturlusonur setti saman á þriðja áratug þrettándu aldar er lesendum gerð grein fyrir því að heimurinn hafi verið skapaður af Guði almáttugum (eins og segir frá í Biblíunni) – en að vegna þess að menn vissu ekki betur…

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Í formála Eddu sem Snorri Sturlusonur setti saman á þriðja áratug þrettándu aldar er lesendum gerð grein fyrir því að heimurinn hafi verið skapaður af Guði almáttugum (eins og segir frá í Biblíunni) – en að vegna þess að menn vissu ekki betur eftir Nóaflóðið hafi konungborið fólk frá Tróju sem lagði leið sína hingað í Norðurálfu um tíma verið tekið í guðatölu. Það er áréttað að kristnir menn eigi ekki að trúa á sannindi heimsmyndar og goðsagna Eddu um fyrirbæri á himni: Bifröst/regnbogann, Ask Yggdrasils og ýmsa aðra staði og sali þar efra. Að þeim fyrirvara settum getur Snorri áhyggjulaus rakið sögur og hugmyndir um hin heiðnu goð sem skáldin þurftu að þekkja á himni til að skilja kveðskap og tungutak höfuðskálda.

Vandamálið á dögum Snorra var að hin fornu kvæði og sögur um heiminn voru að lokast inni í þröngum hópi atvinnuskálda. Fornu fræðin voru nátengd heiðnum trúarbrögðum sem höfðu fyrir löngu vikið fyrir kristni þegar Snorri réði til sín skrifara að segja þeim fyrir. Goðafræðin lifði samt góðu lífi meðal skálda sem vísuðu í hana í myndmáli og kenningum þótt þeir væru kristnir og nútímalegir í sinni trúariðkun að öðru leyti. Sjálfsagt hafa sanntrúaðir kirkjunnar þjónar verið andsnúnir kennslu Snorra og viljað halda goðsögum frá kristnum ungmennum; jafnvel bannað þeim að fara í heimsóknir í heita pottinn í Reykholti að fræðast um himinhvolfið á stjörnubjörtum vetrarkvöldum.

Nú, átta hundruð árum síðar, erum við orðin svo umburðarlynd að við kennum goðsögur úr Eddu í skólum sem hluta af menningararfi miðalda og höfum engar áhyggjur af því að við séum að innræta börnum heiðnar trúarhugmyndir; miklu frekar teljum við okkur auðga orðaforðann og gera börnin læs á menningu Norðurálfu.

Það heyrist æ víðar að sannvantrúuðu fólki sé uppsigað við að Biblíusögur séu kenndar í grunnskólum – enda sé sköpunarsaga Biblíunnar um almáttugan Guð í upphafi (sem Snorri var svo viss um að væri sú eina rétta) ekki í samræmi við hugmyndir nútímamanna um Miklahvell. Fólk hafi bara skilið allt guðlegum skilningi því að því var ekki gefin vísindaleg spektin. Við erum hins vegar mörg sem teljum mikilvægt að ungt fólk kynnist sögum Biblíunnar, alveg eins og það þarf að kynnast Eddunni og fornsögunum, því að tungutakið, myndmálið og táknkerfin úr öllum þessum sagnaarfi umvefja okkur daglega. Til þess að botna í veröldinni, hvernig fólk hefur talað um hana og tjáð reynslu sína í listum í aldanna rás, verða börn að fá góða fræðslu í þeim sögum sem hafa leikið aðalhlutverkið í meira en þúsund ár á okkar menningarsvæði. Fólki er svo frjálst að hugleiða með sjálfu sér hverju það trúir og hvernig það kýs að skilja og iðka trú sína – hvort sem það velur að trúa á Guð með sínum hætti eða trúa ekki á Guð og hugsa sér þá um leið hvernig sá Guð sé sem það trúir ekki á…