Búdapest Guðni Valur Guðnason kastaði kringlunni 62,28 metra sem er hans besti árangur á stórmóti en það dugði ekki til þess að komast í úrslit.
Búdapest Guðni Valur Guðnason kastaði kringlunni 62,28 metra sem er hans besti árangur á stórmóti en það dugði ekki til þess að komast í úrslit. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason hafnaði í 22. sæti á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem nú stendur yfir í Búdapest í Ungverjalandi. Guðni kastaði 59,97 metra í fyrstu tilraun undanrásanna en hans annað kast var ógilt

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason hafnaði í 22. sæti á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem nú stendur yfir í Búdapest í Ungverjalandi.

Guðni kastaði 59,97 metra í fyrstu tilraun undanrásanna en hans annað kast var ógilt. Í þriðju tilraun kastaði hann 62,28 metra sem er jafnframt lengsta kast hans á stórmóti á ferlinum en hann hefði þurft að kasta lengra en 63,79 metra til þess að tryggja sér sæti í úrslitunum.

Hann varð ellefti í sínum riðli í undanrásunum og hafnaði að endingu í 22. sæti.

Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson náði sér ekki á strik í sinni grein en öll þrjú köst hans í undanrásunum voru ógild. Fyrstu tvö köstin enduðu í netinu og það þriðja og síðasta fór út fyrir geira.

Hilmar hefði þurft að kasta nálægt eigin Íslandsmeti í greininni, 77,10 metra til þess að vera öruggur inn í úrslitin.

Þeir Guðni Valur og Hilmar Örn hafa því lokið keppni á HM í ár en kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir, sem er að taka þátt á sínu fyrsta heimsmeistaramóti, keppir í undanrásum laugardaginn 26. ágúst.

Heimsmeistaramótinu lýkur á sunnudaginn kemur, hinn 27, ágúst, og voru þau Guðni Valur, Hilmar Örn og Erna Sóley einu keppendur Íslands á mótinu.