Bæjarhátíðin Fjölskyldudagar í Vogum hófst á miðvikudag og stendur fram á morgun, sunnudag. Fjölskyldudagar eru árleg bæjarhátíð sem haldin er af sveitarfélaginu Vogum með áherslu á fjölskylduvæna skemmtun. Hefur hátíðin verið haldin þriðju helgina í ágúst árlega í yfir 20 ár.
Dagskrá hátíðarinnar er sneisafull af alls kyns viðburðum og uppákomum. Á boðstólum er myndlist, leiksýningar, skrúðganga, bæjargrill og tónleikar þar sem helstu tónlistarmenn landsins koma fram og skemmta gestum. Þá eru einnig hverfaleikar þar sem íbúar keppa í alls kyns þrautum og margt fleira. Frítt er á hátíðina.
Í dag nær hátíðin hápunkti en fjölbreytt dagskrá er í boði frá morgni til kvölds með barnaskemmtun, skrúðgöngu, tónleikum og flugeldasýningu sem hefur nú skapað sér fastan sess í dagskrá hátíðarinnar. Að sögn Guðmundar Stefáns Gunnarssonar, íþrótta- og tómstundafulltrúa, er flugeldasýningin vel þess virði að sjá enda alveg einstök. „Hátíðin endar á frábærri flugeldasýningu sem fólk er farið að mæta sérstaklega á. Þeir skjóta flugeldunum ofan í vatnið. Þannig að það verður svolítið öðruvísi og alveg svakalega flott,“ segir hann.
Hátíðinni lýkur á morgun með lokatónleikum þar sem fjölbreyttir tónlistarmenn skemmta gestum. „Þessir tónleikar verða glæsilegir, enda allir tónlistarmennirnir frábærir,“ segir Guðmundur.