„Maður var dolfallinn yfir þessari bók sem strákur og seinna las ég hana líka fyrir börnin mín,“ segir Bjarni Haukur Þórsson, sem skrifar leikgerðina og leikstýrir sýningunni Palli var einn í heiminum, sem frumsýnd verður í Hörpu 23. september. Hún er byggð á samnefndri bók eftir danska höfundinn Jens Sigsgaard. Bjarna Hauki þykir sagan eiga alveg jafn vel við í dag og þegar bókin kom fyrst út árið 1942. „Palli er sígildur, auk þess sem hann var auðvitað með sterka endurkomu í heimsfaraldrinum,“ segir hann sposkur og bætir við að um sé að ræða sýningu fyrir alla fjölskylduna.
Palli hefur ekki í annan tíma verið settur á svið, sem Bjarna Hauki þykir mjög merkilegt, ekki einu sinni í Danmörku. „Afkomendur höfundarins og Gyldendal-forlagið, sem ég fékk réttinn hjá, eru mjög ánægð með að fyrsta leiksýningin verði á Íslandi enda var það með fyrstu löndunum sem gaf bókina út og hér hefur hún selst vel.
Tónlist er áberandi í sýningunni en hana semur Frank Hall, auk þess sem mikið verður af teiknuðum hreyfimyndum. „Palli fer vítt og breitt um Reykjavík í sýningunni, keyrir strætó og brunabíl og flýgur flugvél og stefnir á tunglið, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Bjarni Haukur. Ólafur Ásgeirsson fer með hlutverk Palla og segir Bjarni Haukur hann fæddan í hlutverkið. „Ólafur er upprennandi snillingur í leiklist og einn okkar fremsti spunaleikari. Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna með honum.“
Bjarni Haukur segir vel koma til greina að fara með sýninguna utan í framhaldinu. „Það yrði til dæmis gaman að setja hana upp í Danmörku, í íslenskri túlkun.“