[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur er með 5 stiga forskot á toppi Bestu deildar kvenna í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur gegn Tindastóli á Sauðárkróki, 3:0, í 17. umferð deildarinnar í gær. Breiðablik, sem hefur háð harða baráttu við Val um efsta sæti deildarinnar allt…

Besta deildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur er með 5 stiga forskot á toppi Bestu deildar kvenna í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur gegn Tindastóli á Sauðárkróki, 3:0, í 17. umferð deildarinnar í gær.

Breiðablik, sem hefur háð harða baráttu við Val um efsta sæti deildarinnar allt tímabilið, missteig sig á heimavelli þegar liðið tók á móti ÍBV á Kópavogsvelli en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Stjarnan er komin í þriðja sætið eftir sterkan sigur gegn nýliðum FH á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði þar sem Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri Stjörnunnar.

Keflavík vann afar þýðingarmikinn sigur gegn Þrótti úr Reykjavík í Keflavík, 1:0, en með sigrinum er liðið nú einungis einu stigi frá öruggu sæti.

Ófarir Selfoss halda svo áfram en liðið tapaði fyrir Þór/KA á Selfossi, 2:1, og er liðið nú 7 stigum frá öruggu sæti þegar einni umferð er ólokið í deildarkeppninni.