Tækniskólinn Tækniskólinn hefur aldrei verið eftirsóttari en nú.
Tækniskólinn Tækniskólinn hefur aldrei verið eftirsóttari en nú. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Mist Þ. Grönvold mist@mbl.is Tækniskólinn var rekinn með 118 milljóna króna tapi á síðasta ári, en árið 2021 skilaði skólinn 171 milljónum í hagnað. Þetta kemur fram í ársreikningi skólans frá árinu 2022. Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir að tapið megi rekja til meðvitaðrar ákvörðunar stjórnar skólans og skólastjórnenda um að halda nemendafjölda óbreyttum þrátt fyrir að nemendaígildum hafi fækkað í fjárlögum milli ára.

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Tækniskólinn var rekinn með 118 milljóna króna tapi á síðasta ári, en árið 2021 skilaði skólinn 171 milljónum í hagnað. Þetta kemur fram í ársreikningi skólans frá árinu 2022. Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir að tapið megi rekja til meðvitaðrar ákvörðunar stjórnar skólans og skólastjórnenda um að halda nemendafjölda óbreyttum þrátt fyrir að nemendaígildum hafi fækkað í fjárlögum milli ára.

Hallinn meðvituð ákvörðun

„Þó nemendaígildum hafi verið fækkað um 80 í fjárlögum milli áranna 2021 og 2022 var tekin ákvörðun um að halda nemendafjölda í skólanum óbreyttum, þrátt fyrir að ljóst væri að sú ákvörðun myndi koma skólanum í halla,“ segir Hildur, en síðustu ár hefur rekstur Tækniskólans gengið vel. „Skólinn taldi sig í stakk búinn til þess að takast á við fyrirséðan halla. Í ljósi rekstrarafgangs undanfarinna ára var ákvörðunin tekin á aðalfundi ársins 2022,“ segir Hildur.

Hún segir rekstrarhallann ekki koma til með að kosta beinan niðurskurð eins og er, heldur minnki handbært fé skólans. „Tapið hefur í sjálfu sér engin sérstök áhrif á reksturinn eins og er en eigið fé skólans minnkar eðlilega. Þetta hefur ekki bein áhrif á nemendur, kennara eða skólahald að svo stöddu. Þótt skólinn sé einkarekinn er hagnaður aldrei greiddur út, hann fer beint í skólastarfið líkt og bæði samþykktir skólans og þjónustusamningur við mennta-og barnamálaráðuneytið kveður á um. Þannig að nú nýtum við okkur það að gengið hefur vel undanfarin ár til þess að taka inn fleiri nemendur þó svo að það þýði að við verðum rekin með tapi,“ segir Hildur.

Hún segir nemendaígildum hafa fjölgað aftur um 100 árið 2023 og vonast hún til þess að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum til þess að hægt sé að anna mikilli eftirspurn umsækjenda sem sækjast eftir því að stunda nám við Tækniskólann.

Treysta á fjárveitingar

Hildur segist ekki hafa miklar áhyggjur af rekstrarhallanum þó betra væri að reka skólann með hagnaði. „Við höfum ekki sérstakar áhyggjur af þessum rekstrarhalla í fyrra eða af því hvernig þetta ár mun koma út. Svo kemur að því að við þurfum að hafa meiri áhyggjur af því og þar treystum við á auknar fjárveitingar ríkisins. Auðvitað vill maður reka svona stofnun í plús, en stundum er plús og það getur líka komið mínus,“ segir Hildur. „Þetta heldur ekki fyrir okkur vöku en þýðir samt það að við þurfum að passa okkur mjög vel í rekstrinum og treysta jafnframt á aukin framlög frá ríkinu á næstu árum. Við getum gengið á eigið fé upp að ákveðnu marki en við gerum það ekki endalaust,“ bætir hún við.

Aðsókn í Tækniskólann hefur stóraukist á milli ára og voru umsækjendur úr grunnskóla til að mynda 460 í ár ef horft er til fyrsta vals. Til samanburðar settu 272 nýútksrifaðir grunnskólanemendur Tækniskólann í fyrsta val fyrir fimm árum síðan, árið 2018.

„Við viljum ekki þurfa að synja nemendum um skólavist,“ segir Hildur. „Við viljum geta tekið fleiri inn, en þá þurfum við aukið fjármagn, stærra húsnæði og tíma til undirbúnings. Við erum orðin mjög aðþrengd í húsnæði og það stendur til að byggja nýjan skóla, en það er alltaf rosalega sárt að synja umsækjendum um nám sem þeir eiga bæði fullt erindi í og nám sem við vitum að skilar miklu til samfélagsins.“

Með aukinni eftirspurn hefur nemendaígildum Tækniskólans í fjárlögum fjölgað um 20% undanfarin fimm ár, en Hildur segir það ekki duga til þess að anna eftirspurn nemenda. Þá bindi stjórn Tækniskólans vonir við aukin framlög ríkisins sem og nýtt skólahúsnæði sem til stendur að reisa í Hafnarfirði á næstu árum.