Ester Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist 30. september 1931 á Norður-Hvoli í Mýrdal. Hún lést 6. ágúst 2023 á heimili sínu, 91 árs að aldri.

Foreldrar Esterar voru hjónin Kristján Bjarnason, f. 9.5. 1901, d. 13.6. 1983, bóndi á Norður-Hvoli í Mýrdal, og Kristín Friðriksdóttir, f. 4.5. 1910, d. 23.10. 2009, húsfreyja. Systkini Esterar: Bjarni, f. 18.5. 1929, d. 6.9. 2019, rektor; Elínborg, f. 10.9. 1930; saumakona og húsfreyja í Kópavogi; Friðrik, f. 26.10. 1932, d. 24.2. 2015, rafvirki í Reykjavík; Magnús, f. 19.9. 1938, skrifstofustjóri, búsettur í Vík í Mýrdal; Þórarinn, f. 1.12. 1945; framkvæmdastjóri á Akureyri; Sigríður Kristín, f. 27.11. 1946, d. 25.11. 2016, veitingamaður, síðast búsett í Kópavogi; Sigurður, f. 20.5. 1951, vélgæslumaður í Svíþjóð.

Ester giftist hinn 31.8. 1956 Bjarna Gestssyni, f. 26.2. 1930, d. 19.11. 2013. Börn þeirra eru: 1) Sigríður Kristín, f. 13.2. 1957, d. 22.7. 2012, eftirlifandi eiginmaður hennar er Stefán Sigurðsson. Börn þeirra eru Ester og Sigurður. 2) Elín, f. 14.7. 1959. 3) Sólveig, f. 21.2. 1961, eiginmaður hennar er Þórhallur Vilhjálmsson, f. 19.11. 1961. Börn þeirra eru Vilhjálmur Reyr og Elín. 4) Gestur Valdimar, f. 18.7. 1970, börn hans eru Auður Ester, Bjarni, Ólafur Ingi og Daníel Birnir.

Útför Esterar fór fram í kyrrþey.

Ég sá hana fyrst á tröppunum við þvottahúsdyrnar. Við vorum komin saman nokkur bekkjarsystkini Sollu og höfðum bankað upp á. Við vorum að leita að selskap. Ég var ögn agndofa þegar Ester kom til dyra, svo glæsileg var hún, með svart þykkt hárið, glaðbeitt og geislandi af sjálfsöryggi. Solla er inni, en hér er ekkert partí, sagði hún með blíðu brosi. Þetta var haustið 1980 í fimmta bekk MA. Skömmu síðar tókust náin kynni með okkur Sollu og fram undan var nýr veruleiki með nýjum tilfinningum og áskorunum. Ég flutti inn á heimili Esterar og Bjarna haustið 1981. Þar kynntist ég Ester nánar. Það var alltaf myndugleiki yfir Ester í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Veturinn kom, snjóþungur, og í janúar fjölgaði enn á heimilinu þegar Vilhjálmur kom í heiminn. Þetta var á þeim tíma þegar konur á Akureyri fengu fulltrúa kjörna í sveitarstjórnarkosningum 1982. Kvennabaráttan var í hámarki og friðarhreyfingar áberandi. Ester lét sig varða jafnrétti kvenna, sótti fundi og lagði baráttunni lið. Hún lét sig þau mál miklu varða. Hún var jafnréttissinni í víðum skilningi þess orðs. Ég get ímyndað mér að það hafi ekki verið sjálfgefið að taka inn á heimilið nánast ókunnan pilt að sunnan og sjá honum fyrir fæði og húsnæði. Sambúðin gekk vel, böndin styrktust og voru allan tímann sterk og hlýleg. Eftir námið í MA 1982 flutti unga fjölskyldan til Reykjavíkur og við
Solla hófum búskap. Ester og Bjarni veittu okkur ríkan stuðning á fyrstu árum búskaparins. Séð var til þess að frystiskápurinn væri aldrei tómur fyrstu árin. Í Ester bjuggu gríðarlegir hæfileikar þegar kom að ýmiss konar handverki, ófáar voru flíkurnar sem hún prjónaði og saumaði á Sollu, Vilhjálm og Elínu. Hún hafði næmt auga og tilfinningu fyrir fallegum og vel gerðum hlutum. Hún var fagurkeri á vissan hátt. Sagt var að hún hefði eitt sinn snúið sér við á götu þegar hún sá nýjan Benz. Það var flottur bíll. Í þessum anda hafði hún mikinn metnað til þess að hafa hlutina í lagi í kringum sig, húsið og garðinn.

Það sem einkenndi Ester alla tíð var vilji hennar til þess að tileinka sér nýja hluti. Átti það ekki síst við um matargerð og garðinn. Hún var gjörn á að spyrja: „Og hvernig fórstu svo að þegar þú eldaðir þennan eða hinn matinn?“ Hún hlustaði af athygli eins og sá sem vill læra eitthvað nýtt. Ég get sagt svo margt fallegt um þessa frábæru konu. Sérstaklega á
ég eftir að sakna samtalanna, frásagna þinna og hlátursins, sem alltaf var stutt í. Minningarnar um þig munu ávallt verða mér kærar. Takk
fyrir allt. Ég kveð þig með þessum orðum, kæra Ester.

Þórhallur Vilhjálmsson.