Þórsteina Pálsdóttir fæddist 22. desember 1942. Hún lést 4. ágúst 2023. Útför hennar fór fram 18. ágúst 2023.

Elsku amma, það er erfitt að hugsa að við getum ekki hlaupið í faðmlagið þitt þegar við komum til Vestmannaeyja, en við munum samt alltaf eiga fallegu minningarnar sem þú gafst okkur.

Við systkinin vorum mikið hjá þér og afa yfir sumartímann. Það voru langbestu dagarnir þegar við fengum að sofa út í þægilegu rúmunum á Búhamri, við fengum okkur síðan morgunmat sem var oftast afa-brauð. Eftir það fórum við í sund þar sem maður var alltaf að sýna þér og afa hvernig maður nær að standa í trampólín-rennibrautinni. Eftir sund fórum við aftur á Búhamar og hjálpuðum þér að hengja á snúruna á meðan afi grillaði samlokur fyrir okkur, oftast var líka tekin kaka úr frystinum en okkur samt sagt að fara sparlega með rjómann því maður var yfirleitt með meiri rjóma en köku á disknum. Við fórum síðan út í garð með þér að hugsa um fallegu blómin þín og njóta sólarinnar, því þér leið alltaf best í sólinni. Þetta eru bestu og fallegustu dagarnir sem við höfum upplifað, þeir voru alltaf eins en alltaf jafn góðir.

Við munum sakna þess að hlaupa í fangið þitt þegar við komum til eyja, við munum sakna þess að heyra fallegu röddina þína og við munum sakna þess að finna góðu og hlýju lyktina af þér þegar við knúsum þig. Við munum sakna þess að heyra þig segja „ó, Þórður“ þegar hann afi missir enn eitt glasið inni í eldhúsi og við munum sakna þess að naglalakka þig á meðan þú spjallar við okkur. Við munum sakna þess að hjálpa þér að velja í hverju þú átt að fara þegar þú ert að fara eitthvert fínt, þar sem þú skiptir fjórum sinnum um föt en endar alltaf á að fara í það sem þú valdir fyrst. Seinustu dagar hafa verið erfiðir en við höfum fundið fyrir nærveru þinni, sérstaklega þegar við förum að sofa. Þá er eins og við séum aftur sjö ára og þú situr hjá okkur og ferð með faðirvorið, segir síðan „góða nótt“, kyssir okkur á ennið og segir „guð geymi þig“.

Ég man sérstaklega eftir einu kvöldi þegar ég gisti hjá þér og afa á Búhamri. Ég fékk martröð um að ég hefði misst þig og vaknaði hágrátandi um miðja nótt. Þú heyrðir í mér gráta og komst inn til mín. Þú tókst mig í fangið þitt og ég sagði þér frá draumi mínum. Þú varst þá með mig í fanginu þangað til ég sofnaði aftur og sagðir að þú myndir alltaf vera hjá mér. Sem ég veit að þú verður alltaf, elsku amma mín.

(Auður Krista)

Elsku amma mín, ég mun sakna þín mjög mikið. Mér fannst notalegt að hafa þig hjá mér í sumar í Reykjavík, við töluðum mikið saman og þú sagðir mér margar sögur og fyndna brandara. Ég gleymi því ekki að þú komst alltaf með nokkur Tíguls-blöð með þér til Reykjavíkur út af því að þú vissir að mér fannst svo gaman gera orðaleikinn og sudoku. Þú varst alltaf svo blíð og hlý, ég mun sakna þess að vera í kringum þig út af því að mér leið alltaf svo vel hjá þér. Ég elska þig, amma mín.

(Birna Björk)

Guð geymi þig, elsku amma.

Auður Krista og Birna Björk.

Elsku amma Steina.

Ég get ekki annað en verið þakklátur fyrir allt sem þú kenndir mér í gegnum tíðina. Fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa til baka er hvernig við náðum að tala um allt það sem lífið snérist um, hvort sem það var sorg eða gleði, þú áttir svör við öllu. Það sem ég geymi með mér eru allar minningarnar frá Búhamrinum með þér og afa þar sem kræsingar voru í boði frá morgni til kvölds og þið boðin og búin að gefa öllum alla athygli og eitthvað til að fylla magann. Bústaðarferðirnar sem við fórum í saman upp í Ásenda. Allar þjóðhátíðirnar þar sem við áttum saman, þú elskaðir þær. Það er kannski táknrænt að þú fórst í ferðalagið mikla til Baldvins Þórs og Kristbjargar á föstudeginum á þjóðhátíð því þú ætlaðir þér alltaf að fara á þjóðhátíðina í ár. Ég hvíslaði að þér stuttu áður en þú fórst að setningin væri búin og þjóðhátíðin byrjuð, þú ákvaðst að skella þér í í dalinn.

Ég get ekki annað en hugsað að lífið verði öðruvísi núna, að geta ekki farið í kaffibolla til þín, tala um að lífið haldi áfram sama hvað og lifa fyrir fjölskylduna, enda eins og ég sagði við þig „það er beðið eftir þér á báðum stöðum“ og núna ertu sameinuð Baldvini Þór og Kristbjörgu og getur verið með þeim.

Ég er miklu meira þakklátur en sorgmæddur á þessum tímum, þú kenndir mér það. Ég hélt reyndar að þú yrðir ekki mikið eldri þegar ég sýndi þér myndina af þér á útprentaða debetkortinu mínu þar sem ég lét prenta mynd af þér, svo mikið lít ég upp til þín. Ég ber nafn mitt með stolti og ég veit, þar sem við töluðum svo oft um það, hvað þér var létt þegar ég var skírður. Þú varst glöð yfir að geta notað nafnið mitt aftur í daglegu tali, mér þykir svo ofboðslega vænt um það. Þú ert og verður alltaf mín helsta fyrirmynd í lífinu.

Ég á eftir að tala um þig allt mitt líf og á eftir að kenna stelpunum mínum öll lífsins ráð sem þú kenndir mér. Við segjum sögur af ömmu Steinu, það eitt er víst.

Góða ferð, elsku amma, og takk fyrir allt. Ég elska þig.

Þinn,

Baldvin Þór.

Elsku hjartans amma mín, ég trúi því ekki enn að þú sért farin frá okkur.

Alltaf varstu svo glæsileg, þó þú værir bara á leiðinni út í búð að kaupa mjólk – ávallt varðstu að klæða þig upp á og setja á þig varalit áður en stigið var út úr húsi.

Ég er þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman, elsku amma mín.

Amma kveikti hjá mér áhuga á handavinnu þegar ég var frekar ung og var það alltaf draumur minn að verða svona klár handavinnukona eins og hún var. Amma gat reddað öllu sem þurfti, eins og þegar mér datt í hug viku fyrir þjóðhátíð að prjóna mér lopapeysu eða þegar við Skúli keyptum okkar fyrstu eign, þá mættuð þið afi í útilegu í innkeyrslunni hjá okkur og amma mætti með saumavélina og hjálpaði mér að stytta gardínur á meðan afi var úti að smíða.

Takk fyrir að taka alltaf á móti okkur trillunum á þriðjudögum í mat, leyfa okkur að klæða okkur og þig upp á. Alltaf varstu okkar stærsti aðdáandi þegar við vorum að leika leikrit, halda tónleika í stofunni eða breyttum eldhúsinu í veitingastað.

Takk fyrir allar útilegurnar og ferðalögin út um allt land með okkur systur. Það var best að fara með ykkur í útilegur, skrifa í ferðabókina og fá sykurlaust appelsín og prins póló.

Þetta eru ómetanlegar stundir sem ég geymi fallega í hjarta mínu.

Líf þitt hafði ekki alltaf verið auðvelt en þú, elsku amma mín, elskaðir að hafa fólk í kringum þig og allar stundirnar á Búhamrinum þar sem við komum öll saman í glens og alltaf var til nóg með kaffinu. Síðustu dagarnir voru virkilega erfiðir en dýrmætir og fallegir þar sem þú varst svo þakklát og stutt í húmorinn.

Mikið sem ég vil trúa að þið mamma séuð sameinaðar aftur eftir margra ára aðskilnað. Takk fyrir að passa svona vel upp á okkur systurnar, ég tek við hér.

Ég elska þig alltaf að eilífu,

Bertha María Arnarsdóttir.