30 ára Soffía Ósk fæddist á Neskaupstað og ólst upp á Eskifirði og gekk í grunnskóla Eskifjarðar. „Síðan flutti ég með pabba til London og bjó þar í tíu ár frá því ég var 13 ára til 23 ára sem var ótrúlega gaman en allt öðruvísi en á Íslandi

30 ára Soffía Ósk fæddist á Neskaupstað og ólst upp á Eskifirði og gekk í grunnskóla Eskifjarðar. „Síðan flutti ég með pabba til London og bjó þar í tíu ár frá því ég var 13 ára til 23 ára sem var ótrúlega gaman en allt öðruvísi en á Íslandi. Ég var í stelpuskóla og það voru mikil viðbrigði að vera í skólabúning og ávarpa kennarana frú og herra.“

Soffía útskrifaðist sem mannfræðingur frá University of Kent og hluta af náminu var hún m.a. í Tokyo. „Ég hef samt búið um tíma víða, bæði í Grikklandi, Litháen, Níkaragva og í Víetnam. Ég vildi fara að hjálpa flóttafólki í Grikklandi og fór að kenna ensku. Það endaði með að ég fór til Litháen og fékk kennsluréttindi til að kenna ensku sem annað tungumál. Þá fór ég til Víetnam til að kenna ensku og fór svo líka til Níkaragva. En þegar borgarastyrjöld hófst í landinu þurfti ég að flýja land og þá ákvað ég að koma heim.“

Soffía er tónlistarkona og þegar hún kom heim 2018 fór hún að læra hljóðtækni í Tækniskólanum og Stúdíó Sýrlandi. „Mig langaði að geta búið til mína eigin plötu,“ segir hún, en hún er með tónlist sína á Spotify. Hún komst þó fljótlega að því að viðskiptahlutinn átti miklu betur við hana en hljóðtæknin og fór því í MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík. „Ég pluma mig vel þar,“ segir hún en hún var í hópi úr skólanum sem tók þátt í keppni í samningatækni á Ítalíu og uppskar bronsverðlaun.

„Helstu áhugamálin eru tónlist og svo spila ég líka Dreka og dýflissur og er mikið fyrir borðspil. Ég er mikil félagsvera og hef skipulagt viðburði, líka fyrir góðgerðarmál, og ég skipulagði tónleikana vegna eldanna í Ástralíu og hef barist fyrir réttindum flóttafólks.“

Soffía er stödd í Prag í Tékklandi á afmælinu með kærastanum sínum, Dan Theman Docherty, f. 1997. Hann er grafískur hönnuður frá Skotlandi, búsettur á Íslandi og vinnur sem smiður. Með þeim eru þrjár vinkonur hennar.