[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í allra besta falli eru bækur bæði skemmtilegar og forvitnilegar. En það er ekki algengt. Í skemmtilega dálkinum er ég með dellu fyrir skoska höfundinum John Niven. Bækurnar hans eru hrein skemmtun. Líkt og ef Hallgrímur Helga hefði skrifað „Þetta er allt að koma“ aftur og aftur

Í allra besta falli eru bækur bæði skemmtilegar og forvitnilegar. En það er ekki algengt. Í skemmtilega dálkinum er ég með dellu fyrir skoska höfundinum John Niven. Bækurnar hans eru hrein skemmtun. Líkt og ef Hallgrímur Helga hefði skrifað „Þetta er allt að koma“ aftur og aftur. Sérsvið Nivens er að fanga anda vísitölufólksins af næmni og stilla síðan upp árekstri við blöndu af ýktu fólki og ýktum aðstæðum. Þær eru sérstaklega góðar ef maður er illa fyrirkallaður um hávetur og vill ekki tala við neinn. Þess vegna tími ég ekki að lesa þær allar heldur hef þær sem hluta af sáluhjálparsjúkrakassa heimilisins. Af handahófi mæli ég með „Sunrise Cruise Company.“ Persónan Barry Frobisher les Telegraph — sem á vel við í Morgunblaðinu.

Sumar bækur eru forvitnilegar en leiðinlegar. Þær allra forvitnilegustu þrælar maður sér í gegnum engu að síður. Erkidæmið um þetta finnst mér bókin „Never Let a Serious Crisis Go to Waste: How Neoliberalism Survived the Financial Meltdown,“ eftir bandaríska hagsagnfræðinginn Philip Mirowski. Mirowski er klár og skrifar tilgerðarlega, en innsæið er slíkt að maður lætur sig hafa það. Hann ljær lífi hinu margþvælda hugtaki nýfrjálshyggjunni.

Önnur í þeim flokki er „Slouching Towards Utopia“ eftir hagfræðiprófessorinn J. Bradford Long. Hann segir hagsögu síðustu 150 ára og veltir fyrir sér af hverju þetta tímabíl er einstakt í mannkynsögunni hvað varðar hagsældaraukningu. Mörgu í þessari yfirferð má hafa aðrar skoðanir á en það er virðingarvert að tækla stórar spurningar sem er erfitt að svara með afgerandi hætti. Vildi samt óska að bókin hefði fengið meiri yfirlegu og ég tel að við flýtum okkur of mikið að gefa út. Adam Smith skrifaði tvær bækur á sínum ferli (reyndar í nokkrum bindum) og þær eru enn þá í prenti.

Höfundur sem er oftast skemmtilegur og yfirleitt töluvert áhugaverður er hinn vinsæli breski sagnfræðingur Ben McIntyre, sem skrifar um ýmis atvik í njósnum og hernaði Breta á 20. öld. Eftirlætisbækur á ferðalagi. Sérstaklega minnisstæð er „Spy Among Friends“ um Cambridge-njósnarann Kim Philby.

„Lifað með öldinni“ eftir Jóhannes Nordal er skemmtileg og áhugaverð. Doðrantur eftir fyrrverandi seðlabankastjóra er ekki árennilegur en góður vinur mælti með henni. Jóhannes hefur þægilega nærveru, hefur frá mörgu forvitnilegu að segja og er sparsamur á orð. Maður fær mjög mikið út úr þessum lestri. Hann býr til aðgengilega sneiðmynd af lýðveldistímanum og meira til. Æviminningar eru skilvirkt form. Sagnfræði er skuldbundin til rökleiðslu en í ævisögunni er nóg að segja bara frá.