Landmannalaugar Mynd af framtíðarskipulagi svæðisins úr vinningstillögu í hönnunarsamkeppni sýnir óspillt útsýni úr laugunum.
Landmannalaugar Mynd af framtíðarskipulagi svæðisins úr vinningstillögu í hönnunarsamkeppni sýnir óspillt útsýni úr laugunum. — Teikning/VA arkitektar ehf.
Umhverfisstofnun segir að áætla megi að um 500 bílar á dag hafi verið í Landmannalaugum yfir hásumarið. Mælingar í júní sýndu að fjöldi bíla sem kom inn á svæðið var 350 á dag. Það var 40% aukning frá sama tíma árið 2022

Umhverfisstofnun segir að áætla megi að um 500 bílar á dag hafi verið í Landmannalaugum yfir hásumarið. Mælingar í júní sýndu að fjöldi bíla sem kom inn á svæðið var 350 á dag. Það var 40% aukning frá sama tíma árið 2022.

Segir Umhverfisstofnun á heimasíðu sinni að svæðið og innviðir þess sé ekki í stakk búið til þess að taka á móti slíkum fjölda. Mikið álag sé á jarðminjar á svæðinu, akstur utan vega sé mikið vandamál og kraðak á bílastæðinu skapi hættu. Aðgerðir til að mæta þörfum svæðisins séu því óumflýjanlegar. Mögulega sé komið að þeim tímapunkti að ekki sé hægt að hleypa ótakmörkuðum fjölda inn á svæðið.

Nauðsynleg uppbygging

Fyrirhuguð uppbygging, sem deiliskipulag Rangárþings ytra lýsir, hefur sætt gagnrýni að undanförnu. En Umhverfisstofnun segir að uppbygging innviða í Landmannalaugum sé nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að svæðið tapi verndargildi sínu.

Uppbyggingin eigi við um tvö svæði og mismunandi tilgangur sé með henni. Uppbygging við Námskvísl og laugarnar sjálfar snúi að vernd náttúru og grunnþjónustu við gesti. Þar sé um að ræða salerni, búningsaðstöðu, bílastæði, göngupalla og göngubrú. Það svæði sé nú þegar raskað eða liggi alveg að þegar röskuðu svæði.

Á hinu svæðinu er áformað að reisa gestastofu og gestaskála ásamt baðaðstöðu og laug. Svæðið er við Námshraun sem nú er óraskað svæði. Ætlunin sé að öll starfsemi nema skáli Ferðafélags Íslands verði flutt þangað, til dæmis tjaldsvæði, bílar, veitingasala og önnur mannvirki.

Svæðið í kringum laugarnar sjálfar verður endurgert eins og hægt er í náttúrulegt ástand. Ásýnd svæðisins sem gestir sækja mest og náttúran þar í kring, verði því endurheimt og náttúruleg fegurð njóti sín betur.

Framkvæmdirnar eru unnar í takti við vinningstillögu úr hönnunarsamkeppni um skipulag á svæðinu sem Umhverfisstofnun, Rangárþing ytra og Félag íslenskra landslagsarkitekta efndu til. gummi@mbl.is