Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Ég trúi því að stofnar þorsks séu óþrjótandi og það sé ekkert sem við mennirnir getum gert til að hafa áhrif á þá,“ sagði fiskifræðingurinn T.H. Huxley upp úr 1880. Það liðu þó ekki nema örfáir áratugir þar til þorskstofninn í Norðursjó var brot af því sem hann var áður

Ég trúi því að stofnar þorsks séu óþrjótandi og það sé ekkert sem við mennirnir getum gert til að hafa áhrif á þá,“ sagði fiskifræðingurinn T.H. Huxley upp úr 1880. Það liðu þó ekki nema örfáir áratugir þar til þorskstofninn í Norðursjó var brot af því sem hann var áður. Fleiri dæmi eru til, svo sem um síldina sem hvarf og hefur svo náðst að byggja upp aftur. Á Íslandi var tekin sú stefna að byggja aflamark á vísindalegum grunni, fyrst með aflareglu í þorski og síðar í öðrum tegundum. Á síðustu árum hafa stjórnvöld fylgt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Í stórum dráttum hefur þetta gengið vel þó að enn sé gátunni um slakari nýliðun þorsks eftir 1980 ósvarað. Við veiðum lægra hlutfall af stofninum en verðmætin eru meiri og hagkvæmara að sækja fiskinn. Þá er aldurssamsetning stofnsins betri, bæði vistfræðilega en einnig meira af stærri og verðmeiri fiski, m.v. skýrslur Hafrannsóknastofnunar.

Ákvörðun um heildarafla er tekin í ágúst á hverju ári. Þessi ákvörðun er efnahagslega þýðingarmikil fyrir fjölmarga. Því er eðlilegt að þeir hafi sínar skoðanir á ákvörðuninni. Það er í anda lýðræðisins að hlusta á þessar skoðanir enda er það á endanum ákvörðun tekin af ráðherra hvort farið sé að ráðgjöf vísindamanna eða hvort að farið sé að ráðgjöf hagsmunaaðila.

Varúðarnálgun gefst best

Í samtölum við hagsmunaaðila kemur stundum fram gagnrýni á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og það sjónarmið að rétt sé að meta það í hvert sinn hvort ráðgjöf sé fylgt að fullu. Fiskifræðingar byggja ráðgjöf sína á mælingum og rannsóknum og því er ráðgjöfin besta leiðsögnin sem við höfum. Í hvert sinn sem ráðgjöf er sett fram eru þrír möguleikar. Ráðgjöfin getur verið rétt, hún getur vanmetið stofn eða ofmetið hann. Ef fiskifræðingar vanmeta stofn þýðir það meiri afla í framtíðinni. Ofmeti þeir stofnana þýðir það að áfallið verður minna í framtíðinni ef engar hömlur hefðu verið. Augljóst er að betra er að vanmeta stofn heldur en ofmeta, það er ástæðan fyrir því að varúðarnálgun við stjórnun fiskveiða er skynsamleg nálgun. Þannig hníga öll skynsemisrök að því að fara ætíð eftir ráðgjöfinni. Það hefur gefist ágætlega hingað til og er ástæða þess að ég mun fara að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, hér eftir sem hingað til.

Byggjum á vísindum áfram

Þrátt fyrir að skárra sé að vanmeta stofna en ofmeta þá er auðvitað best að stofnmatið sé rétt. Með því að efla hafrannsóknir aukum við líkurnar á að það gerist. Með því að bæta líkön og draga úr óvissu verður ráðgjöfin betri eins og gerst hefur síðustu áratugina. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir sjávarútveginn og almenning að okkur takist að efla hafrannsóknir og því legg ég á það áherslu.

Matvælaráðherra svandis.svavarsdottir@mar.is

Höf.: Svandís Svavarsdóttir