Heimsmeistarar Fyrirliðinn Ivana Andrés lyftir bikarnum við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna.
Heimsmeistarar Fyrirliðinn Ivana Andrés lyftir bikarnum við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna. — AFP/Franck Fife
Olga Carmona reyndist hetja Spánverja þegar liðið tryggði sér heimsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar eftir nauman sigur, 1:0, gegn Englandi í úrslitaleik mótsins í Sydney í Ástralíu í gær

Olga Carmona reyndist hetja Spánverja þegar liðið tryggði sér heimsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar eftir nauman sigur, 1:0, gegn Englandi í úrslitaleik mótsins í Sydney í Ástralíu í gær.

Markið kom nánast upp úr engu á 29. mínútu en boltinn barst til Mariu Caldentey úti á vinstri kantinum. Carmona átti frábært hlaup upp kantinn og Caldentey sendi hann á Carmonu sem átti viðstöðulaust skot, utarlega í teignum, og boltinn söng í fjærhorninu.

Spánverjar fengu gullið tækifæri til þess að auka forystu sína á 70. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd eftir að boltinn fór í hönd Keiru Walsh en Mary Earps í marki Englands varði frábærlega frá Jennifer Hermoso.

Spánverjar voru að taka þátt á heimsmeistaramótinu í þriðja sinn en liðið náði sínum besta árangri, fyrir mótið í ár, á HM 2019 þar sem Spánn tapaði fyrir verðandi heimsmeisturum Bandaríkjanna í 16-liða úrslitunum, 2:1.

Svíþjóð hafnaði svo í þriðja sæti mótsins eftir nokkuð þægilegan sigur gegn Ástralíu í bronsleiknum í Auckland á laugardaginn, 2:0. Það voru þær Fridolina Rolfo og Kosovare Asllani sem skoruðu mörk sænska liðsins. Þetta voru fjórðu bronsverðlaun Svía á heimsmeistaramóti.

Spánverjinn Aitana Bonamatí var valin besti leikmaður mótsins og landa hennar, Salma Parallueo, var valin besti ungi leikmaður mótsins en hún er fædd árið 2003. Mary Earps, markvörður Englands, var valin besti markvörður mótsins og japanski miðjumaðurinn Hinata Miyazawa var markahæst á mótinu með fimm mörk.