Hanna Lillý Karlsdóttir fæddist 26. febrúar 1980. Hún lést 3. ágúst 2023.

Útför fór fram 17. ágúst 2023.

Jarðarför bróðurdóttur minnar Hönnu Lillýjar Karlsdóttur fer fram frá Fossvogskirkju í dag.

Hanna Lillý varð aðeins 43 ára og lætur eftir sig eiginmanninn Odd og börnin Björn Harrý 11 ára og Helenu Kristínu Guðrúnu sjö ára. Hanna Lillý var send til Svíþjóðar fyrir um fjórum árum vegna ristilkrabba og heppnaðist sú aðgerð vel en aðgerðirnar áttu eftir að verða fleiri. Pabbi hennar fór í stóra opna hjartaaðgerð á sama tíma og hún var í fyrstu aðgerðinni í Svíþjóð. Hanna Lillý var aðeins 12 ára þegar mamma hennar, Helga Kristín Möller, féll frá vegna brjóstakrabba, en báðar háðu þær fjögurra ára baráttu við krabbann. Pabbi hennar gegndi því líka móðurhlutverkinu sem og 13 árum eldri systir hennar, Lóa. Pabbi Hönnu Lillýjar dó í vetur sem leið. Þrátt fyrir öll áföllin var eins og Hanna Lillý styrktist og þroskaðist, náði þroska sem fáum er gefið. Ég hef aldrei áður horft upp á manneskju með eins djúpa auðmýkt gagnvart örlögum sínum og hún. Hanna Lillý gaf okkur svo mikið að það er hreint ólýsanlegt hversu mikið hún skilur eftir sig.

Ég var svo heppin að ná að heimsæka Hönnu Lillý á líknardeildina þegar bráði af henni í stuttan tíma og hún var eins og hún átti að sér að vera, talaði rólega, rökföst og dillandi hláturinn kominn aftur. Hún spurði spurninga sem hún vildi fá svör við.

Hanna Lillý átti stóra og samheldna fjölskyldu. Lóa systir hennar var eins og klettur við hlið hennar og að öllum öðrum ólöstuðum voru móðursystur hennar klettarnir líka sem og frænkur hennar, systurnar Sveinsdætur, Helena og Kristbjörg. Hver um sig áttu þær allar sitt hlutverk þau fjögur ár sem baráttan stóð, hvort sem það voru þvottar, hreingerning, barnapössun eða önnur aðhlynning og allar voru þær alltaf til staðar. Læknarnir í fölskyldunni sóttu alla læknafundi og á engan er hallað þegar sagt er að móðursystir Hönnu Lillýjar, Alma Möller, sótti langflesta læknafundi.

Hanna Lillý var með eindæmum opin fyrir að dauðinn beið hennar. Hún undirbjó börnin sín og eiginmann af kostgæfni og festu, og hún safnaði í minningabankann fyrir börnin sín fram að allra síðustu dögum. Jarðarför sína undirbjó hún einnig. Þetta sýnir hinn mikla styrk sem hún bjó yfir að hún var orðin sátt við sitt hlutskipti, hlutskipti sem við hin sættum okkur aldrei við.

Hugur minn á þessari stundu er hjá Oddi og börnunum Birni Harrý og Helenu. Ég vona að minningarnar um yndislega eiginkonu og mömmu verði huggun harmi gegn og þau læri með tímanum að lifa með sorginni. Ég votta þeim innilega samúð mína sem og Lóu og Guðjóni, ömmu Helenu 99 ára, sem var ásamt hennar nánustu við dánarbeð barnabarns síns þar til yfir lauk, Tryggva tengdapabba og öðrum ættingjum og vinum.

Sól eg sá,

svo hún geislaði,

að ég þóttumk vættki vita;

en gylfar straumar

grenjuðu á annan veg,

blandnir mjök við blóð.

Heljar reip

kómu harðliga

sveigð að síðum mér;

slíta eg vilda,

en þau seig vóru;

létt er laus að fara.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

og hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt.

Elsku Hanna Lillý okkar.

Það er svo erfitt að trúa því að þú sért allt í einu farin. Þrátt fyrir að kveðjustundin hafi verið yfirvofandi þá er það svo ósanngjarnt og sárt að kona í blóma lífsins þurfi að kveðja ástvini sína og yfirgefa jarðvistina. Það er stórt skarð höggvið í vinkonuhópinn og hjörtu okkar eru í þúsund molum og bara fyrir ári kvöddum við aðra kæra vinkonu. Við fengum þó að kveðja þig og fyrir það erum við þakklátar.

Æðruleysi þitt gagnvart veikindunum var aðdáunarvert. Þú varst svo hugrökk og barðist hetjulega við alvarleg veikindi. Þú lagðir mikla áherslu á að veikindin hefðu sem minnst áhrif á daglegt líf fjölskyldu þinnar og þá sérstaklega yndislegu barnanna þinna sem þú varst svo stolt af. Þú kvartaðir aldrei, horfðist í augu við hið óumflýjanlega og einbeittir þér að því síðustu vikurnar að búa til minningar með fjölskyldu og vinum. Það gladdi okkur þegar þú hresstist um stund í sumar og fékkst góða viku með þínum nánustu þar sem þú gast notið lífsins í fallegu sumarveðri. Þú bókstaflega ljómaðir og það skein af þér hrein og tær lífsgleði. Við vonuðum að þú fengir lengri tíma en allt kom fyrir ekki.

Þú varst alltaf svo dugleg að varðveita minningar, eins og dagbókin góða sem dregin var upp í Herfuhittingunum er gott dæmi um. Þar er að finna alls konar pælingar um lífið og tilveruna, stelpugrín og fjör. Nafnið á hópnum okkar kom líka frá þér, H.E.R.F.U.R., en hópurinn okkar samanstendur af stelpum úr þremur bekkjum í Kvennó sem komu úr ólíkum áttum en áttu eftir að kynnast og tengjast órjúfanlegum böndum.

Þú varst ótrúlega samviskusöm og mikill dugnaðarforkur. Til dæmis fékkstu sérstök verðlaun þegar þú útskrifaðist úr Kvennó fyrir 100% mætingu öll árin í skólanum. Þú mættir jafnvel veik í skólann, þú skyldir ekki missa einn einasta dag úr náminu. Þú varst einnig mikill vinnuþjarkur og hélst áfram að vinna þrátt fyrir erfið veikindi.

Þú varst hreinskilin og með afar sterka réttlætiskennd. Ákveðin og fylgin þér. Góð vinkona og traust. Þú naust þess að spjalla og segja frá og dillandi hláturinn var aldrei langt undan. Þú varst einnig mikill fagurkeri og kunnir að meta hönnun. Þú hafðir líka einstakt auga fyrir flottum skóm og ekki var það verra ef þeir voru rauðir eða bleikir. Litirnir sem fóru þér svo vel. Þú varst svo elegant og glæsileg.

Við söknum þín sárt elsku vinkona en erum jafnframt þakklátar fyrir að hafa átt svo margar skemmtilegar stundir saman. Ógleymanlega ferðin okkar til Írlands kemur ofarlega í hugann þar sem mikil tedrykkja og skrautleg bílferð koma við sögu. Fjörugu partíin á stúdentagörðunum þegar þú settir Gypsy Kings í spilarann og litla eldhúsgólfið breyttist í dansgólf. Og óteljandi saumaklúbbshittingar og sumarbústaðaferðir þar sem við nutum samverunnar.

Elsku Hanna, nú ertu flogin í faðm foreldra þinna og elsku Öldu Hönnu okkar.

Þú verður alltaf í hug okkar og hjarta.

Við vottum fjölskyldu Hönnu Lillýjar okkar innilegustu samúð.

Þínar H.E.R.F.U.R.,

Arna Dögg, Ásta Björk, Helga, Margrét María, Nína Margrét, Olga, Sólveig og Þóra.

Ég man vel eftir deginum þegar yndislegur grunnskólakennari okkar Hönnu tilkynnti bekknum að Hanna hefði misst móður sína. Nokkuð sem okkur fannst öllum vera nánast óhugsandi á þeim tíma. Við Hanna höfðum þá þekkst síðan hún byrjaði í skólanum og við náðum vel saman ásamt fleiri stelpum. Eftir þetta tóku við nokkur erfið unglingsár þar sem stórt skapið átti það til að flækjast fyrir henni en aldrei lét hún það samt bitna beint á mér. Gæfa okkar beggja var svo að fylgjast að í Kvennaskólann þar sem við áttum eftir að kynnast okkar besta vini og vinkvennahóp sem haldið hefur þétt saman síðan þá.

Hanna var alla tíð samviskusöm og ákveðin, eiginleikar sem komu henni í gegnum erfitt laganám, en hún hafði líka alltaf tíma fyrir vini sína og hvatti okkur oft til að hittast, líka þegar veikindin voru farin að hrjá hana. Hanna lagði alltaf mikið upp úr afmælisdögum og mundi bæði afmælisdaga allra vina sinna og barnanna þeirra líka. Hún var alltaf fyrst til að óska mér til hamingju á afmælinu mínu og ég mun sakna þess mikið að fá ekki kveðju eða símtal frá henni.

Síðar lágu leiðir hennar og Odds saman í veislu hjá mér og mikið var ég glöð að fylgjast með henni blómstra í sambandinu og svo móðurhlutverkinu. Þar var hún mér mikil fyrirmynd og ég gat alltaf leitað til hennar og fengið ráðleggingar eða hughreystingu þegar á þurfti að halda og hún var alltaf til í að hittast og spjalla, hvort sem það var yfir rjúkandi kakóbolla eða kældu hvítvínsglasi.

Á lokametrunum þakkaði Hanna mér fyrir að vera góð vinkona en það er og verður alltaf mitt að þakka fyrir að hafa fengið að njóta vináttu hennar og hugulsemi í öll þessi ár, sem ég vildi þó óska að hefðu verið miklu fleiri.

Nú hefur Hanna Lillý lokað fallegu heiðbláu augunum sínum í hinsta sinn. Hið óhugsandi hefur gerst aftur. Og eina huggunin er sú að hún sé nú hjá foreldrum sínum sem henni þótti svo vænt um.

Hvíldu í friði, elsku vinkona.

Elsku Oddur, Björn, Helena, Lóa, Guðjón og stórfjölskylda, ég votta ykkur innilega samúð,

Nína Margrét Jónsdóttir.

Réttlæti er ekki fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar ungt fólk er tekið frá ungum börnum sínum. Það er ekki heldur orðið sem kemur upp í hugann þegar baráttan við illvígan sjúkdóm tapast. Það er sannarlega ekkert réttlæti í því að Hanna fái ekki að sjá börn sín vaxa úr grasi og njóta samveru við eiginmann sinn, fjölskyldu og vini í þau fjöldamörgu ár sem þau sannarlega hefðu átt að eiga saman. Á þessum tíma er það enda ekki framtíðin sem er manni helst í huga heldur fortíðin. Minningarnar. Af þeim á ég margar og ótal þeirra eru um Hönnu.

Ég kynntist Hönnu í Kvennaskólanum í Reykjavík seint á síðustu öld. Það var gæfa mín að eignast þar vinkonu til hennar hinsta dags. Hanna var skapstór og ákveðin á þessum árum, gat stundum búið til spennuþrungnar aðstæður að því er virtist aðeins til þess að hrista pínulítið upp í málunum. Ég hafði lúmskt gaman af þessu og hún áttaði sig fljótt á því að húmor okkar var á margan hátt svipaður. Með árunum minnkaði skapið – en ekki ákveðnin – og við Hanna hlógum oft að atvikum sem eftir á að hyggja voru sérkennileg en frábær í minningabankann.

Hanna hafði einstakt dálæti á hönnun og fallegum hlutum. Við áttum ófáar stundir þar sem við skeggræddum nýjustu Iittala-línuna eða létum okkur dreyma um ákveðna húsmuni sem öðrum þótti skrýtið að eyða tíma í.

Hanna greindist með sinn illvíga sjúkdóm fyrir nokkrum árum. Frá fyrstu stundu tók hún því af stóískri ró og vildi halda lífi sínu áfram á eins venjulegan máta og henni var unnt. Hún hélt áfram að vinna, sinna fjölskyldu sinni og sló hvergi af í að vilja hitta vini sína. Skapa minningar. Við töluðum saman því sem næst upp á hvern dag og þögnin núna er ærandi. Það er stórt skarð fyrir skildi. Þegar ég kvaddi Hönnu í síðasta skipti sagðist hún vona að við hittumst aftur. Ég vona það líka.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

(Jónas Hallgrímsson)

Ég votta Oddi, Birni, Helenu, Lóu og Guðjóni, og allri hennar stóru fjölskyldu og vinum, mína innilegustu samúð. Megi ljósið fylgja henni og ykkur alla tíð.

Karl Ágúst Ipsen.

Í dag kveð ég yndislega vinkonu og frábæran samstarfsfélaga á Hugverkastofunni til fjölda ára, elsku Hönnu mína. Að komið sé að kveðjustund er óraunverulegt.

Við Hanna kynntumst árið 2012 þegar ég hóf störf á Hugverkastofunni og náðum við strax vel saman. Hanna var fagmaður fram í fingurgóma, vandvirk, nákvæm og drífandi og umhugað um starfið enda hugverkarétturinn henni hugleikinn. Við vorum gott teymi strax frá byrjun og lágu skrifstofur okkar saman lengst af. Við grínuðumst oft með það að við þyrftum að fá lítinn glugga í vegginn á milli okkar til að geta rætt saman án þess að standa upp. Glugginn hefði sennilega bara staðið opinn því alltaf var Hanna boðin og búin að aðstoða og leiðbeina. Hún vissi allt og mundi allt og af henni lærði ég svo margt. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Hanna var mikil stemningskona og lagði mikið upp úr því að viðhalda gleðinni í vinnunni. Hún á heiður skilið fyrir að halda fast í góðar og skemmtilegar hefðir á Hugverkastofunni og er vonda-nammis-keppnin sem hún stóð fyrir síðastliðið haust ógleymanleg. Þessara gæðastunda mun ég alltaf hugsa hlýtt til.

Hanna var ekki bara góður samstarfsfélagi heldur afar kær vinkona og til hennar var gott að leita. Hún stóð alltaf með manni og samgladdist þegar vel gekk. Þá var svo margt sem tengdi okkur, m.a. sameiginlegur áhugi á raunveruleikaþáttum og kenndi Hanna mér fljótt hvert leyndarmálið væri við áhorf slíks eðalefnis – það var að vita fyrir fram hver ynni. Ég fór að ráðum hennar og viti menn, þetta er svo miklu skemmtilegra. Við vinkonurnar vorum líka miklar loppukonur, alltaf að setja upp og taka niður bása. Þetta gátum við rætt endalaust, enda Hanna afar reynd í loppubransanum og með ráð undir rifi hverju.

Hanna barðist hetjulega og af miklu æðruleysi við sjúkdóminn illvíga síðastliðin fjögur ár. Ég vann þétt við hlið hennar næstum allan þann tíma og var viðhorf hennar aðdáunarvert og baráttuviljinn einstakur. Síðasta samverustund okkar á líknardeildinni er mér afar minnisstæð, þar sem þakklæti var henni efst í huga. Lífið er svo sannarlega núna.

Ég kveð elsku Hönnu með miklum söknuði og votta Oddi, Birni Harry, Helenu, Lóu og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Ég mun ávallt minnast hennar með gleði í hjarta og þakklæti fyrir einstaka vináttu.

Allt hið liðna er ljúft að geyma,

– láta sig í vöku dreyma.

Sólskinsdögum síst má gleyma,

– segðu engum manni hitt!

Vorið kemur heimur hlýnar,

hjartað mitt!

(Jóhannes úr Kötlum)

Margrét Ragnarsdóttir.

Elsku hjartans Hanna Lillý okkar hóf störf sem lögfræðingur hjá Hugverkastofunni árið 2006. Hún var lykilstarfsmaður, gegndi ábyrgðarstöðu og var leiðtogi og fyrirmynd í faglegu starfi. Þegar upp komu vafamál var ávallt hægt að spyrja Hönnu. Hún þekkti allar reglur og fordæmi á sviði vörumerkjamála og lagabókstafinn betur en nokkur annar. Það var svo sannarlega hægt „að fletta upp í“ Hönnu. Hún var stoðin í fræðunum og handbókin okkar sem fór alltaf vel með yfirburðaþekkingu sína og miðlaði henni af sannfæringu og sanngirni. Hún ígrundaði hlutina vel, var oft djúpt hugsi þegar mikið reyndi á en var kát og skemmtileg með sinn dillandi og smitandi hlátur þegar við átti.

Hanna okkar var með stórt „hugverkahjarta“. Henni var mjög annt um fagið sitt, fylgdist með þróun þess af áhuga og miðlaði til samstarfsfélaga öllum stundum. Hún var alltaf fyrst með fréttirnar í málefnum tengdum hugverkarétti og sá um að halda okkur upplýstum. Einstaka sinnum kom það fyrir að maður taldi sig vera fyrsta með fréttirnar en oftast komst maður fljótt að því að Hanna hafði þegar sent fréttina til okkar allra.

Vinnustaðurinn var Hönnu mjög kær, hún var þar sterkur félagslegur hlekkur og átti ríkan þátt í að móta fallegar hefðir sem hún vildi um fram allt halda í með gleðina að leiðarljósi.

Hennar vegna er Júróvisjón til dæmis stór viðburður á vinnustaðnum. Hún þekkti nánast öll júróvisjónlög og stóð oftar en ekki upp sem sigurvegari í vinnustaðakeppnum tengdum tónlist. Hún var líka mikill fagurkeri, hafði dálæti á fallegum hönnunarvörum og samstarfsfólkið fékk oft að njóta þess.

Elsku Hanna okkar var fyrst og fremst fjölskyldumanneskja og hún ljómaði þegar hún talaði um börnin sín, Björn Harry og Helenu, eiginmanninn Odd og Lóu systur sem gerði besta mat í heimi. Við höfum orðið vitni að stórkostlegum samtakamætti fjölskyldu Hönnu í veikindum hennar. Það er sannkallað ríkidæmi að eiga slíka kletta þegar mest reynir á.

Hanna okkar var mögnuð fyrirmynd og kenndi okkur á síðustu misserum hvað felst í hugtakinu æðruleysi. Við erum óendanlega þakklát fyrir allt sem hún hefur gefið okkur.

Elsku Hönnu okkar verður afar sárt saknað af samstarfsfélögum, bæði faglega og félagslega. Við munum varðveita minningu hennar af virðingu og væntumþykju. Við vottum elsku Oddi, Birni Harry, Helenu, Lóu og allri stórfjölskyldu Hönnu okkar innilegustu samúð.

Borghildur Erlingsdóttir.