Róttæk pólitísk umskipti í Svíþjóð og Finnlandi í öryggismálum voru sögð sýna róttækan vilja til skjótra breytinga til að tryggja þjóðfélagslegt öryggi.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Í Arnedal við Skagerrak um 260 km fyrir sunnan Osló hefur í nokkur ár verið efnt til eins konar þjóðfundarviku síðsumars til að greina stöðu þjóðarinnar inn á við og gagnvart öðrum þjóðum.

Stian Jenssen, skrifstofustjóri Jens Stoltenbergs framkvæmdastjóra NATO, ræddi í pallborði þriðjudaginn 15. ágúst hvað gerðist ef Úkraínumenn ynnu ekki fullnaðarsigur á Rússum. Hann sagði rætt um að þeir ættu að sætta sig við einhvers konar hlutleysi. „Líklegri lausn tel ég þó að þeir afsali sér landi og fái NATO-aðild í staðinn.“

Þessi orð vöktu reiði hjá úkraínskum stjórnvöldum. Jenssen baðst afsökunar og sagðist hafa komist illa að orði.

Jens Stoltenberg sat fyrir svörum í Arndedal fimmtudaginn 17. ágúst. Hann sagði Jenssen hafa leiðrétt misskilning vegna klaufalegra orða sinna. NATO stæði með Úkraínumönnum, virti landsyfirráðarétt þeirra og forræði varðandi alla samninga til að ljúka stríðinu. Mestu skipti að tryggja réttlátan og varanlegan frið og gefast ekki upp gagnvart harðstjórum. Norðmenn hefðu ekki gert það þegar ráðist var inn í land þeirra 9. apríl 1940. Lýðræði bæri að verja.

Mánudaginn 14. ágúst voru pallborðsumræður í Arnedal þar sem þátttakendur voru fyrrverandi utanríkisráðherra Hægriflokksins, Ine Eriksen Søreide, formaður utanríkismálanefndar stórþingsins, fyrrverandi dómsmálaráðherra Verkamannaflokksins, Knut Storberget, formaður norsku varnarmálanefndarinnar 2021, og fráfarandi forstjóri norsku utanríkismálastofnunarinnar, Ulf Sverdrup.

Þau ræddu nýjar aðstæður í norrænum öryggismálum með hliðsjón af aðild Svía og Finna að NATO. Staða Noregs hefði breyst vegna þess að varnir Svía og Finna og Eystrasaltssvæðisins ættu nú mikið undir liðsflutningum og hergögnum sem kæmu í gegnum Norður-Noreg. Rússar fengju aðra hernaðarlega sýn á Noreg vegna þessa.

Knut Storberget sagði Norðmenn hafa tilhneigingu til að líta á allt sem gerðist í kringum sig með hugfari sem einkenndist af spurningunni: Hvað höfum við upp úr þessu? Þeir yrðu hins vegar sjálfir að leggja sitt af mörkum til að tryggja eigið öryggi.

Ulf Sverdrup sagði að þróun NATO boðaði söguleg umskipti á Norðurlöndunum. Rússar skiptu vissulega máli en fyrir norrænu ríkin væri mikilvægast að hlúa að öruggum samfélögum þjóða sinna og aðild ríkjanna að NATO væri liður í því.

Róttæk pólitísk umskipti í Svíþjóð og Finnlandi í öryggismálum voru sögð sýna róttækan vilja til skjótra breytinga til að tryggja þjóðfélagslegt öryggi. Norðmenn væru óskiljanlega latir þegar kæmi að svo stórum ákvörðunum vegna breytinga á ytra umhverfi.

Ine Eriksen Søreide vildi að Evrópustefna Noregs yrði tekin til skoðunar með aðild að ESB í huga. Norðmenn yrðu að styrkja stöðu sína til áhrifa á vettvangi ESB. Þrjár milljónir Norðmanna hefðu ekki fengið tækifæri til að segja álit sitt á ESB-aðild síðan hún var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994. Hægriflokkurinn reyndi nú að koma aðildarmálinu á dagskrá aftur. Í atkvæðagreiðslunni 1994 greiddu 52,2% Norðmanna atkvæði gegn ESB-aðild.

Ulf Sverdrup taldi að Norðmenn hefðu það einfaldlega of gott til að hefja vangaveltur um aðild að ESB. Hann sagðist vona að Norðmenn stofnuðu ekki enn einu sinni til umræðu sem tæki aðeins mið af ESB. Hún ætti frekar að snúast um hvers konar samfélag Norðmenn vildu skapa sér.

Íslendingum ber að fylgjast náið með öllum norrænum umræðum um utanríkis- og varnarmál. Samstarf okkar og Norðmanna hefur verið náið á árunum 75 sem liðin eru frá því að hugmyndin um norrænt varnarbandalag varð að engu og við gengum í NATO árið 1949 með góðum stuðningi og hvatningu frá Halvard Lange, þáverandi utanríkisráðherra Noregs.

Knut Storberget var dómsmálaráðherra Noregs þegar bandaríska varnarliðið hvarf héðan árið 2006 og fylgdist náið með ákvörðunum sem þá voru teknar um að styrkja Landhelgisgæslu Íslands til samstarfs við aðrar þjóðir.

Storberget sagði í Arnedal að á ferðum norsku varnarmálanefndarinnar 2021 hefði verið rætt um 5. gr. NATO-sáttmálans á þann veg að í henni fælist að komið yrði Norðmönnum til hjálpar á hættustund og vissulega mundi það gerast. Á hinn bóginn yrði að líta til þess að breytt öryggisógn krefðist þess að á nýjan hátt yrði hugað að viðbúnaði á heimavelli.

Þessi ábending á enn frekar við um okkur Íslendinga en Norðmenn, sem halda úti eigin herafla og standa að framkvæmd eigin varnaráætlana innan ramma NATO, og þess vegna fyrst nú í samstarfi við Finna og Svía. Nýjar áætlanir kalla á nýja árvekni hér á Norður-Atlantshafi og fyrir norðan Ísland.

Hér eru nú í þriðja sinn síðan 2019 bandarískar B-2 Spirit torséðar sprengjuþotur til æfinga næstu vikur frá Keflavíkurflugvelli með flugherjum bandamanna í Norður-Evrópu.

Við komu þeirra til landsins 14. ágúst sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á visir.is að hernaðarleg umsvif á Keflavíkursvæðinu hefðu aukist. Áætlanir hefðu dýpkað, vinna og fjárfestingar vaxið. „Það allt saman er nýr veruleiki,“ sagði ráðherrann. „Það skiptir miklu máli að sýna þessa samstarfsgetu og okkar vilja til þess að taka á móti svona heimsókn, vegna þess að í því felst líka gríðarlega mikil vinna og góð æfing fyrir okkur.“

Við þurfum ekki síður en Norðmenn að taka okkur tak vegna nýs veruleika í öryggismálum. Búa þarf Landhelgisgæslu Íslands skýra lagaumgjörð til að sinna vaxandi og dýpra samstarfi við NATO-þjóðir í umboði utanríkisráðuneytisins.