Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Síkvik hún á sjónum er.
Sendibréf hún færir þér.
Kærleiksþrungið ávarps orð.
Einnig nafn á hringaskorð.
Þessi er lausn Helga R. Einarssonar:
Dúfa er nafn sem bylgja ber.
Bréfadúfu er átt við hér.
Dúfa gæluorðið er.
Eitt sinn Dúfa svaf hjá mér.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:
Dúfa síkvik alda er.
Átt við bréfdúfuna hér.
„Dúfan“ mín er ávarps orð.
Er svo Dúfa hringaskorð.
Þá er limra:
Hér segir af Sveini Dúfu,
hann sólskinið bar í húfu
allan daginn
inn í bæinn,
enda með lausa skrúfu.
Síðan er ný gáta eftir Guðmund:
Sólin guðar gluggann á,
glaðir fram úr máta
hljómar berast fuglum frá
og fislétt er mín gáta:
Hef ég nú í huga fjall.
Harla þung er byrði.
Á vanga þessi skæður skall.
Skóli í Borgarfirði.
Þessar limrur fengu að fylgja með lausn Helga – hann var að horfa á sjónvarpið og lenti óvart á Ómega:
Allt kostar sitt
Gott er að vera glaður
geistlegur heiðursmaður
gefa (og þiggja)
á guðsorði byggja
laus við allt bull og blaður.
Hversdagsleikinn
Menn ýmislegt láta sér lynda
í lífinu, t.a.m.
sofa um nætur,
fara á fætur,
í vinnuna síðan sér vinda.
Öfugmælavísa:
Séð hef ég á sjónum hest,
selinn bíta á hánni,
illfiskanna vaðan verst
vagaði upp úr gjánni.
Indriði á Fjalli kvað:
Verða muntu, voluð sál,
vakin seint af blundi,
þú sem óttast eftirmál
ef þú sveiar hundi.