Umræða um útlendingamál er iðulega öfugsnúin

Furðuleg umræða hefur að undanförnu orðið um málefni þeirra hælisleitenda sem hér dvelja án heimildar, þ.e. eftir að þeir hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd. Nokkrir tugir hafa nýlega fengið þessa stöðu hér og hafa þá lögum samkvæmt þrjátíu daga til að yfirgefa landið. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið, heldur afar skýrt og afdráttarlaust. Fólkið hefur ekki leyfi til að dvelja hér og því ber af þeim sökum að yfirgefa landið. Ríkið aðstoðar það við brottförina og fram að henni, sýni það brottfararvilja, en sýni það ekki brottfararvilja virðist málið fara í mikla flækju.

Umræðan hér hefur að miklu leyti snúist um það hvað eigi að gera ef fólk neitar að fara, líkt og það sé val að fara ekki að lögum. Geta Íslendingar búist við slíkum þægindum á ferðum sínum erlendis, ákveði þeir að dvelja þar lengur en þeim er heimilt? Nei, vitaskuld ekki. Komi sú staða upp er gripið til ráðstafana og þær eru ekki endilega þægilegar. Þarf ekki annað en líta til Bandaríkjanna í þessu sambandi þar sem fólki er snúið við samstundis og af mikilli festu séu pappírar taldir í ólagi. Þar fer engin umræða fram um það hvort sveitarfélögin eða ríkið skuli halda viðkomandi uppi neiti hann að fara.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að þessi niðurstaða, að synja um dvöl, á sér langan aðdraganda og þarf þess vegna ekki að koma þeim á óvart sem fyrir verða. Þvert á móti ættu þeir að vera búnir að búa sig undir slíka niðurstöðu, en ef til vill meðal annars vegna þeirra lausataka sem hér hafa verið, trúa þeir því þrátt fyrir allt að þeir geti komist upp með að hunsa niðurstöður í málum sínum. Þá má ekki gleyma því að ýmsir þeirra kunna að ætla sér að vera hér, hvað sem yfirvöldum kann að finnast um það.

Þetta kann að stafa af því að hluta til að hér á landi taka yfirvöld sér allt of langan tíma í að afgreiða þessi mál og við það má segja að málin verði viðkvæmari. Útlendingarnir hafa sumir komið sér fyrir og eru jafnvel með fjölskyldur hér. Slík mál hafa iðulega verið gerð að fjölmiðlaefni og eru eðli máls samkvæmt óþægileg. Ekki síst þess vegna er nauðsynlegt að afgreiða öll mál hratt.

Þeir sem fá leyfi til að vera hér þurfa að vita það sem fyrst til að þeir geti komið sér fyrir, hafið störf og samlagast þjóðfélaginu, til að mynda með því að læra tungumálið. Sá hópur getur vitaskuld ekki verið nema brot af þeim þúsundum sem hingað hafa streymt árlega að undanförnu og hér hafa dvalið.

Hinir, sem þurfa að yfirgefa landið, þurfa að gera það eins hratt og unnt er. Mál þeirra þarf að afgreiða hiklaust og úrskurðum og lögum verður að framfylgja án ástæðulausrar tafar. Rétt eins og öðrum lagafyrirmælum.