Kristján Árni Ingólfsson fæddist 12. desember 1941 á Akranesi. Hann lést 4. ágúst 2023 á líknardeild Landspítalans Landakoti.

Foreldrar hans voru hjónin Ingólfur Sigurðsson vélstjóri, f. 23. maí 1913 í Móum á Skagaströnd, d. 28. september 1979, og Soffía Jónfríður Guðmundsdóttir, f. 3. júní 1916 á Þingeyri, d. 25. janúar 2004. Systkini Kristjáns eru: 1) Helgi Guðmundur, f. 22. september 1935, d. 18. mars 1999, 2) Magnús Davíð, f. 11. janúar 1937, d. 23. september 2019, 3) Erla Svanhildur, f. 4. apríl 1938, d. 15. júlí 2017, 4) Steinunn Sigríður, f. 29. desember 1944, 5) Sigurður Björn, f. 8. febrúar 1950, d. 1. október 2005, 6) Guðbjört Guðjóna, f. 13. ágúst 1953.

Kristján kvæntist 2. nóvember 1963 Kristjönu Þorkelsdóttur, f. 12.11. 1942, á Akranesi. Foreldrar hennar voru Þorkell Halldórsson skipstjóri og útgerðarmaður, f. 21. ágúst 1897 á Þyrli á Hvalfjarðarströnd, d. 28. ágúst 1987, og Guðrún Einarsdóttir, f. 17. október 1906 á Akranesi, d. 26. október 1985.

Kristján og Kristjana eignuðust þrjár dætur: 1)
Ingibjörg Halldóra, f. 7. október 1961, sambýlismaður Jens Sigþór Sigurðsson, f. 14. febrúar 1953, dætur Ingibjargar frá fyrra sambandi við Kristján Einarsson, f. 31. maí 1955, d. 12. nóvember 2014, eru a) Guðrún Inga, f. 29. september 1986, dóttir hennar Halldóra Sóley Knútsdóttir, f. 10. janúar 2013, b) Kristjana Oddný, f. 8. október 1988, c) Margrét Sóley, f. 25. september 1996, sambýlismaður Snæbjörn Þorgeirsson, f. 21. desember 1994, börn þeirra, Lilja Rós, f. 23. febrúar 2016 og Marías Þór, f. 15. ágúst 2018, d) Inga Dóra, f. 12. október 1998,
sambýlismaður Fannar Steinn Ellertsson, f. 6. desember 1997, 2) Guðrún, f. 11. maí 1965, maki Guðni Eðvarðsson, f. 22. október 1962. Synir þeirra eru Örn Ingi, f. 24. maí 1990 og Haukur, f. 6. maí 1994, 3) Soffía Helga Kristjánsdóttir, f. 29. nóvember 1966, sambýlismaður Gretar Jóhannesson, f. 2. maí 1964. Synir þeirra eru a) Kristján Arnór, f. 5. nóvember 1982, sambýliskona Pia Sparvath Jørgensen, f. 7. desember 1981, synir þeirra eru Jakob Sparvath, f. 21. júlí 2010 og Johan Sparvath, f. 17. febrúar 2014. b) Heiðar, f. 6. apríl 1991, sambýliskona
Margrét Sif Magnúsdóttir, f. 21. júlí 1993, börn þeirra Magnús Leó, f. 1. nóvember 2020, og dóttir, f. 17. ágúst 2023, fyrir átti Heiðar með Þórhildi Ósk Stefánsdóttur, f. 8. desember 1992, Ísabellu Ósk, f. 26. ágúst 2015. c) Sindri Jón, f. 14. mars 1995, sambýliskona Gréta Ósk Björnsdóttir, f. 29. febrúar 1996.

Kristján fæddist á Akranesi og bjó þar til 1988 þegar hann og eiginkona hans fluttust til Reykjavíkur. Hann lauk námi í bifvélavirkjun 1969 frá Iðnskólanum á Akranesi og starfaði sjálfstætt við þá iðn í nokkur ár. Árin 1980-1982 stundaði hann nám í vélvirkjun hjá Sementsverksmiðju ríkisins. Hann lauk vélstjóranámi frá Fjölbrautaskóla Akraness 1982. Hann vann við sölustörf árin 1986-1989 er hann hóf störf hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga þar sem starfaði allt fram að stafslokum.

Kristján var einn af stofnendum Lúðrasveitar Akraness 1960, spilaði með henni í 27 ár og var formaður 1984-1987. Eftir að hann fluttist til Reykjavíkur fór hann að spila með Lúðrasveit Reykjavíkur og gerði það í 3 ár og varð þar einnig formaður í eitt ár. Hann var félagi í Rotary-klúbbi Akraness. Árið 1986 gerðist hann félagi í Oddfellow-stúkunni Agli nr. 8 á Akranesi en flutti sig svo yfir í Oddfellow-stúkuna Ingólf nr. 1 1988 eftir að hann flutti til Reykjavíkur. Hann tók þátt í því að stofna stúku nr. 23 Gissur hvíta og starfaði í henni til loka og sinnti ýmsum embættisstörfum.

Útför hans fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 21. ágúst 2023, klukkan 13.

Fagur og sólbjartur sumardagur, við stöndum við sjúkrasæng, þau systkin finnast og kveðjast „ég kem aftur“, eru kveðjuorðin. Fáeinum dögum síðar er hann allur. Danni bróðir minn hefur lokið lífsgöngu sinni og kvatt þetta jarðlíf. Þó síðasta heimsóknin á sjúkrahúsið bæri berlega með sér hvert stefndi, kom hið endanlega illa við. Myndir og og minningaleiftur löngu liðins tíma bernskunnar leita á, koma og fara sveipaðar blámóðu þoku ellinnar. Tiltektasamur, nostursamur, glaður og hláturmildur, góður bróðir og vinur. Alþýðuheimili þess tíma þurftu á öllum höndum að halda til bjargræðis, að hjálpa til og verða að liði strax og aldur og kraftar leyfðu. Bernsku- og unglingsárin á Suðurvöllum liðu því hratt og brátt tók við alvara lífsins og við smám saman sjálfs okkur ráðandi, eignuðumst lífsförunauta og við tók lífsbaráttan. Danni og Kristjana fundust, stofnuðu heimili og eignuðust yndislega fjölskyldu. Danni fór ungur að vinna fyrir sér og sinnti um ævina marvíslegum störfum og í öllu einkenndust verk hans og störf af alúð og vandvirkni enda lék allt í höndum hans. Þannig var og um áhugamálin utan vinnu. Hann tók virkan þátt í margs konar félagsstarfi, var virkur í starfi Oddfellow-reglunnar og gegndi þar trúnaðarstörfum.

Við vikum svo í aðra vist og dvöldumst erlendis í nokkur ár, í kjölfar þess hófst nýr kafli í samvistum okkar systkina. Samgangur minni eins og verða vill. Helst var hist við fjölskyldusamkomur eða þegar eitthvað á bjátaði. Margs er þó að minnast frá þeim árum þó tækifærin væru fá til að hittast og gleðjast saman. Eftir að við settumst að á Hvanneyrri gáfust fleiri stundir til samvista og tengslin urðu nánari og fjölskylduböndin styrktust eftir því sem árin liðu. Þegar við sveitafólkð heimsóttum höfuðstaðinn var ekki úr vegi að koma við hjá þeim Danna og Kristjönu, annað hvort í vinnuna eða í „Norðurásinn“ og stinga úr einum kaffibolla eða svo og taka smá spjall. Sama var uppi á teningnum eftir að þau eignuðust sumarbústaðinn við Þingvallavatn, þar áttum við margar lengri eða skemmri ánægjustundir.

Fyrir allmörgum árum greindist Danni með illvígan og ólæknandi sjúkdóm og fyrir lá barátta sem farið gat á alla vegu. Það fór ekki hjá því að baráttan tæki smám saman sinn toll og markaði lífshlaupið. Þrátt fyrir að oft væri óvissa um úrslit sýndi hann æðruleysi í hverri raun. Það var því nokkuð færst í fang þegar við ákváðum að heimsækja ættingja og venslafólk í Vesturheimi.

Áttum við þar sannkallaða draumaferð. Þræddum slóðir þeirra og kynntumst lífi þeirra og forfeðra. Síðasti spölurinn var þungur og að lokum tók sjúkdómurinn öll völd. Síðasta samverustundin lifir í minningunni. Það var augljóst að hverju dró. Nú er lífsljós hans slokknað, jarðvist lokið og bjarmar af nýjum degi hins eilífa lífs. Minningarnar koma og fara í skuggaskini líðandi stundar. Við kveðjum með söknuði og biðjum algóðan Guð að veita ástvinum og fjölskyldum þeirra huggun og styrk á sorgarstund.

Blessuð sé minning Danna bróður míns,

Steinunn, Magnús

og fjölskylda,

Hvanneyri.

Elsku pabbi, það er margs að minnast, margar góðar æskuminningar sem koma upp í hugann. Við bjuggum nú ekki á mörgum stöðum, ég man eftir Bakkatúni 20, í íbúð uppi hjá ömmu og afa á meðan þú og mamma voruð að byggja húsið okkar sem við svo bjuggum alltaf í, Grundartúni 4, fyrir utan eitt og hálft ár þar sem við bjuggum á Hellu 1971-1972. Á Grundartúninu var góður bílskúr sem þú vannst mikið í við bílaviðgerðir, þú fékkst mig oft til að aðstoða þig við undirvinnu á bílum sem þú varst að sprauta og einnig man ég eftir því að hafa aðstoðað við að setja framrúður í bíla þar sem þú þurftir fleiri hendur til að halda við rúðuna. Þegar þú áttir smurstöðina á Suðurgötunni fékk ég vinnu hjá þér við innheimtu, fór um bæinn með reikninga í fyrirtækin sem þú hafðir verið að vinna fyrir og fékk þá greidda með ávísunum, að sjálfsögðu. Einnig fékk ég vinnu hjá þér eitt sumarið, þá ekki fermd, í varahlutaversluninni sem þú varst með í smurstöðinni, sem var líklega bara til þess að passa upp á verslunina á meðan þú varst að smyrja bíla. Það er alveg á hreinu að bíladelluna hef ég frá þér.

Það var nú ekki mikið um það að þú værir að taka þér sumarfrí á þessum árum, en við
fórum þó í útilegur og á hverju sumri, í langan tíma, fórum við eina viku í veiðikofa við Vesturhópsvatn, þangað var farið til að veiða silung, það brást ekki að þegar farið var út á vatnið í litlum bát þá fengum við alltaf fisk og jafnvel nokkuð væna.

Þú varst oftast hrókur alls fagnaðar þegar fjölskyldan hittist og hafðir gaman af að stríða okkur, hlóst alltaf mest sjálfur að þínum bröndurum, sem féllu ekki alltaf í góðan farveg hjá okkur systrum. Synir okkar Guðna, Örn Ingi og Haukur, nutu samvista við þig og mömmu og þá sérstaklega í Hausthúsum við Þingvallavatn þar sem þeir fóru oft með ykkur á sínum yngri árum og þú kenndir þeim að veiða og Haukur man sérstaklega eftir því að þú hafir kennt honum að keyra. Þeir minnast þess að þú hafir alltaf verið brosandi og sýnt þeim mikla hlýju. Tengdasonurinn Guðni minnist góðra stunda með þér þar sem þið höfðuð báðir mikla bíladellu og brösuðuð ýmislegt saman.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi, þín verður sárt saknað.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Guðrún, Guðni,
Örn Ingi og Haukur.