Inga Sigrún Atladóttir
Fyrr í vikunni var rætt um marga veikindadaga kennara í leik- og grunnskólum og bent á að stórar hópastærðir á öllum skólastigum á Íslandi yllu meira álagi á kennara og hefðu áhrif á líðan þeirra með auknum veikindum. Formaður kennarasambandsins benti á að mikilvægt væri að skoða allar breytur til að finna leiðir til að bæta úr aðstæðum.
Mikilvægasta breytan í þessu samhengi er líðan barna í skólanum. Líðan barna í skólum er nátengd álagi á kennara, kennarinn hefur minni tíma til að sinna hverju og einu barni, hefur ekki tækifæri til að mynda eins góð tengsl við hvert og eitt barn og annars væri hægt og getur ekki haft eins góða yfirsýn yfir tengsl í nemendahópnum og þróun andfélagslegrar hegðunar innan hans. Færa má rök fyrir því að álag á kennara sé meginástæða þess að börnum líður ekki vel í skólanum og stefna um skóla án aðgreiningar nær ekki fram að ganga á Íslandi.
Íslenskar rannsóknir á tengslum aukins álags á kennara og árangurs eða líðanar nemenda eru ekki margar en erlendar rannsóknir benda til þess að álag á kennara hafi víðtæk áhrif á skólastarfið og leiði m.a. til þess að þeir eru síður í stakk búnir til að mæta flóknum félagslegum vandamálum og persónulegum vandamálum nemenda sem þarfnast umhyggju og tíma. Álag á kennara veldur því að kennarar hafa ekki bolmagn til að veita öllum nemendum fullnægjandi kennslu og aðstoð við nám. Rannsóknir hafa sýnt að álag á kennara getur leitt til aukins eineltis í skólanum þar sem álagið dregur úr næmni kennara fyrir vísbendingum um einelti og minnkar getu þeirra til að bregðast við þeim. Þá hafa rannsóknir leitt í ljós að tengsl eru milli árangurs af vinnu gegn einelti í grunnskólum og andlegs ástands kennara. Kennarar eru í lykilhlutverki til að bregðast við flóknum félagslegum vanda og andfélagslegri hegðun og hafa rannsóknir sýnt að tíðni eineltis í skólum má ekki aðeins rekja til hegðunar og viðhorfa nemenda heldur einnig til viðhorfa kennara, til innra ástands kennarahópsins og þess hvernig skólastjórnendur taka á hegðunar- og agamálum.
Íslenskar rannsóknir á álagi á kennara í skólum hafa sýnt að afleiðingar aukins álags eru þær að margir kennarar upplifa meiri vanmátt og valdaleysi gagnvart starfi sínu og talsverður hluti kennara telur sig hafa misst tök á starfi sínu sem þeir höfðu áður. Íslenskar rannsóknir á einelti í grunnskólum hafa sýnt fram á að kennarar taka baráttu gegn einelti alvarlega en eiga það til að vanmeta tíðni þess og umfang.
Á síðustu árum hefur mikil vinna verið lögð í baráttu gegn einelti í skólum og mikil vitundarvakning orðið um áhrif eineltis á þroska barna. Samt sem áður bendir fátt til þess að einelti og andfélagsleg hegðun sé að minnka í hópum barna í íslenskum grunnskólum eða að börn upplifi sig öruggari en áður.
Skólakerfið okkar er í alvarlegum vanda, stór hluti þess vanda er kominn til vegna mikils álags á kennara. Álag á kennara veldur því að börnum er frekar mætt með tæknilegum lausnum en lifandi tengslum og kennarar hafa ekki tök á að vera raunverulegur hluti af menningu barna í skólanum. Þetta leiðir til þess að tengsl kennara og nemenda verða ekki fullnægjandi fyrir alla nemendur og eykur hættu á að einelti og andfélagsleg hegðun skjóti rótum og þróist í hópi barna í skólanum.
Stórir nemendahópar í íslenskum skólum eru vandamál í íslensku skólakerfi. Við því vandamáli þarf að bregðast og það ætti að vera krafa allra kennara og foreldra sem setja hagsmuni barna í fyrsta sætið.
Höfundur er fyrrverandi skólastjóri, kennari og höfundur bókarinnar Reynsluheimar og mögulegir heimar: Leiðir til að efla leiðtogafærni barna (2023).