Gjöf Kolbrún Benediktsdóttir, fráfarandi forseti klúbbsins, og Ingvar Geirsson afhentu Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra gjöfina við minnisvarðann í Klifsholti.
Gjöf Kolbrún Benediktsdóttir, fráfarandi forseti klúbbsins, og Ingvar Geirsson afhentu Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra gjöfina við minnisvarðann í Klifsholti. — Ljósmynd/Gyða Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umdæmisþing Rótarý hófst á Sauðárkróki í gærkvöldi og að vanda er boðið upp á þétta dagskrá. Starf klúbbanna er viðamikið og til dæmis hafa félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar nýlokið við fyrsta áfanga verkefnis sem stefnt er að því að halda áfram með næstu ár

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Umdæmisþing Rótarý hófst á Sauðárkróki í gærkvöldi og að vanda er boðið upp á þétta dagskrá. Starf klúbbanna er viðamikið og til dæmis hafa félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar nýlokið við fyrsta áfanga verkefnis sem stefnt er að því að halda áfram með næstu ár. „Við ákváðum að gefa Hafnarfjarðarbæ sex bekki til að setja við stíg í upplandi bæjarins, sem framlag til nærsamfélagsins,“ segir Ingvar Geirsson, forseti klúbbsins.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 1946 og er með elstu og fjölmennustu Rótarýklúbbum landsins. Ingvar bendir á að hreyfingin sé starfsgreinatengd og Hafnfirðingum hafi snemma þótt það góður kostur að fá menn úr fjölbreyttum starfsgreinum til að sameinast með þessum hætti og láta gott af sér leiða.

„Við hittumst í Kaplakrika og borðum saman í hádeginu á fimmtudögum, erum yfirleitt alltaf með fyrirlesara og eigum skemmtilega og uppbyggilega stund saman,“ segir Ingvar. Félagar hafi lagt mörgum, góðum málefnum og samtökum lið og unnið þarft verk, meðal annars í skógrækt í lundi í Klifsholti við Kaldárselsveg. Eins hafi klúbburinn veitt nemendum, sem hafi unnið gott starf í skólum bæjarins, viðurkenningu og þeir fleytt styrk áfram til góðra málefna að eigin vali. „Þetta hefur mælst vel fyrir.“

Ný gönguleið

Fyrstu sex bekkirnir voru formlega afhentir Hafnarfjarðarbæ í júlí og höfðu félagar þá sett bekkina niður við stíginn með um 300 til 800 metra millibili. Á þeim eru skildir með kveðju frá Rótarýklúbbnum til vegfarenda auk þess sem látinna félaga er minnst. „Þarna birtast ný nöfn eftir því sem bekkjum fjölgar og þannig höldum við minningunni á lofti,“ segir Ingvar.

Bekkirnir eru á nýrri gönguleið samhliða Kaldárselsvegi. Hún er hluti Græna trefilsins svonefnda, samstarfsverkefnis skógræktarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsti bekkurinn er skammt frá hesthúsahverfinu við Hlíðarþúfur.

„Hugmyndin er að halda áfram að setja niður bekki og varða leiðina þannig upp að Kaldárseli á komandi árum,“ segir Ingvar. Ekki sé búið að malbika göngustíginn alla leið en ætlunin sé að fylgja þeim framkvæmdum eftir með fyrrnefndum hætti. „Við höfum rætt um að bæta við skjöldum á bekkina og vera þar með uppbyggileg skilaboð fyrir geðheilsuna í þeim tilgangi að senda jákvæða strauma og styrkja fólk sem er í auknum mæli á ferðinni.“ Hann vísar til þess að eðliilega sé fólk í misjafnlega góðu líkamlegu ástandi og ástæða sé ekki aðeins til að taka viljann fyrir verkið heldur hvetja það líka til frekari dáða. „Við horfum til geðheilbrigðismála og okkur langar til að leggja lóð þar á vogarskálarnar.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson