Parkinson Var frábær sjónvarpsmaður
Parkinson Var frábær sjónvarpsmaður — AFP/Justin Tallis
Hinn breski Michael Parkinson, sem lést á dögunum, 88 ára gamall, var einstakur spjallþáttastjórnandi. Í sjónvarpsþátt hans komu í áratugi stærstu stjörnur heims og voru yfirleitt eins og heima hjá sér

Kolbrún Bergþórsdóttir

Hinn breski Michael Parkinson, sem lést á dögunum, 88 ára gamall, var einstakur spjallþáttastjórnandi. Í sjónvarpsþátt hans komu í áratugi stærstu stjörnur heims og voru yfirleitt eins og heima hjá sér. Parkinson, sem landar hans kölluðu Parky, hafði einstakt lag á að ná til viðmælenda sinna og laða fram það besta í fari þeirra. Parkinson virtist vera svo mikill indælisnáungi að ekki var annað hægt en að líka vel við hann. Hann hafði mikinn og góðan húmor og því var iðulega hlegið í þáttum hans.

Hann leyndi aldrei hrifningu sinni á þeim stórstjörnum sem til hans komu. Hann horfði með aðdáun á hnefaleikakappann Muhammad Ali og virtist varla trúa því að hann væri að taka viðtal við þessa miklu goðsögn.

Parkinson, sonur námuverkamanns, var alls ekki snobbaður, þótt hann fengi stjörnur í augu við að hitta hetjurnar sínar. Hann setti sig ekki á háan hest og gerði einungis örfá mistök á löngum ferli. Hann setti ofan í við Meg Ryan þegar honum þótti stjarnan of fýluleg og talaði niður til Helen Mirren. Þessi mistök viðurkenndi hann fúslega.

Parky var hlýr og fyndinn og hafði sannan áhuga á viðmælendum sínum. Hans er saknað.