Pistill
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
Þetta hefur verið glimrandi gott fréttasumar, ekki satt? Alla vega þegar kemur að ferðalögum Íslendinga til framandi landa. Þar ber vitaskuld hæst stöðugan og ítarlegan fréttaflutning hinna ýmsu miðla af líðan íslenskra skáta á alheimsmóti þeirrar góðu hreyfingar í Suður-Kóreu. Sólin nuddaði sér víst af fullmiklum ákafa utan í mannskapinn þar um slóðir og skátar úr hinum ýmsu hornum heims láku niður, hverjir um aðra þvera. Alltaf var hljóðið samt jafngott í talsmanni íslenska hópsins sem sagði okkar fólk bara hafa það býsna gott miðað við aðstæður og að menn væru duglegir að halda kulda hverjir á öðrum. Engu er logið upp á Íslendinga, þeir bjarga sér. Eigi að síður beið maður milli vonar og ótta um nokkurra daga skeið eftir nýjustu tíðindum að austan.
Ekki kom fram hvort skátarnir tóku bændurna úr Dölunum á’etta í Suður-Kóreu en þegar þeir skelltu sér til Egyptalands um árið ákváðu þeir að klæða af sér hitann með því að fara í fjórar eða fimm lopapeysur – hver bóndi. Okkar menn höfðu víst lesið um þessa mergjuðu lausn í einhverri gamalli bók.
Eitthvað hefur veðurguðunum verið uppsigað við þetta ágæta skátamót. Fyrst ekki dugði að glóðarsteikja mannskapinn þá sendu þeir bara eitt stykki fellibyl á staðinn. Takk fyrir, túkall! Þá var íslensku skátunum nóg boðið, þeir tóku hátíðarklúta sína, leðurhnúta og íslenska fánann og skunduðu í skjól. Fyrst Íslendingar eru á annað borð að leggja á sig að fara til útlanda þá láta þeir hamfarahlýnun liggja milli hluta en á gömlu góðu haustlægðunum og geðvondum frænkum þeirra er alveg hægt að smakka hér heima.
Svo var það frægðarför forseta lýðveldisins á málmhátíðina Wacken í Þýskalandi sem vakti mikla athygli, innan lands sem utan. Sannarlega saga til næsta bæjar, fannst mörgum, en satt best að segja hefði mér persónulega brugðið meira hefði okkar alþýðlegasti maður ekki verið á svæðinu þegar málmurinn tók að óma. Forsetinn er jú málmgefinn maður, það hefur margoft komið fram. Ekkert pjatt í gangi á þeim bænum. Er það vel. Annars kom þetta góða boð auðvitað nokkrum árum of seint. Hver hefði ekki gefið hægri höndina fyrir að sjá Ólaf Ragnar í gúmmístígvélum í forarpyttinum miðjum og Dorrit með djöflahornin, tákn málmlistarinnar, á lofti á kantinum? Hefði einhver sagt mér á Drýsilstónleikunum í Dynheimum haustið 1985 að forseti Íslands ætti eftir að verða heiðursgestur á erlendri málmhátíð meðan ég væri enn á stjákli hefði ég hlegið upp í opið geðið á viðkomandi. En svona fer heiminum fram!