Aðalbjörg Hafsteinsdóttir fæddist 11. janúar 1959 í Syðri-Gróf í Villingaholtshreppi. Hún lést 8. ágúst 2023 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.

Foreldrar hennar voru Ragnhildur Ingvarsdóttir, f. 1929, d. 2006, og Hafsteinn Þorvaldsson, f. 1931, d. 2015. Systkini Aðalbjargar: Þorvaldur Guðmundsson, f. 1950, Ragnheiður Inga Hafsteinsdóttir, f. 1952, Þráinn Hafsteinsson, f. 1957, og Vésteinn Hafsteinsson, f. 1960.

Eftirlifandi eiginmaður Aðalbjargar er Ólafur Óskar Óskarsson, f. 1958, þau gengu í hjónaband 28. ágúst 1982. Foreldrar Ólafs voru Kristín Ásta Ólafsdóttir, f. 1922, d. 2006, og Óskar Pálmarsson, f. 1921, d. 1989. Dóttir Aðalbjargar og Ólafs er Þóra, f. 1984.

Aðalbjörg ólst upp á Selfossi og bjó þar til 1992 en sótti í millitíðinni framhaldsnám til Reykjavíkur.

Á Selfossi starfaði hún við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fyrst í eldhúsi með framhaldsnámi í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Tækniskólanum en síðan sem lífeindafræðingur á rannsóknarstofu stofnunarinnar til ársins 1992. Árið 1992 flutti Aðalbjörg með fjölskylduna til Akureyrar í Aðalstræti 16, sem þau gerðu upp af natni. Á Akureyri hóf hún starf sem lífeindafræðingur á Fjórðungssjúkrahúsinu og fljótlega bætti hún við sig kennslu hóptíma í heilsurækt við Sjálfsbjörg á Akureyri. Fyrstu sumrin á Akureyri stjórnuðu þau hjónin hlaupa- og hjólahópum og stofnuðu svo fyrirtækið Bjarg líkamsrækt árið 2000, ásamt öðrum hjónum. Árið 2003 hætti Aðalbjörg störfum hjá Fjórðungssjúkrahúsinu og starfaði eingöngu við Bjarg til ársins 2016 þegar þau Ólafur fluttu til Reykjavíkur. Í Reykjavík starfaði Aðalbjörg sem jógakennari við World Class og Hjartastöðina. Aðalbjörg byrjaði ung að stunda ýmsar íþróttir en einbeitti sér að frjálsíþróttum frá unglingsaldri og keppti þá í millivegalengdum og langhlaupum fyrir Ungmennafélag Selfoss og Héraðssambandið
Skarphéðin auk þess að keppa fyrir íslenska landsliðið í frjálsíþróttum. Hún sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir Ungmennafélag Selfoss og skrifaði meðal annars íþróttafréttir fyrir héraðsblaðið Þjóðólf. Síðustu ár sinnti Aðalbjörg félagsstörfum fyrir Frjálsíþróttasamband Íslands og sat ýmist í stjórn eða varastjórn, nú síðast sem varaformaður.

Útför er frá Grafarvogskirkju í dag, 21. ágúst 2023, klukkan 15.

Ég vil minnast Aðalbjargar í nokkrum orðum, þar sem við áttum samleið í leik og starfi meira og minna þann tíma sem hún og Ólafur Óskarsson, maður hennar, bjuggu á Akureyri.

Fyrstu kynni okkar voru þegar þau voru þjálfarar við líkamsræktarstöð á Akureyri en seinna byggðu þau sína eigin stöð, Líkamsræktarstöðina Bjarg, ásamt öðrum hjónum, sem þau ráku í fjöldamörg ár. Þar var boðið upp á almenna líkamsrækt, ýmis námskeið, leiðbeiningar um fæðuval, ýmiss konar mælingar og eftirfylgni. Alltaf var fólk með góða þekkingu að störfum á stöðinni og sýndi það fagmennsku þeirra og metnað. Ég tók eftir hvernig Aðalbjörg kom fram í sínu starfi með hvatningu og jákvæðni til þeirra sem sóttu þjónustu og leiðsögn. Það smitaðist til þeirra sem æfðu á Bjargi.

Aðalbjörg var fædd inn í Ungmennafélagshreyfinguna en faðir hennar, Hafsteinn Þorvaldsson, var formaður Ungmennafélags Íslands í mörg ár. Ég átti þess kost að vinna með henni að undirbúningi 26. Landsmóts UMFÍ á Akureyri. Þar var hún á heimavelli, þekkti marga innviði hreyfingarinnar, hafði metnað og kom með ótal hugmyndir, ráð og sjónarmið í tengslum við framkvæmd mótsins. Alltaf var unnið að lausnum með jákvæðum hætti. Hún kom einnig að framkvæmd fjölda íþróttaviðburða sem fóru fram hér norðanlands og víðar. Iðulega stóð Líkamsræktarstöðin Bjarg opin þeim keppendum sem voru hér á mótum einkum í tengslum við keppni í hlaupum og öðrum frjálsum íþróttum.

Ég tel að framlag Aðalbjargar til eflingar lýðheilsu og vilji hennar til að auka lífsgæði fólks á Akureyri og nágrenni sé ómetanlegt, hvort heldur er horft til fræðslu eða aukinnar hreyfingar. Fyrir þetta framlag ber að þakka og vil ég ítreka það hér.

Hún hélt áfram að vinna að eflingu lýðheilsu eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur með leiðsögn í líkamsræktarstöðvum og til viðbótar tók hún sæti í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands og sat þar til æviloka. Aðalbjörg naut virðingar vegna þekkingar sinnar og áhuga sem hún sýndi í störfum sínum en ekki síst vegna þeirrar jákvæðni sem hún gaf af sér. Þá var eftirtektarvert að sjá hvernig hún kom fram í sínu sjúkdómsferli með æðruleysi og jákvæðni að vopni. Það er mikil eftirsjá af fólki eins og Aðalbjörgu og við þurfum fleiri einstaklinga í okkar samfélag sem hafa slíka útgeislun.

Ég votta eiginmanni hennar og dóttur innilegustu samúð sem og öllum aðstandendum.

Haukur F. Valtýsson, fyrrverandi formaður UMFÍ.

Við munum vel fyrstu kynni okkar af Öbbu (Aðalbjörgu), það var fyrir 44 árum þegar við settumst saman á skólabekk í lífeindafræði. Hún kom sterk inn í líf okkar, geislandi af hreysti og hollustu. Strax náðum við allar vel saman þó við værum ólíkar og grunnurinn var lagður að órjúfanlegri og ævilangri vináttu.

Þó að Abba og Óli flyttu norður þá hafði það alls engin áhrif á vináttu okkar, við vorum duglegar að heimsækja þau með og án maka og þau okkur. Margar dýrmætar og góðar endurminningar tengjast þessum ferðum. Abba kom okkur sífellt á óvart með alls konar uppákomum, hún fékk okkur og viðhengin til að gera ótrúlegustu hluti sem engum hefði dottið í hug nema henni, alltaf með einhver tromp á hendi hvort sem var dans eða búningar.

Ógleymanleg er 50 ára afmælisveislan hennar þar sem við gistum á Bjargi og klæddumst glimmeri og gerviaugnhárum. Hátíðarhöldin við stækkun Bjargs voru líka mögnuð og eftiminnileg.

Það var gaman að fylgjast með hvað Abba og Óli blómstruðu á Bjargi, fóru stundum ekki hefðbundnar leiðir og okkur finnst að þar hafi þau látið hugmyndir sínar verða að veruleika með alls konar nýjungum, framtakssemi og dugnaði.

Seinni árin má segja að jóga hafi náð yfirhöndinni hjá Öbbu og hún kenndi og nýtti sér jóga fram á síðasta dag.

Eftir að Abba flutti til Reykjavíkur urðu samverustundirnar okkar með henni miklu þéttari og vináttuböndin styrktust enn frekar.

Við minnumst ógleymanlegra utanlandsferða bæði gönguferða og borgarferða. Í gönguferðum okkar kom í ljós hversu frábær íþróttakona hún var og bjó hún að þeim grunni að hafa verið í frjálsum íþróttum frá barnsaldri, brann hún alla tíð fyrir framgangi þeirra af miklum eldmóði. Þegar Abba byrjaði að kenna í Reykjavík kynntumst við því enn frekar hvað hún var frábær líkamsræktar- og jógakennari. Við vorum ekki bara í leikfimi heldur líka pubquiss þar sem spilunarlistar hennar voru ótrúlega skemmtilegir og vitum að Óli og Þóra áttu sinn þátt í þeim.

Abba var mjög listræn og skapandi og það lék allt í höndunum á henni. Hún saumaði á sig frá unga aldri og töfraði líka fram ótrúlegustu listaverk þar sem hún endurnýtti hluti sem engum hefði dottið í hug að nýta. Allar eigum við einhver verk sem hún hefur skapað.

Abba var einstök vinkona, hún fræddi okkur um slökun, heilsufæði, matreiðslu, umhverfismál og jákvæða strauma og þreyttist ekki á að hrósa og hvetja okkur áfram. Hún hafði sterkar skoðanir og var alltaf samkvæm sjálfri sér, klár, litrík, æðrulaus, jákvæð og minnti okkur á að njóta lífisins fram á síðasta dag.

Elsku vinkona, söknuðurinn er mikill, takk fyrir allt.

Elsku Óli og Þóra, sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur,

Ebba, Emilía, Guðbjörg, Hjördís, Jóna, Sigrún J., Sigrún K., Þorbjörg.

Öguð, skipulögð, falleg, listræn, heilbrigð, hraust. Þannig minnist ég Aðalbjargar Hafsteinsdóttur. Við krakkarnir að austan, sem vorum í frjálsum íþróttum og fórum í bæinn í nám eftir gagnfræðaskóla, æfðum saman við Laugardalsvöllinn. Við Aðalbjörg urðum æfingafélagar og hittumst hvern virkan dag vikunnar. Hún lét ekki mikið fyrir sér fara, en var yfirveguð og stundaði æfingarnar af kostgæfni. Hún, bræður hennar Þráinn og Vésteinn, ásamt Óskari Reykdal, leigðu saman á Bugðulæknum og þangað var gaman að koma. Aðalbjörg tók að sér heimilisstjórnina og sá öllum fyrir nægri og hollri nærandi fæðu. Heimilið var smekklegt og listrænt og handbragð Aðalbjargar sást hvarvetna. Hún saumaði sér föt, breytti og skreytti. Hnýtti blómahengi og útbjó skilrúm af ótrúlegri hugvitssemi og smekkvísi. Það lék allt í höndum hennar. Það var ótrúlega gaman að sjá listaverkin hennar á 60 ára afmælinu fyrir stuttu, en þar hafði hún stillt upp handavinnunni sinni.

Aðalbjörg var ötull starfsmaður FRÍ og starfaði m.a. á mótum á þess vegum. Alltaf var hún mætt, hógvær, lausnamiðuð og bóngóð. Það var frábært að vinna með henni og núna eru þessar stundir dýrmætar í minningunni. Föstudagskaffið var falleg hefð sem Aðalbjörg skapaði nú í seinni tíð. Hún var gestrisin, gjafmild og trygg vinum sínum og fjölskyldu. Ég er svo glöð að hafa farið til hennar og notið dýrmætra stunda með henni og fjölskyldunni.

Elsku Aðalbjörg, þú varst hugrökk og skapandi alla tíð. Ég þakka einlæga samveru og allar góðu stundirnar okkar saman fyrr og síðar. Fjölskyldu, systkinum og öðrum aðstandendum votta ég mína einlægustu samúð.

Áslaug Ívarsdóttir.

Dáðrík gæðakona í dagsins stóru
önnum,

dýrust var þín gleði í fórn og
móðurást.

Þú varst ein af ættjarðar
óskadætrum sönnum,

er aldrei köllun sinni í lífi og starfi
brást.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hún var fædd á Selfossi og ólst þar upp innan um íþróttirnar. Sjálfsagt hafði það áhrif á hana að eiga föður sem snemma varð forystumaður í íþróttahreyfingunni og hvatti til íþróttaiðkunar og heilbrigðs lífernis í anda ungmennafélagshreyfingarinnar, þar sem hann var lengi forystumaður. Þegar saga Ungmennafélags Selfoss er skoðuð má á mörgum stöðum rekast á þau nefnd á nafn, systkinin Aðalbjörgu, Véstein og Þráin, enda urðu þau fljótt öflugt íþróttafólk og seinna meir þá helst í frjálsum íþróttum. En ekki síður tóku þau þátt í félagsmálum íþróttahreyfingarinnar og m.a. voru þau öll systkinin í stjórn Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss árið 1976. Aðalbjörg var hvers manns hugljúfi og alltaf hvetjandi og drífandi. Það var gaman að vera í kringum hana og auðvelt að hrífast með. Því fékk ég sjálfur að kynnast þegar við héldum sl. sumar á Selfossi Selfoss Classic, mót þar sem m.a. Vésteinn bróðir hennar kom með kringlukastarana „sína“ til keppni á afmælismóti Frjálsíþróttasambands Íslands á Selfossvelli. Ég sat með henni í undirbúningsnefnd mótsins, hún þá varaformaður FRÍ og hafði mikinn metnað til að allt tækist vel og ekki síst þar sem keppnin fór fram í hennar gamla heimabæ. Alltaf brosandi, alltaf hvetjandi, alltaf jákvæð, þannig var hún allt til hinstu stundar. Um leið og ég færi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur, færi ég þeim einnig samúðarkveðjur frá hennar gamla félagi og þeim sem þar starfa. Takk Aðalbjörg, fyrir allt sem þú gafst af þér.

F.h. Ungmennafélags Selfoss,

Helgi Sigurður
Haraldsson formaður.