Karl Sigurðsson fæddist 13. júlí 1934. Hann lést 6. ágúst 2023. Útför Karls fór fram 16. ágúst 2023.

Borinn var til grafar elsku móðurbróðir minn, Karl Sigurðsson frá Höfn í Hornafirði. Hann var yngstur af ellefu systkinum barna Sigurðar Eymundssonar og Agnesar Moritzdóttur Steinsen, sem voru ein af frumbyggjum Hafnar í Hornafirði, og nú er sá systkinahópur allur farinn frá okkur. Við ættingjarnir getum þakkað honum fyrir svo margt, en ekki síst tenginguna við fortíðina til afa og ömmu sem dóu bæði svo ung að margir afkomendurnir misstu af kynnum við þau. Hugur minn leitar æ oftar til þess tíma er hann og móðir mín, Ragna, voru eftir í heimili með Sigurði afa eftir að Agnes amma dó árið 1951 aðeins 55 ára að aldri. Kalli var þá unglingur, en tók án efa á sig mikla ábyrgð. Sigurður afi deyr síðan 1956 og þá tekur Kalli alfarið við búi hans og bernskuminning mín tengist heimsóknum til Kalla og Berthu, konu hans, í Haga. Hann lýsti þessum árum fyrir mér þegar hann var mín stoð og stytta við dánarbeð móður minnar fyrir nokkrum árum; veikindum móður hans, Agnesar, og svo hvernig hann fylgdi Sigurði afa eftir, strákurinn Kalli – þegar faðir hans vitjaði þeirra sem áttu í veikindastríði eða gamalmenna sem þurftu hjálpar við.

Það var á milli þeirra systkina, Rögnu mömmu og hans, einstakur kærleikur og umhyggja, þar var Kalli styrkurinn, kom gjarnan í heimsókn fullur væntumþykju – en samt ekki með neitt volæði yfir lífinu. Mamma var alltaf með við rúmgaflinn sinn kommóðu sem Kalli bróðir smíðaði og gaf henni í fermingargjöf og stofuborðið heima á Brunnhól var lengi lítið snoturt borð sem hann hafði smíðað og kom frá Haga – heimilinu þar sem þau ólust upp.

Kalli var nefnilega dugnaðarforkur til allra verka, stórbrotinn persónuleiki og einstakt góðmenni, alltaf hress og kátur og þægilega hreinskiptinn í samskiptum. Við systur heimsóttum hann á Skjólgarð þremur vikum fyrir andlátið, það var skemmtileg stund, hann var að vanda hressilegur þó að „skrokkurinn væri aumur og önnur höndin hlýddi honum ekki alltaf”. Hann var ánægður með það að hann var búinn að ná því markmiði að verða elstur af sínum systkinum. Það leyndi sér ekki stoltið og gleðin yfir afkomendunum öllum, fjölskyldan var honum allt. Hann talaði af mikilli virðingu um Berthu sína, gáfur hennar og tónlistarhæfileika, og af djúpum skilningi um veikindi hennar sem auðvitað höfðu markað líf þeirra beggja og fjölskyldunnar. Þar mátti skynja sterkt lífsýn hans og umhyggju án þess þó að dæma, svo og ríka ábyrgðartilfinningu gagnvart öllu hans fólki.

Það var mjög í hans anda að kveðja bara eina nóttina svo enginn þyrfti að hafa fyrir honum. Kveðjustundin í Hafnarkirkju var ógleymanleg tónlistarhátíð þar sem harmónikkan var í öndvegi, þessi mikli tónlistarmaður og „lífskúnstner” átti sannarlega skilið slíka kveðjustund.

Blessuð sé minning Kalla frænda.

Þorbjörg Arnórsdóttir.