Guðrún Aspelund
Guðrún Aspelund
Elísa A. Eyvindsdóttir elisa@mbl.is Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir segir að nýtt afbrigði af kórónuveirunni, sem greinst hefur í fjórum löndum síðastliðna viku, ekki hafa greinst hér. Enn er verið að raðgreina Covid-smit á Íslandi og heilbrigðisyfirvöld fylgjast náið með því hvort afbrigðið greinist hér.

Elísa A. Eyvindsdóttir

elisa@mbl.is

Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir segir að nýtt afbrigði af kórónuveirunni, sem greinst hefur í fjórum löndum síðastliðna viku, ekki hafa greinst hér. Enn er verið að raðgreina Covid-smit á Íslandi og heilbrigðisyfirvöld fylgjast náið með því hvort afbrigðið greinist hér.

Nýja afbrigðið af Covid-19 fannst nýverið og nefnist það BA.2.86. Hefur afbrigðið greinst í Ísrael, Danmörku og Bandaríkjunum en fylgst er náið með því vegna þeirra 30 genastökkbreytinga sem það ber.

Að sögn Guðrúnar er ekki mikið vitað um afbrigðið og einungis nokkur tilfelli sem hafa greinst. „Ástæðan fyrir því að verið er að vekja athygli á þessu eru þessar mörgu stökkbreytingar sem eru fleiri af því tagi sem fræðilega gæti valdið því að ónæmið yrði ekki eins öflugt. En þetta eru fræðilegar pælingar og það er ekkert annað sem hefur komið í ljós. Svo eru svo fá tilfelli að það er ekkert hægt að segja í rauninni eða spá eins og er,“ segir hún, spurð út í hvort þurfi að hafa áhyggjur af nýja afbrigðinu. Þá tekur hún fram að ekkert bendi til þess að einkenni séu alvarlegri meðal þeirra sem greinst hafa með afbrigðið en annarra Covid-sjúklinga.

Bætir hún við að fjölmörg afbrigði hafa komið fram frá því faraldurinn hófst og að það séu fleiri afbrigði sem auga er haft með. „Þetta er ekki orðið útbreitt en hvað verður veit maður ekki. Það eru önnur afbrigði miklu algengari,“ segir hún.

Spítalainnlögnum ekki fjölgað

Guðrún segir að á síðustu vikum hafi kórónuveirusmitum fjölgað. „Það var einhver fjölgun hjá okkur en líka á meginlandi Evrópu og Norðurlöndunum undanfarnar vikur og það hefur líka verið annars staðar. En spítalainnlögnum hefur ekki fjölgað,“ segir hún og bætir við að vænta megi þess að fleiri tilfelli komi til með að greinast í haust og vetur. „Því auðvitað er viðbúið að útbreiðslan verði meiri í haust og vetur. Maður á von á því með þessu flensutímabili en það er ekki alveg komið mynstur á það hvernig veiran hagar sér,“ segir Guðrún.

Þá segir Guðrún frá því að nýjar leiðbeiningar komi út í september um hvernig bólusetningu vegna Covid verði háttað. „Áætlunin er í raun að við mælum með örvunarbólusetningu fyrir eldra fólk og áhættuhópa. Hún myndi líka standa til boða forgangshópum eins og til dæmis heilbrigðisstarfsmönnum sem eru meira útsettir. Það verða þá þessir hópar, ekki allir, og þess vegna ætlum við að bjóða þetta með inflúensubólusetningunni. Þannig að þau sem vilja þiggja geta þá fengið hvort tveggja í einu en auðvitað er það þá bara val,“ segir hún.

Ekki fer á milli mála að smitsjúkdómar takast á flug á haustin og veturna en að sögn Guðrúnar verða öndunarfærasýkingar sérstaklega útbreiddar.

„Þær hafa þetta munstur, inflúensan er venjulega komin um haustið og er svo fram á vor. Síðan RS-veira, sem leggst aðallega á yngri börn og eldra fólk. Í fyrra var mikið um streptókokka en það var bara meira um þá og þá meira um alvarlegar sýkingar þar sem fólk þurfti að leggjast inn því sýkingin fer í blóð og vefi,“ segir hún. Guðrún tekur fram að það verði ekki endilega þannig aftur í vetur því mynstrið hafi verið óvenjulegt síðastliðin tvö til þrjú ár vegna heimsfaraldursins.

Höf.: Elísa A. Eyvindsdóttir