Matthildur Björnsdóttir
Matthildur Björnsdóttir
Árið 2017 hafði langtímaþreyta kvenna á kynferðislegri áreitni magnast upp í MeToo-hreyfinguna.

Matthildur Björnsdóttir

Að hafa jafnan rétt hefur sýnt sig vera mun flóknara verkefni en við konur héldum sem gengum niður Laugaveginn árið 1975. Þá var gangan farin í baráttu fyrir jöfnum launum fyrir sömu vinnu og að makar tækju þátt í uppeldi og heimilisstörfum. Við vorum greinilega ansi einfaldar og bjartsýnar þá að trúa og vona að það gengi eftir svo allir yrðu ánægðir með lífið upp frá því!

Ég hef verið að glugga í þrjár bækur sem eru um það hversu langt er í raun í land með jafnrétti. Bók Sigríðar Theodóru Erlendsdóttur, „Veröld sem ég vil“, byrjar á sömu tregðulögmálunum varðandi það og bókin frá Ameríku sem hefur titilinn „Formidable“ eftir Elisabeth Griffith, sem er líka um hundrað ára baráttuna fyrir því að við konur hefðum jafnan rétt í tilveru okkar og karlmenn í Ameríku, þar sem kynþáttamismunun er mikil.

Svo er það bókin „Not Now, Not Ever“ – Ekki núna, aldrei, sem er um hina stórkostlegu ræðu Juliu Gilliard sem var forsætisráðherra Ástralíu og hélt þá þessa mögnuðu ræðu gegn karlrembunni og kvenfyrirlitningunni sem hún upplifði frá stjórnarandstöðunni. Máttur orða hennar hefur farið um heiminn á TikTok og öðrum fjölmiðlum.

Þegar það sem er á þessum tjáskiptasíðum kvenna er skoðað í stærra samhengi, þá er á hreinu að það voru aðilar innan trúarbragða sem og karlveldi stjórnmála sem gáfu tóninn að miklu leyti til að halda kvenkyninu niðri. Karlaveldið setti tóninn um endalaus atriði um kynin og hlutverk þeirra með meiru.

Árið 2017 hafði langtímaþreyta kvenna á kynferðislegri áreitni magnast upp í MeToo-hreyfinguna. Það reyndist tækifæri fyrir ótal konur til að tjá sig loksins um slæma meðferð karlmanna á þeim. Karlmanna með það viðhorf að þeir ættu rétt á að hafa aðgang að þeim konum sem þeir hefðu áhuga á og þörf fyrir að nota fyrir kynfæri sín. Þeir virtust telja að þær væru ekki neitt nema líkami fyrir þá til að eiga aðgang að.

Jess Hill, sem er blaðakona hér í Ástralíu, skrifaði kafla í bókina um ræðu Juliu Gilliard en hefur líka skrifað bók sem heitir „See what you made me do“ – „Sjáðu hvað þú lést mig gera“, sem er lýsing á karlmönnum sem hafa beitt ofbeldi í langan tíma og
loks drepið konuna. Það er sérkennileg hugsun, sem getur verið djúpt virðngarleysi mannsins gagnvart sjálfum sér eða upplifun á algerum eignarrétti yfir konunni. Svo skella þeir skuldinni á hana þegar hún vill losna úr sambandinu.

Í kaflanum sem hún skrifaði í bók Júlíu talar hún um að í raun sé mikið af þeirri hegðun vegna skorts á réttu uppeldi drengja sem hafa verið heilaþvegnir.

Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, lýsir því vel hvernig ójafnvægið birtist. Ef kona sýni tilfinningar sem stjórnmálamanneskja sé hún dæmd sem veiklynd en ef hún viðhafi rökhyggju sé hún dæmd sem köld. En Boris Johnson og ótal aðrir karlar í stjórnmálum og víðar mega tjá sig eins og þeim hentar á öllum skölum tjáskipta án þess að hinir karlarnir dæmi þá.

Tvískinnungurinn með karlveldisviðhorfið er um að nota rökhyggjuna eina í lífinu en hafa ekki einu sinn fengið að læra um eigin tilfinningar að gagni. Hugsanlega hafa þeir alist upp hjá einstaklingum sem héldu heilaþvotti að þeim, af því að þeir trúðu á það viðhorf og það án þess að skilja allt dæmið, sem er að við erum öll blanda af kven- og karleðli en í mismunandi útgáfum.

Þegar ég var á Íslandi man ég ekki eftir að hafa heyrt um heimilisofbeldi í fréttum eða lesið um það í blöðunum en nú birtast fréttir sem sýna að það er heilmikið heimilisofbeldi í gangi hjá þessari fámennu þjóð. Svo lærði ég seinna að skilja af dæmum í kringum mig hvað hafði verið að gerast, en bara ekki litið á það sem rangt, heldur það sem karlar ættu rétt á að gera.

Ég vissi um marga skilnaði á Íslandi á meðan ég var þar, en ekki nein tilfelli um að sá sem varð fyrir höfnun hefði drepið þann sem fór, nema einn lögfræðing sem hafði gerst sekur um það.

Í hvorugri ætt minni tóku karlmenn þátt í heimilisstörfum heldur létu konuna sjá um heimilið og slepptu háværri karlrembu. Hver ástæða þeirra var til að kúpla sig út þegar þeir komu heim er hins vegar spurning sem aldrei var spurt og því aldrei svarað.

Ungar konur hér í Ástralíu sem eru á fjölmiðlum sem ég er ekki á segja mér frá grobbinu á Íslandi um að þar sé fullkomið jafnrétti, meira en annars staðar. En fréttir frá einstaklingum sem búa þar sýna annað.

Jafnréttið er ekki heldur í huga allra karlpresta á Íslandi sem ég las um í dag, 10. júlí 2023.

Höfundur býr og starfar í Adelaide í Suður-Ástralíu.