Listakona Rauðu verðlaunavasarnir eftir Dagnýju Gylfadóttur eru búnir til úr fljótandi postulíni.
Listakona Rauðu verðlaunavasarnir eftir Dagnýju Gylfadóttur eru búnir til úr fljótandi postulíni. — Morgunblaðið/Eggert
Elísa A. Eyvindsdóttir elisa@mbl.is Sigurvegarar í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina fengu glæsilegan verðlaunagrip, sem Dagný Gylfadóttir keramikhönnuður gerði undir merkinu DAYNEW. Er Dagný nokkuð reynd í gerð verðlaunagripa og er þetta í fjórða skiptið sem hún tekst slíkt verkefni á hendur en hún hannaði meðal annars verðlaunagripina fyrir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra.

Elísa A. Eyvindsdóttir

elisa@mbl.is

Sigurvegarar í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina fengu glæsilegan verðlaunagrip, sem Dagný Gylfadóttir keramikhönnuður gerði undir merkinu DAYNEW. Er Dagný nokkuð reynd í gerð verðlaunagripa og er þetta í fjórða skiptið sem hún tekst slíkt verkefni á hendur en hún hannaði meðal annars verðlaunagripina fyrir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra.

„Hrefna Hlín hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur hafði samband við mig og bað mig um að búa til verðlaunagripina fyrir maraþonið í ár, en þar áður bað hún mig um að gera verðlaunagripina fyrir Laugavegsmaraþonið fyrr í sumar. Þeim leist svo vel á allt sem ég er að gera og vildu að ég tæki þátt í að gera grip fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Ég gerði þetta líka í fyrra og allir voru svo ánægðir þannig að þau ákváðu að ég myndi gera þetta aftur,“ segir hún. Að sögn Dagnýjar hafði verið ákveðið að verðlaunagripirnir í ár yrðu í þeim rauða lit sem einkennir Reykjavíkurmaraþonið.

„Í maraþoninu í fyrra vorum við með alls kyns liti en í ár var ákveðið að vera með rauða og hvíta Reykjavíkurmaraþonslitinn. Ég stakk upp á því að rauði liturinn yrði neðst og myndi flæða upp vasann. Það er svo mikill kraftur í rauða litnum,“ segir hún og bætir við að lögun vasanna sé heldur engin tilviljun. „Lagið á vösunum sem ég er með er hugsað eins og þetta sé vatnsdropi sem gefur blómunum líf,“ bætir Dagný við.

Hálfgert maraþon að búa til alla verðlaunagripina

Ef vel er að gáð sést einnig glitta í fallegar gullyrjur sem Dagný segir gefa vösunum einstaklega fallegt og fjölbreytt yfirbragð. „Það gefur þetta auka sem manni finnst oft vanta. Svo breyta þeir svolítið um lit eftir dagsljósinu, þannig að á kvöldin eru þeir allt öðruvísi en á daginn. Mér finnst gullið gefa þeim svo mikið líf,“ segir hún.

Þá tekur hún fram að það hafi verið heljarinnar verkefni að búa til alla verðlaunagripina enda um að ræða 24 vasa í fimm mismunandi stærðum. „Það má segja, því ég var að búa þetta til í allt sumar, að þetta hafi verið hálfgert maraþon að búa til alla vasana,“ segir hún kímin. Hver og einn vasi tekur í framleiðslu, frá upphafi til enda, um eina viku.

Dagný hefur verið í keramikgerð í rúman áratug en hún hefur unnið við keramikhönnun síðan hún útskrifaðist árið 2014 frá University of Cumbria á Englandi. „Svo er ég núna einn af eigendum gallerísins Kaolin á Skólavörðustíg. Við erum sex konur sem eigum þetta saman og sú sjöunda er að byrja hjá okkur í september,“ segir hún.

Þeir, sem vilja eignast sinn eigin verðlaunagrip geta fylgst spenntir með nýrri vörulínu sem vænta má í vetur. Þá er einnig hægt að fylgjast með Dagnýju á Instagram undir nafninu daynew_dagny.

Höf.: Elísa A. Eyvindsdóttir