Bryndís Fjóla Pétursdóttir
Bryndís Fjóla Pétursdóttir
Í dag höfum við Íslendingar það fram yfir margar aðrar þjóðir í heiminum að við getum hæglega nálgast náttúruna eins og Guð skapaði hana og við eigum að finna vel fyrir tónum jarðarinnar og finna hvað við erum lítill hluti af vistkerfinu.

Bryndís Fjóla Pétursdóttir

Þau hvísla og kalla en við manneskjurnar heyrum ekki og tökum heldur ekki eftir því þegar þau færa okkur þá notalegu tilfinningu í magann að við séum núna stödd í heimkynnum þeirra þar sem veröldin þeirra og okkar mætast.

Ég er talsmaður huldufólks og álfa, sérstaklega þegar og þar sem heimkynni okkar mætast.

Náttúran er því miður ekki með hlaðvarp eða áhugaverða beina útsendingu í útvarpinu, hvað þá nýjustu fréttirnar, þegar við (manneskjan) skellum tappanum í eyrað og göngum, hlaupum eða hjólum af stað út í náttúruna.

Þessi hegðun er mjög algeng úti í íslenskri náttúru.

Þegar við erum upptekin við að hlusta á „eitthvað annað“ þá hefur náttúran mun færri tækifæri til að senda okkur fallega tóna og tilfinningu, sem er hennar bjargráður.

Við þurfum og verðum að velja að vernda náttúruna í okkur til þess að við vitum hver tilfinningin er þegar náttúran hvíslar einhverju að okkur.

Um leið og við veljum það finnum við betur fyrir Íslendingnum, frumbyggjanum sem við tengjum okkur við þegar við finnum fyrir þjóðarstoltinu, þjóðtrúnni, menningararfinum og stoltinu yfir okkar íslenska tungumáli.

Það er ekkert sjálfsagt í þessum heimi og núna sem endranær þurfum við virkilega að hafa fyrir tilverurétti okkar, trúnni á land og þjóð og kraftinum sem þar er að finna.

Íslendingar sem hafa þennan möguleika og hæfileika til að tengjast náttúrunni, huldufólki og álfum verða í dag að velja að vernda, rækta þennan hæfileika og virða, sérstaklega núna þegar við erum gestgjafar svo margra þjóðarbrota sem ekki hafa þessa sterku tengingu við íslenska jörð og náttúru. Fyrir okkar erlendu gestum er þetta líklega fjarlægur möguleiki – því að það eru mögulega 500-2000 ár síðan forfeður þeirra áttu þetta samtal við náttúruna og því er hæfileiki þeirra og trúin á að það sé virkilega hægt ekki lengur fyrir hendi.

Ég hef frætt fólk um þennan hliðarveruleika okkar hér á Íslandi í mörg ár. Sá veruleiki er bæði töfrandi og áhugaverð tilvist en um leið er hann mjög mikilvægur í dag til þess að við getum lifað í sátt með náttúrunni. Við Íslendingar ættum að finna betur fyrir því hvenær komið er nóg og hvort ekki væri betra að staldra við, deila og njóta náttúrunnar saman í þessari viðkvæmu veröld.

Höfundur er garðyrkjufræðingur og verkefnastjóri Huldustígs í Lystigarðinum á Akureyri.

Höf.: Bryndís Fjóla Pétursdóttir