Steinn Jónsson
Steinn Jónsson
Ákæran snýst um það hvort líða eigi vopnaða valdaránstilraun í BNA og hvort allir, þar með talið forsetinn, séu jafnir fyrir lögunum.

Steinn Jónsson

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum (BNA) 2016 voru að mörgu leyti óvenjulegar. Á flokksþingi sínu völdu repúblikanar Donald Trump sem frambjóðanda. Repúblikanaflokkurinn var stofnaður 1854 til að sameina andstæðinga þrælahalds og fyrsti forseti þeirra var Abraham Lincoln. Meðal annarra merkra forseta repúblikana má nefna Theodore Roosevelt, brautryðjanda í umhverfisvernd sem stofnaði þjóðgarðana, og Ronald Reagan sem átti drjúgan þátt í falli kommúnismans og frelsun Austur-Evrópu. Donald Trump var óskrifað blað í stjórnmálum en mörgum fannst rétt að fá mann sem ekki væri tengdur valdakerfinu í Washington. Lagfæra þyrfti ríkisreksturinn, stöðva skuldasöfnun og auka veg BNA á alþjóðavettvangi. Fyrrverandi utanríkisráðherra, Hillary Clinton, var forsetaefni demókrata, en utanríkisstefnan hafði verið harðlega gagnrýnd. Svo fór að Trump vann kosningarnar og munaði mest um miðjufylgi og óflokksbundna. Það vakti nokkra furðu að hann hlaut talsvert fylgi meðal kvenna þrátt fyrir að hafa lítilsvirt konur.

Eftir að Trump tók við í Hvíta húsinu boðaði hann skattalækkanir á efnafólk og fyrirtæki og aukin útgjöld til varnarmála. Fljótt varð ljóst að hann stóð með stórfyrirtækjum, olíufélögum, tryggingafélögum, lyfjafyrirtækjum og hergagnaframleiðendum. Áherslur hans í utanríkismálum komu flatt upp á marga. Hann gerði sér dælt við Vladimír Pútín og Kim Jung Il og gekk svo langt að heimsækja Kóreuskaga til að vingast við einræðisherrann sem kúgar þjóð sína. Á sama tíma reyndi hann að draga úr varnarmætti NATO og tengslum við bandalagsþjóðir í Evrópu. Hann hafði mikið lag á fjölmiðlum og tókst að láta umræðuna snúast um sig.

Í BNA er þrískipting valdsins sterk og sjaldan fer saman að forsetinn og ríkisstjórnin hafi meirihluta í báðum deildum þingsins. Þetta kalla Bandaríkjamenn „vísdóm kjósenda“ en víst er að forfeðurnir komu því þannig fyrir að valddreifing er mikil og lýðræðið sterkt. Þá eru dómstólar mjög mikilvægir við að takmarka vald forsetans og þingsins og óvíða eru fjölmiðlar áhrifameiri. Þrátt fyrir ýmsar vísbendingar um að forsetinn væri lyginn og ófyrirleitinn stefndi allt í það að hann yrði endurkjörinn með yfirburðum.

Um áramótin 2019-20 kom alvarlegt babb í bátinn, Covid-faraldurinn. Á næsta ári varð þetta mál ráðandi í þjóðfélagsumræðunni víða í heiminum, ekki síst í BNA. Þó svo að erfitt sé að taka allar réttar ákvarðanir á réttu augnabliki við þessar aðstæður láta skynsamir menn viðbrögð við svona krísum í hendur sérfróðra. Donald Trump var ekki á þeim buxunum. Hann gerði alvarleg mistök þegar hann fór sjálfur að stýra daglegum blaðamannafundum frá Hvíta húsinu um viðbrögð við faraldrinum. Þessum fundum var sjónvarpað beint og því gátu allir séð og heyrt hvað fram fór. Þó svo að fremstu sérfræðingar í smitsjúkdómum og faraldsfræði væru í ráðgjafaliði forsetans dugði það lítið og ljóst varð hvers konar flautaþyrill var þarna á ferðinni. Árið 2020 var kosningaár og fylgi forsetans hrundi.

Þegar nálgaðist kosningar var ljóst að þær gætu orðið mjög tvísýnar. Donald Trump fór þá að sá efasemdum um kosningakerfið og láta að því liggja að hægt væri að falsa niðurstöður og þannig „stela kosningunum“. Hann hegðaði sér eins og einræðisherra og ætlaði að halda völdum hvernig sem kosningarnar færu. Strax á kjördegi var líklegt að hann hefði tapað fyrir Joe Biden demókrata. Úrslit í lykilríkjunum Pennsylvaníu, Michigan, Georgíu og Arizona, sem hann hafði reitt sig á, féllu öll með Biden. Trump lýsti þó yfir sigri á fundi með stuðningsmönnum og neitaði að viðurkenna ósigur eins og hefð er fyrir í BNA. Útsendarar Trumps kærðu niðurstöður í mörgum ríkjum en öllum kærum varðandi kosningasvik var vísað frá af kosningastjórnum og dómstólum. Repúblikanar voru víða í lykilstöðum við að staðfesta kosningaúrslitin. Engin rök eru fyrir því að úrslitin hafi ekki verið rétt. Frægt er símtal Trumps til kosningastjóra í Georgíu þar sem hann biður hann að finna um 12.000 atkvæði til að gera sér kleift að vinna. Kosningastjórinn stóðst álagið.

Þegar þetta gekk ekki tók við samsæri um að halda völdum með því að þvinga fram ranga niðurstöðu við afgreiðslu málsins í þinginu. Fráfarandi varaforseti BNA lýsir samkvæmt hefð úrslitum kosninganna með því að staðfesta gilda kjörmenn á þingfundi en þetta er nefnt „friðsamleg valdaskipti“. Hinn 6. janúar 2021 hafði safnast saman í Washington æstur, vopnaður múgur stuðningsmanna Trumps sem réðust að áeggjan hans á þinghúsið í þeim tilgangi að torvelda þessa athöfn. Í árásinni fórust fimm lögreglumenn við að verja þinghúsið og múgurinn æpti „hengið Mike Pence“. Nú hefur verið gefin út ákæra á hendur Donald Trump og helstu samstarfsmönnum hans. Ákæran snýst um það hvort líða eigi vopnaða valdaránstilraun í BNA og hvort allir, þar með talið forsetinn, séu jafnir fyrir lögunum. Aðalvitni í málinu verður líklega Mike Pence. Nú vill Donald Trump að þetta snúist um málfrelsið. Þeir sem unna vestrænu lýðræði og BNA hljóta að sjá mikilvægi þess að niðurstaða fáist fyrir dómstólum varðandi þetta mál.

Höfundur er prófessor emeritus í lyflækningum og lungnasjúkdómun og áhugamaður um sögu Bandaríkjanna.