Lúxemborg 2023 Fjölskyldan fór í ferðalag á æskuslóðir Bergljótar í sumar og kynntist skemmtilegu lamadýri.
Lúxemborg 2023 Fjölskyldan fór í ferðalag á æskuslóðir Bergljótar í sumar og kynntist skemmtilegu lamadýri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergljót Inga Kvaran fæddist 21. ágúst 1983 í Lúxemborg. „Ég ólst upp í Móseldalnum, umkringd sveitasælu og vínekrum. Pabbi var flugstjóri hjá Cargolux og ég bjó í Lúxemborg þar til ég var nítján ára gömul, en ég lauk stúdentsprófinu…

Bergljót Inga Kvaran fæddist 21. ágúst 1983 í Lúxemborg. „Ég ólst upp í Móseldalnum, umkringd sveitasælu og vínekrum. Pabbi var flugstjóri hjá Cargolux og ég bjó í Lúxemborg þar til ég var nítján ára gömul, en ég lauk stúdentsprófinu þar.“ Bergljót segir að skólakerfið í Lúxemborg sé miklu strangara en á Íslandi og að sumu leyti ekki mjög uppbyggilegt. Þótt því fylgi ákveðnir kostir sé hún samt ekki hrifin af því kerfi og myndi til að mynda ekki vilja að börnin hennar gengju í þannig skóla. „Ég lærði samt að skipuleggja mig vel i skólanum og af því að Lúxemborg er svo fjölbreytt málsvæði tala ég núna fimm tungumál fyrir vikið, og ég get þakkað skólanum fyrir það,“ segir hún.

Ísland togaði þó fast þar sem fjölskyldan ferðaðist mikið um landið á sumrin. „Ég flutti heim eftir stúdentsprófið, en þá bjó önnur systir mín hérna á Íslandi en hin bjó í Hollandi og mamma bjó á báðum stöðum.“ Á þessum tíma var Bergljót búin að kynnast Steinþóri, eiginmanni sínum, en þau kynntust árið 2001. „Hann var þá í háskólanámi í Bretlandi og gat alveg hugsað sér að búa erlendis, en ég var alveg ákveðin í því að fara heim og það varð ofan á að við fluttum saman til Íslands.“

Bergljót hóf nám í sálfræði í
Háskóla Íslands í eitt ár, en fann sig ekki í náminu og fór í Kennaraháskólann og útskrifaðist þaðan með B.Ed. í kennslufræðum árið 2006. „Ég fékk starf sem kennari á unglingageðdeild BUGL og starfaði þar í þrjú ár. Á þeim árum fann ég hvað hjúkrunarfræðin heillaði mig mikið og árið 2009 skráði ég mig í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands. Með náminu og eftir útskrift vann ég á bráðamóttöku Landspítalans. Það var rosalega lærdómsríkt, mikil fjölbreytni og ég lærði mikið og hratt og fékk mikla reynslu.“ En vaktavinnan tók á og passaði ekki vel við fjölskyldulífið. „Eftir að börnunum fjölgaði var erfiðara að vera á þrískiptum vöktum. Ég sótti um starf á heilsugæslunni í Árbæ og þar uppgötvaði ég hvað heilsugæsluhjúkrunin var heillandi starf, bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Sérnám í heilsugæsluhjúkrun var því næsta skref.“

Árið 2018 fékk Bergljót starf á Heilsugæslunni Höfða og var með starfinu í námi í fjölskyldufræði. „Ég tók við fagstjórastöðunni þar 2019, rétt áður en Covid-19 skall á.“ Hún segir að álagið á faraldurstímanum hafi verið mikið og þá hafi virkilega reynt á að vera lausnamiðuð og mjög sveigjanleg. „Það þurfti að auka mönnun mikið og ég held að ég hafi verið í 140 prósenta vinnu þarna um margra mánaða skeið.“ Í fyrra fór Bergljót á námskeið hjá SES, Samvinna eftir skilnað. „Ég hef náð að tvinna það vel saman við heilsugæsluhjúkrunina og fjölskylduviðtöl. Vinna með fjölskyldum hefur ávallt heillað mig og hef ég fengið mörg tækifæri til að sinna því í vinnu minni á Heilsugæslunni Höfða.“

Áhugamál Bergljótar eru flest tengd útivist og hreyfingu. „Ég er í líkamsrækt sem heitir Metabolic mörgum sinnum í viku, á Stórhöfða, en það er svona stöðvaþjálfun. Í tengslum við hópinn sem ég kynntist þar byrjaði ég í fjallgöngum og utanvegahlaupum og svo fer ég talsvert á skíði. Á Covid-tímabilinu byrjaði ég að hjóla og við hjónin hjólum mikið saman á fjallahjólum og ferðumst heilmikið innanlands með fjölskylduna. Náttúran á Íslandi hefur mikið aðdráttarafl.“

Fjölskylda

Eiginmaður Bergljótar er Steinþór Carl Karlsson, ljósmyndari og sölumaður hjá Merkingu, f. 19.1. 1976, og þau eru búsett í Árbænum. Foreldrar hans eru Steinunn Steinþórsdóttir, f. 13.7. 1952, og Karl Rósinbergsson sjómaður, f. 16.4. 1952, d. 29.3. 2004.

Börn Bergljótar og Steinþórs eru 1) Hrafnhildur Lóa Kvaran, f. 22.11. 2007; 2) Lilja Steinunn Kvaran, f. 6.5. 2012; og 3) Ragnar Flóki Kvaran, f. 10.7. 2017.

Systur Bergljótar eru Tinna Kvaran, f. 7.4. 1976, og Hrafnhildur Kvaran, f. 16.12. 1978.

Foreldrar Bergljótar eru Ólöf Björg Björnsdóttir, f. 23.9. 1948, heimavinnandi húmóðir, bjó lengst af í Lúxemborg en býr nú á Íslandi, og Ragnar Kvaran flugstjóri, f. 14.8. 1947, d. 8.2. 2009.