Stangveiði
Hörður Vilberg
hordur@mbl.is
Það reynir á þolrif stangveiðimanna þessa dagana, ekki síst þeirra sem eltast við lax.
Vikulegar veiðitölur Landssambands veiðifélaga staðfesta að veiðisumarið 2023 verður ekki lengi í minnum haft. Langvinn þurrkatíð sunnan heiða er sögð skýra dræma veiði. Regndans veiðimanna sem hefur verið stiginn af miklum móð hefur litlu skilað og boðaðir úrkomubakkar veðurfræðinga hafa sveigt linnulaust frá landinu, en fleira kemur til.
Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun sem þekkir manna betur ástand laxastofna á Vesturlandi, segir að það sé ekki bjart fram undan þegar svona tímar komi. Hann nefnir tvennt til að skýra ástand mála: „Út frá gagnaröðum sem við eigum þá var ég búinn að sjá það fyrir að það væri ekki von á góðu í sumar á Vesturlandi vegna sjávarhita.“
Hann segir aðstæður hafa verið erfiðar á beitarsvæði laxins ofan við Reykjaneshrygginn, þar sem laxinn heldur til áður en hann gengur á ný til heimahaganna, en það sé mikilvægt laxastofnum á Vestur- og Suðurlandi. „Sjávarhiti júlímánaðar hefur mikla tengingu við það hvað kemur af smálaxi ári síðar. Það er búinn að vera þarna kuldapollur undir meðallagi og með lágri seltu í nokkur ár. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta eigi töluvert mikinn þátt í þeirri lægð sem er búin að vera í 5-6 ár á Vesturlandi þar sem göngur hafa verið undir meðallagi.“
Samspil margra þátta
Veiðisumrinu 2023 hefur verið lýst sem hamfarasumri vegna þurrka en sambærilegt ástand var í ám á Vesturlandinu árið 2019 sem hefur áhrif nú. „Þá voru svipaðar aðstæður. Eftir að hitastig fór hækkandi er miklu minni snjómiðlun úr fjöllum heldur en var. Þegar ekki rignir eins og þá og núna aftur, þá hefur þetta mjög afdrifarík áhrif.“
Sigurður segir að þurrkasumarið 2019 hafi haft afleiðingar fyrir viðkomu íslenskra laxastofna. „Það slasaði bæði gönguseiði sem voru að fara út það ár og svo urðu líka afföll á eldri árgöngum. Það er að einhverju leyti að koma fram núna.“
Fiskifræðingurinn segir að úrkomuleysið sem veiðimenn bölva hafi mikil áhrif á veiðina. „Það bara stoppar allt þannig að ástandið verður enn verra.“
Veiðimenn spyrja sig hvort von sé á bjartari tíð á komandi sumrum eða hvort veiðilægðin sé varanleg. Sigurður segir að tölur um sjávarhita í sumar liggi ekki fyrir á þessari stundu. „Um leið og þær mælingar liggja fyrir getum við verið annaðhvort bjartsýnir eða svartsýnir. Um leið og sjórinn fer að taka við sér mun þessi lægð taka enda.“ Ástæða kulda sjávarins er ekki ljós en Sigurður nefnir að ein möguleg skýring gæti verið aukið afrennsli frá Grænlandsjökli. „Lífsferillinn hjá laxinum er mjög flókinn og það er svo margt sem getur komið upp á.“
Ævintýrin gerast þó enn og Laxá í Aðaldal, sem margir unna, virðist vera að taka við sér eftir margra ára niðursveiflu og er fisk að finna þar víða. Veiðifélagið Kippurnar, sem hefur veitt víða, lauk til dæmis 20 ára afmælisferð í Laxá í Aðaldal á miðvikudaginn. „Þetta var 18. árið okkar í Aðaldalnum. Við höfum upplifað alla flóruna í veiði og veðri, sem lék núna við okkur. Drottningin tók á móti okkur með glæsibrag og bauð til veislu. Töluvert meira var af fiski en oft áður og öll svæði inni. Á land komu 23 laxar og annað eins ef ekki fleiri höfðu betur í baráttunni,“ segir Hafsteinn Orri Ingvason.
Konur veiddu vel
Á bökkum Norðurár í Borgarfirði hafa aðstæður verið krefjandi en Brynjar Þór Hreggviðsson sölustjóri Norðurár segir að staðan sé þó betri en 2019 og í raun allt öðru vísi. Ekki vanti lax í ána og jákvæð merki sjáist. „Við erum alla vega að sjá fyrstu dropana hérna núna, það hresstist aðeins í morgun. Um leið og það kom smá ferskleiki þá byrjaði fiskurinn að taka. Það er ekki búið að rigna hérna almennilega í nokkrar vikur. Síðastliðna nótt og í gærmorgun hleypti kærkomin úrkoma lífi í veiðina þó svo að hún væri ekki umtalsverð. Það virðist vera almennur skilningur meðal veiðimanna á aðstæðum,“ segir Brynjar og segir engin merki um að veiðimenn snúi súrir í bragði af veiðislóð. „Svona er bara staðan.“
Spurður um hápunkt sumarsins nefnir Brynjar kvennaholl sem var ekki vant því að veiða í Norðurá en konurnar gerðu mjög góða veiði snemma í júní. „Þær komu hérna og tóku tíu fiska sem voru allir 80 cm eða stærri og allar voru að fá sína stærstu laxa á ferlinum. Það er það sem stendur upp úr.“
Rangárnar taka forystu
Ytri- og Eystri-Rangár hafa nú tekið forskot á listanum yfir vikulegar veiðitölur enda gjöfull tími fram undan í hafbeitaránum. Það styttist í að veiðin í þeirri ytri rjúfi tvö þúsund laxa múrinn. Þverá-Kjarrá fylgir þar á eftir ásamt Selá í Vopnafirði en stangarfjöldi er þar mun minni og fjöldi laxa sem hefur verið landað því vel viðunandi svo ekki sé meira sagt. Veiðin gengur treglega í öðrum ám en inn á milli koma skot sem verða greypt í minningar veiðimanna. Betur hefur gengið á norðausturhorni landsins en á Vesturlandi og veiðimenn biðja um að himnarnir opnist brátt þó svo að aðrir geri það ekki.
Ljóst er að margra daga kröftugar rigningar þurfa að verða að veruleika til að árnar taki við sér eftir að þurr jarðvegurinn hefur gripið rigninguna sem fellur til jarðar áður en rennsli í ánum fer að aukast. Þá mun loks verða ljóst hversu mikið af laxi hefur gengið í árnar þetta sumarið. Haustið er oft gjöfull tími í stangveiðinni, ekki síst eftir að veiða og sleppa fyrirkomulag var tekið upp í fjölmörgum ám.